26.2.2015 | 19:58
Látið drauminn rætast!
Herranótt er elsta leikhefð og upphaf leikhúss á Íslandi. Það voru því blikur á lofti 1957 þegar upp komu hugmyndir um að leggja hana niður vegna mikils tapreksturs. Voru sýningar hennar þó mun fyrirferðarmeiri í leiklistarlífi Reykjavíkur þá en síðar, og leikdómarar fjölluðu um hana í dagblöðum.
Menntaskólakennarar með Einar Magnússon í broddi fylkingar tóku þá af skarið varðandi það að gefa Herranótt eitt tækifæri til þess að verða taplaus.
Leiknefndin, undir eftirliti Einars, stórjók sjálfboðavinnu og setti markið hátt með því að taka fyrir leikritið "Vængstýfða engla" í Herranótt 1958, sem bróðir eins menntaskólakennarans, Bjarni Guðmundsson, þýddi af snilld.
Þetta þótti fífldirfska, því að kvikmyndin "Vængstýfðir englar" skartaði fremstu kvikmyndaleikurum þess tíma, Humpfrey Bogart, Peter Ustinov og Aldo Ray.
Skemmst er frá því að segja að Herranótt var bjargað, því að sýningin sló í gegn með á annan tug sýninga, meðal annars úti á landi, og gróðinn af sýningunni nægði til að borga skuldir Herranætur og gott betur.
Árið eftir, 1959, var markið sett enn hærra og fífldjarfara með því að sýna Þrettándakvöld eftir William Shakespeare.
Og þótt ótrúlegt megi virðast, tókst enn betur til en 1958 og fékk sýningin afbragðs dóma.
Leikritin voru ólík, sem af dirfsku og ákefð voru sett á svið þessi tvö ár, og viðfangsefni Herranætur nú er af enn einum toga.
En það er ástæða til að óska Herranótt til hamingju með það að sækja fram af dirfsku undir kjörorðinu: Látum drauminn rætast! Það stekkur enginn lengra en hann hugsar!
Færa Herranótt á annað level | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.