Stundum óframkvæmanleg krafa um framlengingu lífs.

Krafan um að ævinlega og skilyrðislaust skuli barist fyrir lífi hvers manns er skýr í gildandi lögum og venjum hér á landi.

En með sívaxandi tækni til að halda lífi í fólki, sem er þegar búið að missa hina minnstu von um líf eða meðvitund, kemur stundum að því að þessi skilyrðislausa krafa er í raun óframkvæmanleg og getur í sumum tilfellum valdið miklum þjáningum hins deyjandi og ekki síður hans nánustu með því að halda í slokknandi lífsneista.

Nógu lengi hefur maður lifað til þess að vita um dæmi þess að læknar og hjúkrunarlið hefur orðið að taka ákvörðun um dauðdaga, sem hefði verið hægt að fresta um óákveðinn tíma með ítrustu tækni. Að því leyti til má tala um líknardráp og þetta fyrirbrigði er staðreynd hér á landi.

Helsta ástæða þess að takamarka beri þetta fyrirbæri sem mest er það, að enginn getur sett sig fyllilega inn í aðstæður hins dauðsjúka eða meðvitundarlitla eða meðvitunarlausa manns, og það er ákaflega stór ákvörðun að segja: hingað og ekki lengra.

Íslensku "líknardrápin", sem kannski ætti frekar að kalla "líknaruppgjöf", felast oftast í því að stöðvuð eru fjöltæknileg úrræði, sem viðhalda hinu vonlausa lífi, - þeim hreinlega hætt, "skrúfað fyrir inngjöf eða tæknileg gangverk og sjúklingnum leyft að deyja "eðlilegum dauða."

Ég hef fylgst með því á gjörgæsludeild hvernig snilldarleg hátækni og reynsla hafa bjargað lífi sjúklings og þarf afar lítið út af að bregða til þess að lífgjöf breytist í dauða.    

Í þeim tilfellum, sem ég þekki til, treystu nánustu aðstandendur sér ekki til að biðja um eða velja ákveðinn dauðdaga, heldur fólu umönnunarfólkinu, sem höfðu reynsluna af svona viðfangsefnum, að meta, hvenær stundin yrði komin.

Gagnvart aðstandendum kom þessi lausn út sem "force majör", það er, utanaðkomandi aðstæður sem þeir kusu að væri ekki á valdi þeirra sjálfra.

Til eru dæmi um menn, sem hafa hafnað öllum tækniúrræðum læknavísindanna gegn sjúkdómum, sem þeir gengu með, og viljað gefa sig algerlega á hönd lækningamætti líkamans sjálfs án utanaðkomandi afskipta.

Í slíkum tilfellum er líknardráp fyrirfram útilokað af hálfu sjúklingsins sjálfs og hann deyr drottni sínum líkt og forfeður hans í fornöld, oftast fyrr en ella hefði orðið.

Mér sýnist að íslenskir læknar og hjúkrunarfólk hafi hingað til fetað hinn erfiða meðalveg í þessum málum af yfirvegun og varfærni, því að við blasir, að með beitingu ítrustu lífgunar- og tækniúrræðum nútímans til að halda mannshjarta gangandi, hvað sem á dynur, er krafan um slíkt oft komin út fyrir framkvæmanleg mörk skynsemi og mannúðar. 


mbl.is Almennur stuðningur við líknardráp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hversu lengi sjúklingar lifa fer einnig til að mynda eftir því hve miklu fé stjórnvöld veita til heilbrigðiskerfisins.

Og víða erlendis hefur fólk ekki efni á dýrum læknisaðgerðum, til dæmis í Bandaríkjunum.

Þorsteinn Briem, 1.3.2015 kl. 21:37

2 identicon

Inn í þessa umræðu þarf að koma verkjastilling og umræða um líknandi meðferð. Hjúkrunarfólk setur morfín í fólk og eykur skammtinn þangað til að líklega er það morfínið sem deyðir fólkið en ekki sjúkdómurinn sem veldur verkjunum.  Er fólk almennt áttað á því að hjúkrunarfólkið ákveður dánarstund?

Margrét (IP-tala skráð) 2.3.2015 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband