SIGUR Í ORRUSTU - STRÍÐIÐ HELDUR ÁFRAM

Dýrmætur sigur vannst í Hafnarfirði í baráttu Davíðs við Golíat og verður hann uppörvun fyrir þá sem standa í baráttunni um íslenska náttúru. Sigurinn ætti að kenna mönnum að hætta að tala niður til umhverfisverndarfólks og kalla það lopapeysulið, skemmtikrafta og lúsera. En þótt sigur hafi unnist í mikilvægri orrustu er stríðinu ekki lokið.

Núna er allt á fullu í undirbúningi álvera í Helguvík og Þorlákshöfn og Jónína Bjartmarz talaði í fréttum Stöðvar 2 í gær um "sátt" um álver við Húsavík sem fengi orku frá Þeystareykjum. Jónína gat þess ekki að álverið ætti líka í byrjun að fá orku frá nýjum borholum í Bjarnarflagi, Kröflu og jafnvel Gjástykki og ekki gat hún þess heldur að áform væru uppi um virkjun Skjálfandafljóts.

Fulltrúar allra álfyrirtækjanna sem hingað hafa sótt hafa sagt að lágmarksstærð álvera til framtíðar sé 500 þúsund tonn. Þess vegna vildi Alcan stækka álverið í Straumsvík. Þetta þýðir þegar álverin þrjú, sem nú er verið að undirbúa, hafa stækkað, eiga eftir að taka til sín nær allt það sem eftir stendur af virkjanakostum á Íslandi á meira en þrjátíu virkjanasvæðum með ómældum spjöllum á íslenskri náttúru. 

Síðan má búast við að álverið í Reyðarfirði þurfi stækkunar við og þegar allt þetta verður að veruleika fara Kerlingarfjöll, Torfajökulsvæðið, Markarfljót, Langisjór, Hómsá, skagfirsku árnar og Jökulsá á Fjöllum fyrir lítið. Það verður lítið mál að aflétta friðun af síðastnefndu ánni rétt eins og Kringilsárrana fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Lúðvík Geirsson gaf í viðtali við útvarpið í skyn að árið 2010 gæti stækkun álversins aftur orðið á dagskrá. Stríðið er því ekki búið þótt orrusta hafi unnist. Hún vannst með sameiginlegu átaki og ómetanlegur var skerfur landeigenda við Þjórsá á lokasprettinum.

Það leit ekki út fyrir það í ársbyrjun að byrlega blési fyrir andstöðu fyrir austan, - orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda" leituðu á hugann á fyrsta undirbúningsfundinum. En eftir glæsilegan fund í Árnesi náðu menn vopnum sínum og allir þeir sem lögðu gríðarlega vinnu í þessa baráttu eiga þakkir skildar fyrir þennan tímamótaárangur sem gefur fordæmi fyrir baráttuna framundan.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Það þarf greinilega ekki á neinum vísindamönnum að halda, tilraunaholum eða neinu þegar hægt er að skilgreina orkuöflun svo snarlega. Það eru uppi "áform" um að virkja ótrúlegustu fyrirbæri á Íslandi sumt gáfulegt og annað beinlínis arfavitlaust. Litlar virkjanir eins og t.d. hér við Eyjafjörð lofuðu góðu en því miður reyndist ein þeirra ekki nægilega traust. En með litlum virkjunum þar sem uppistöðulón eru lítil eins og þar var eru eftirsóknarverður kostur. Því er um að gera að skoða alla kosti og kasta ekki rýrð á þá hluti.

Virkjun á Skjálfandafljóti er ekki eftirsóknarverð, jafnvel Þingeyingar hafa lýst þeirri skoðun. Þannig að græðgin er ekki eins mikil og þú vilt vera láta í þessu innleggi. Það er mikilvægt að fara með rétt mál - enginn málstaður er svo góður að það eigi ekki að segja satt.

Lára Stefánsdóttir, 1.4.2007 kl. 00:51

2 identicon

Vill þakka Hafnfirðingum fyrir að skynsemina og þér Ómar fyrir að koma Íslandi til bjargar í nauð!

Hálfdán Kristjáns (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 01:04

3 Smámynd: Magnús Jónsson

Hvað varð um skoðun þína Ómar að virkjanir í mangerðu umhverfi væru í lagi, eru ekki að láta atvinnu pólitíkina  ná tökum á þér, ekki fara í þan farveg að bölva öllum sem vilja virkja, að ekki sé minnst á einn hagkvæmasta virkjunar kost sem völ er á það er í neðri þjórsá. Auðvitað verður það ekki fórnarlaust en hvað gerum við men sem er á fórna, eru það ekki náttúruspjöll að setja niður grenitré, planta lúpínu, dreifa hundasúru um svarta sanda eða nauðlenda flugvélum um allar trissur sem þú átt sennilega Íslands ef ekki heimsmet í, ekki það að ég telji það mikil spjöll þó FRÚIN hafi þurft að tilla sér án samráðs við bóndan.Haltu þig við það sem þú trúir á Ómar láttu ekki draga þið út í drullu pollinn þar sem men segja það sem þeir halda að aðrir vilji heyra, ég mun ekki kjósa þig en ég vil heyra það sem þér finnst, en ekki það sem þú eða fylgifiskar þínir halda að ég vilji heyra.Kveðja Magnús

Magnús Jónsson, 1.4.2007 kl. 01:25

4 identicon

Til hamingju með úrslit.

Vil samt benda Ómari á að mér finnst ómögulegt ef við séum að lýsa yfir einhverju stríði. Stríð elur af sér illsku... horfum frekar á hvað við viljum og hverju við erum MEÐ.. en ekki á hvað við ekki viljum. "Law of atraction", The Secret.  Meginn boðskapurinn þar er.. Við drögum til okkar það sem við hugsum.. það neikvæða líka.

Þess vegna segjum við..

Við erum MEРVerndun landsins, Hagsæld, Fegurð og Friði

Munum að koma málum okkar á framfæri af drengskap og heiðarleika og virðum skoðanir annara.

Megi þið eiga gæfuríka daga fyrir kosningar.

Björg F (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 01:31

5 identicon

Til Hamingju Húsavík / Helguvík

Vilji íbúa Hafrnarfjarðar er kýrskýr og ekkert verður af stækkun. Þar sem vitað er að á bæði  Húsavík og í Reykjanesbær er gífurlega mikill stuðningur við álver er ljóst að þar munu rísa myndarleg álver innan tíðar.  Vilji íbúa ræður og þá ber að virða þeirra vilja eins og Hafnfirðinga.  Gott mál.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 01:38

6 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Akkurat Sveinn  þeetta mun eingöngu flýta fyrir álverum í Helguvík og Húsavík  og jafnvel Þorlákshöfn

Guðmundur H. Bragason, 1.4.2007 kl. 02:03

7 identicon

KONUR voru einungis 14% starfsmanna ISAL í nóvember 2001. Meðalaldur allra starfsmannanna var 44 ár og einungis 43% þeirra voru búsettir í Hafnarfirði. Konur vilja mun frekar vinna í þjónustu og þekkingargreinum en þar eru greidd mjög góð laun. Um 80% kvenna hér starfa í þeim greinum en einungis 54% karla. Þenslan er gríðarleg hér, verðbólgan 7% í ár og erlent vinnuafl alla vega níu þúsund manns, eða 9% af heildarvinnuaflinu. Samt sem áður sárvantar margar greinar hér vinnuafl. Það er því engin þörf á stækkuðu álveri í Hafnarfirði eða nýjum álverum, heldur þvert á móti, burtséð frá öllum umhverfisáhrifum.

Hér eru vextirnir með þeim hæstu í heimi vegna þenslunnar og launin halda síður en svo alltaf í við verðbólguna. Íbúðarlán upp á 20 milljónir króna, jafngreiðslulán til 40 ára með 5% föstum vöxtum og verðbólgunni hér í ár, 7%, kostar um 240 milljónir króna, eða 6 milljónir á ári að meðaltali. Verðbólgan á evrusvæðinu er aftur á móti 1,9% og væri sama verðbólga hér myndi slíkt lán kosta 69 milljónir króna, um 1,7 milljónir á ári að meðaltali. Há laun eru því engan veginn aðalatriðið, heldur kaupmátturinn, verðbólgan, verðlagið og vextirnir. Hér hækkar allt verðlag í hverjum mánuði og áhrifin af lækkun virðisaukaskattsins 1. mars verða fljótlega horfin með öllu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 03:09

8 identicon

Ómar Ragnarsson, ertu á móti álveri við Bakka á Húsavík? Svaraðu þessu skýrt. Þú heldur fram óþolandi hræðsluáróðri en vegna uppbyggingar við stóriðju, álver á Húsavík, er ekki áformað að virkja Skjálfandafljót. Þú vildir sjálfur virkja Þeistareyki vegna álvers á Reyðarfirði. Þú talar í hringi en vilt um leið láta taka þig alvarlega. Ég vara þig við að nýta þér frægð þína, það verður þér dýrkeypt.

   Það er enginn að tala niður umhverfisverndarfólk, það er verið að tala niður öfgar. Öfgar sem meðal annars þú beitir, Framtíðarlandið og fleira fólk sem hefur engan skilning á lífi á landsbyggðinni. Ég er umhverfisverndarsinni þó ég styðji álver á Húsavík, ekki síst í byggðalegu tilliti. Þú ert skemmtikraftur í pólítík en ekki stjórnmálamaður, ert og verður skemmtikraftur og haltu þig bara við það sem þú gerir best og sleppu því að reyna að líta út fyrir að vera í pólítík.

   Þú hefur enn ekki svarað því hvers vegna þú ert á móti álveri við Húsavík, ég hef í þrígang lagt fyrir þig þessa spurningu. Annað hvort svara þú eða leggur niður þessa bloggsíðu. Það er óábyrgt að gapa hér á ábyrgðar og svara ekki fyrir sig.

   Það er fólk eins og þú sem hefur skemmt fyrir vitrænni umræðu um umhverfismál með öfgum, hræðsluáróðri og segja annað hvort ertu með eða á móti. Vill Íslandshreyfingin koma Elliðaám í náttúrulegt horf? Það er óþolandi svona fólk sem talar alltaf án ábyrgðar og er ekki með lausnir í neinum málum, aðeins á móti umhverfisins vegna. Ég er umhverfissinni og ég þarf ekki fólk eins og þig sem segir mér annað. Þú ákveður ekki hvort fólk er umhverfisverndarsinnað eða ekki. Það er ömurlegur málflutningur þinn um umhverfisvernd, þú átt hlut í því að skemma fyrir vitrænni umræðu um málið. Það að segja um stríð sé að ræða er viðbjóðsleg tilvísun og að hvert álver sé orusta! Hvernig vogarðu þér að stilla málum svona upp. Hér er ekki um stríð að ræða og að ræða um báráttu framundan er slæmur boðskapur, þú eldur á tortryggni og neikvæðni. Það finnst mér sorglegt af manni sem vill láta taka sig alvarlega. Sorglegt vegna þess að þú ert þjóðþekkt persóna sem fólk tekur mark á en þú virðist hafa gleymt þessari staðreynd.

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 03:11

9 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Hann fer mikill þessi Ísalands fljúgadi Don Kví Kvóti sem að fornum sið berst við

vindmyllur sem þó teljast visvænar skjaldmeyjar í baráttunni við mengunar dregann.

En eins og forðum kann kappinn sér ekki hófs og lítur í lægra haldi þegar hann hefur

undan sér skorið, þann mátt sem gerir honum kleyft að flúga um á fáki sínum,

FRÚNNI.

Leifur Þorsteinsson, 1.4.2007 kl. 07:28

10 Smámynd: Haukur Kristinsson

til hamingju reykjanesbær, nú mun reisa nýr álversbær hjá ykkur, hafnað hjá okkur svo þið fáið ykkar álver, held ég flytji til ykkar ef ég má

Haukur Kristinsson, 1.4.2007 kl. 08:29

11 identicon

LEIÐRÉTTINGAR

EKKI stendur til að virkja Skjálfandafljót fyrir Húsavík

Fulltrúar allra álfyritækja hafa EKKI sagt að lágmarksstærð sé 500 þús tonn.

ENGAR áætlanir eru um Kerlingarfjöll, Torfajökulsvæðið, Markarfljót, Langisjór, Hómsá, skagfirsku árnar og Jökulsá á Fjöllum fyrir lítið. (Þó að Orkustofnun taki út alla virkjunarkosti er ekki verið að leggja til virkjun þeirra)

VARÚÐ Hér eru um órökstuddan hræðsluáróður sem settur er fram á ósanngjarnan hátt til að villa um fyrir fólki.

Mér finnst óþolandi að þurfa standa í einhverjum leiðréttingum hérna bara vegna fáránlegra rangfærslna. Er nefnilega ekki almennt hlynntur álvæðingu landsins.

Siggi (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 09:18

12 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Siggi, það er ekki nýtt að hinir miklu náttúru vinir grípi til lýginar

því ekki duga sannindin. Einar heitin Ben fékk að finna fyrir því og

komu lygarnar ekki frá lakari mönnum en sjálfum bændahöfingunum

sem sátu á Alþingi. Þegar Þeir fullvissuðu þjóðina um að nú ætti að fara

að virkja Gullfoss til að byggja raforkuver í Þjórsárdal. Það var þá er

Brattholts madaman ættlaði að henda sér í fossin ef EB sýndi sig við

Hvítá í þeim erindagjörðum að virkja Þjórsá.

Leifur Þorsteinsson, 1.4.2007 kl. 10:02

13 Smámynd: Stefán Sig.Stef

Ég er sammála ræðumanni 8 Hjálmari Boga ég held að Ómar ætti að snúa sér að einhverju öðru enn að bulla í tóma hringi,það væri gott fyrir hann ofl andstæðinga álvera að fara upp á Hellisheiði og anda að sér góða loftinu frá virkjuninni sem fulltrúar VG stoðu að ásamt fleirum.

Stefán Sig.Stef, 1.4.2007 kl. 10:33

14 identicon

Til hamingju umhverfissinnar með sigurinn í Hafnarfirði. Fyrsti sigurinn í höfn, þá er 2. og 3. sigurinn eftir... Gleymum heldur ekki að þakka seðlabankastjórn og Davíði Oddssyni fyrir gott innlegg í málið...sennilega gerði það gæfumuninn... það er gott að kæla ríkistjónina og hgkerfið svolítið niður... vonandi verður þessi sigur til þess að ríkisstjórnin fari að hugsa skírar. Og svo með hringina í athugsemdadálkinum...erum við ekki öll og lífið sjálft á stöðugri hringferð ?

Kristján Oddsson (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 12:12

15 identicon

Það er sorglegt að Hafnfirðingar láti svona þegar bæjarfélög úti á landi berjast á hæl og hnakka til að halda sér gangandi. Við erum engir sérstakir áhugamenn um álver og virkjanir en þetta er atvinnuskapandi og það er nú það sem við leitum eftir hér úti á landi. En að leyfa sér að hafna jafnvel því sem talið er vera 1,5 milljarður í árstekjur inn í bæjarfélagið sitt er til skammar og ég vona svo innilega að Hafnfirðingar eigi eftir að fá að kenna á því seinna meir. 

En það er rétt sem margir segja að það er ekkert Ómari og félögum sem umhverfissinnar getað þakkað fyrir þetta heldur mega þeir þakka Davíð Oddssyni ævilangt fyrir að það fór sem fór. Það er nú ljóti uppgjafarræfillinn.

Óli Bj. (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 12:29

16 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta er frábært hjá Hafnfirðingum að hafa hafnað þessu.  Ég er Hafnfirðingur en gat ekki kosið en ég er ánægður með mína menn þar í bæ.  Ómar haltu áfram á þessari braut ég mun sennilega koma til liðs við ykkar flokk.

Þórður Ingi Bjarnason, 1.4.2007 kl. 13:14

17 identicon

ÚTLENDINGUM MUN FÆKKA hér með stóriðjustoppinu, sem komið var á koppinn í Hafnarfirði í gær. Hér eru alla vega níu þúsund útlendingar á vinnumarkaðinum, 9% af heildarvinnuaflinu, sem er alltof mikill fjöldi. Það snýst engan veginn um útlendingahatur, heldur alltof mikla þenslu hér á öllum sviðum, heimsmet í háum vöxtum, gríðarlegan viðskiptahalla eða 305 milljarða króna í fyrra, hækkanir á verðlagi í hverjum mánuði, átta sinnum meiri verðbólgu hér en á evrusvæðinu í ár og gríðarmikinn skort á innlendu vinnuafli í fjölmörgum greinum, til dæmis fiskvinnslunni, almennri verkamannavinnu, leikskólum og heilbrigðisþjónustunni.

Meirihluti þessara níu þúsund útlendinga mun ekki búa hér til frambúðar og mörg þúsund manna skortur er hér á starfsfólki í mörgum greinum. En innlent starfsfólk mun ekki manna fiskvinnslurnar að nýju að einhverju marki fyrr en núverandi kvótakerfi verður afnumið og því hægt að greiða fiskvinnslufólki og sjómönnum mun hærri laun en nú er gert, í stað þess að eyða alltof stórum fjárhæðum, allt að einum milljarði króna á ári, í kaup á aflakvótum í litlum sjávarplássum. Og hærri laun fiskvinnslufólks og sjómanna í öllum sjávarplássum landsins þýðir margfeldisáhrif um allt land. Það yrðu aldrei byggð álver á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum og vandi landsbyggðarinnar er ekki skortur á álverum, heldur fyrst og fremst núverandi kvótakerfi, sem 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 15:06

18 identicon

ÍSBANKINN BRÁÐNAR ÖRT, 17 gráða hiti á Norður- og Austurlandi í gær, jöklarnir verða horfnir eftir nokkra áratugi, samkvæmt sérfræðingum Landsvirkjunar, jökulárnar horfnar og því ekkert eftir til að virkja, nema jarðhitinn. Smávegis verður þó eftir af Vatnajökli, þriðja stærsta jökli í heimi. Hvað á þá að gera við allar stóriðjur, stórvirkjanir, möstur og raflínur stóriðjusinna?! Á þá að ráða Kínverja til að rífa niður allt draslið og hvað myndi það kosta, svona sirka?!

