Verst ef "smábilun" kostar stórfelldar hamfarir.

Tölvuknúin sjálfvirkni hefur farið sívaxandi á öllum sviðum í lífi mannkynsins í áratugi og virðist ekki vera hægt að sjá fyrir endann á því. 

Því víðtækari og meiri sem hún verður, því meiri líkur eru á því að bilanir, jafnvel á afar afmörkuðum sviðum, valdi stórfelldum vandræðum, allt upp í gereyðingu mannkynsins. 

Á fyrri hluta Kalda stríðsins var það áhyggjuefni Bandaríkjamanna að Rússar voru á eftir þeim í tölvuvæðingu stýribúnaðar vopnakerfa sinna og notuðu enn lampatæki. 

En í ljós hafði komið að svonefnt segulhögg af kjarnorkusprengingum gæti eyðilagt tölvukerfi Kananna en hins vegar stæðust gömlu lampatæki Rússanna slík högg.

Á tíma MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) þurfti ekki nema smábilun í einni tölvu til þess að hleypa af stað kjarnorkustríði.

Það kom óþyrmilega í ljós 26. september 1983 þegar bilun í sovéska kerfinu sýndi að Bandaríkjamenn hefðu sett af stað kjarnorkuárás á Sovétríkin.

Stanislav Petrov, sem var á vakt, taldi sig ekki hafa tíma til þess að ráðfæra sig við æðstu stjórnendur Sovétríkjanna, heldur taldi hann líklegast að um bilun í tölvu í aðvörunarkerfinu væri að ræða. Ef málið færi alla leið, yrði ekki komist hjá kjarnorkustríði. 

Þetta mat Petrovs reyndist vera rétt mat, en honum var refsað með því að hann var rekinn úr starfi sínu fyrir agabrot.

Heimsbyggðin hafði þá ekki minnstu hugmynd um þetta mál.

Í fyrra var frumsýnd verðlaunaheimildamynd um þetta og Petrov heiðraður.

Í dag sjáum við fréttir um samvinnu nokkurra af öflugustu bílaframleiðenda heims til að þróa sjálfvirka bílaumferð.

Ætlunin með tölvustýrðum bílum er sú að vera til þæginda fyrir ökumenn og gera umferðina greiðari og öruggari. Vonandi verður líka hugað að líkum á bilunum og röngum ákvörðunum tölvanna svo að ávinningurinn af sjálfvirkninni verði meiri en tjón af hennar völdum.     


mbl.is Snjallsjónvörp misstu vitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1408346/

ls (IP-tala skráð) 27.2.2015 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband