28.2.2015 | 12:46
Þegar Rússarnir mældu brúna fyrir innrásina.
"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki", segir máltækið, og afar lítið þarf oft til að ala á ótta.
Í Kalda stríðinu ríkti mikil tortryggni, og ekki minnkaði hún við það þegar einstakir atburðir gerðust, svo sem fundur njósnatækja í Kleifarvatni.
Mér er í minni að upp úr 1950 birtist frétt í Tímanum um njósnara á vegum Rússa sem hefðu sést verið að mæla brú í Leirársveit. Var þessi slegið upp í blaðinu.
Þá voru flestar brýr landsins afar mjóar og höfðu lítið breyst frá hestvagnatímabilinu.
Var því líklegt að Rússar vildu vita hvort og hvernig þeir kæmu hergögnum sínum yfir brýrnar þegar þeir hertækju landið.
Jafn stór uppsláttur var þó ekki í blaðinu þegar kom í ljós síðar við það að lítill bústaður eða kofi var fluttur yfir hina þröngu brú, að mælingarnar hefðu verið á vegum eiganda kofans.
Jónas Ragnarsson sendi mér nýlega frétt úr Alþýðublaðinu í júlí 1940 þar sem orðalag allt var til þess fallið að vekja ótta um yfirvofandi innrás Þjóðverja.
Til dæmis sagði í fréttinni að "svonefndir vísindamenn" þýskir hefðu skilið eftir sig mjög dularfullar merkingar á nokkrum stöðum á norðurhálendinu.
Er orðið "svonefndir" endurtekið í fréttinni til að leggja áherslu á það hvers eðlis málið gæti verið.
Gilti þá einu að þessir "svonefndu" vísindamenn væru sjálfur Alfred Wegener og kollegar hans, meðal annars Fedtmann, sem var í Öskju 1907 og síðar, og Emmy Todtmann, sem fór í fimm Íslandsferðir, tvær fyrir stríð og þrjár á sjöunda áratugnum, og skrifaði merkar vísindaritgerðir um Vatnajökul eftir þær ferðir.
Lítið þarf til að ala á ótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Trúlega eru þeir hræddasti við eitthvað,sem stöðugt eru að kvarta undan því að verið sé að ala á ótta.Það að skipstjóri fari með varúð og reyni að forðast það að skip hans lendi í strandi,þýðir ekki að hann sé hræddari við að stranda skipi sínu, en galgopinn sem klifar á því að hann sé ekki hræddur, en siglir síðan beint í strand.Það að Churchill varaði við nazistum, þýddi ekki að hann væri hræddari við þá en hinir sem sögðust ekki vera hræddir við þá og ekkert væri að óttast.Það var lítill kjarkur í þeim þegar á reyndi,en Churchill hafði hann.
Sigurgeir Jónsson, 28.2.2015 kl. 15:42
Þegar stjórnvöld vilja aukin völd og lögreglu þykja almenn mannréttindi þrengja athafnafrelsi sitt er ótti öflugt vopn. Hverfa þá réttindi sem barist hefur verið fyrir í mannsaldra fyrir ímynduðu öryggi og verndarvængur stjórnvalda og lögreglu breytist í fangelsi.
Í dag er kallað eftir heimildum og völdum sem voru eingöngu að finna hjá alræðisstjórnum þar sem einstaklingurinn og líf hans voru einskis metin og þarfir og óskir valdhafanna höfðu forgang. Og eina trygging almennings er óljóst loðið loforð um að valdið verði ekki misnotað.
Espolin (IP-tala skráð) 28.2.2015 kl. 16:19
Já, og meira að segja er hér á blogginu komin fram krafa um að mynduð verði nokkur hundruð manna vopnuð öryggissveit sem verði með skotvopn til reiðu allan sólarhringinn.
Og það skondna er, að slíkt lögregluríki með tilheyrandi víðtækum njósnum var líf og yndi kommúnistanna í Austur-Evrópu á Sovéttímanum, en helstu talsmenn þessa nú eru hægri menn sem ég hélt að ættu að vera og væru fylgjendur frelsis og friðar.
Ómar Ragnarsson, 28.2.2015 kl. 16:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.