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 16:26

19 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Steini Breim.. Nú ertu endanlega búinn að tapa Glórunni

heldurðr virkilega að þú búir í gróðurhúsi... Passaðu þig

ekki kasta með Steinum.

Leifur Þorsteinsson, 1.4.2007 kl. 17:48

20 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Er ekki spurning um að moggabloggarar sameinist og hendi athugasemdum Steina blessaðs út hvenær sem þær birtast. Kannski áttar hann sig á þessu og stofnar eigið blogg í stað þess að hrauna yfir allt og alla ábyrgðarlaust.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 1.4.2007 kl. 18:07

21 identicon

Frábært að Hafnfirðingar skyldu fá tækifæri að kjósa um mikilvægt mál snertir beinlínis þeirra umhverfi eins og stækkun álversins hefði gert. Vonandi er þetta fyrirkomulag sem er komið til að vera - þótt eflaust þurfi að sníða af ýmsa vankanta eins og komu í ljós í ferlinu. Það er m.a. dapurlegt að sjá hvernig erlent stórfyrirtæki gat ótakmarkað ausið út fé sínu til að halda upp áróðri um mikilvægi stækkunarinnar - m.a. til að standa fyrir hræðsluáróðri af verstu gerð. Þarna þarf að jafna hlutskipti þeirra sem eru með og á móti málefnum.

Óri (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 18:08

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála þér Guðmundur um Steina. Ég er farinn að skrolla yfir þessa langhunda, löngu hættur að nenna að lesa þá.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.4.2007 kl. 18:28

23 identicon

Kosningaþátttakan afgerandi, meir en í síðustu tveimur bæjarstjórnarkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn á móti beinu íbúa lýðræði - um það er átaka flöturinn. Þáttur Davíðs Oddssonar í málinu var afgerandi á lokastigum þess. Undir því sátu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Þáttur Rósu Guðbjartsdóttur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði var eftirminnanlegur í Kastljósi fyrir kosningar - þar var hún ekki verið að ræða efnislega um málið, heldur fyrst og fremst að gagnrýna ákvörðun bæjarstjórnar um kosninguna, en allir 11 bæjarfulltrúar í bæjarstjórn samþykktu í lok janúar að það yrði kosið. Hún notaði tækifæri til að eyða öllum sínum tíma í að tala beina lýðræðið niður og ná höggstað á þá ákvörðun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að stilla sér ekki upp í annaðhvort liðið. Þar sýndi Sjálfstæðisflokkurinn sitt rétta andlit að tala tungum tveim en aðhyllast valdastjórnmál úr hófi fram og nota smjörklípuaðferðina í stað efnislegrar umræðu um umhverfis- og atvinnumál.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 21:08

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orkuveita Reykjavíkur er búið að stofna félag með heimamönnum um virkjun Skjálfandafljóts og sækja um rannsóknarleyfi fyrir virkjunum í Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu.

Mengun af brennisteinsvetni af Hengils-Hellisheiðarsvæðinu fór 48 daga í fyrra yfir þau mörk sem sett eru um slíka mengun í Kaliforníu. Það er nú allt hreina loftið, og samt á efir að virkja annað eins.

Út úr svæðinu á að kreista 600 megavött þótt það afkasti aðeins 300 megavöttum sem endurnýjanlegri orku. Með því að taka 600 megavött úr því kólnar það eftir 40 ár og verður ekki nýtanlegt til orkuöflunar með núverandi tækni í nokkra áratugi eftir það.

Þetta er nú öll "endurnýjanlega og hreina orkan."

Ómar Ragnarsson, 1.4.2007 kl. 23:50

25 identicon

Ég er ekki Hafnfirðingur en eftir þvi sem ég best veit voru þeir að kjósa um hvort það mætti bæta við tveim kerskálum við þá þrjá sem fyrir eru. Hafnfirðingar sögðu nei takk, ekki í okkar garði. Svo ertu hissa Ómar að önnur bæjarfélög minni á sig og sína kosti. Ég bara skil þig ekki né þitt fólk, þetta var ekki kosning um það hvort aðrir íslendingar vilji framfarir í sínu landi. Það er engin ástæða til þess að mistúlka svona þessa niðurstöðu rúmlega sex þúsund Hafnfirðinga, við hin erum eftir.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband