3.3.2015 | 07:21
Gjalda fyrir kosningafyrirkomulagið. Hættulega vanmetnir.
Píratar eru í stórsókn, mest vegna þess að sífellt fjölgar á ungu fólki, sem kemur inn á kjörskrá og lifir og hrærist í umhverfi, sem er heimavöllur Pírata, netið og netmiðlarnir.
Þetta fylgi skilar sér í skoðanakönnunum.
En þótt glæsileg útkoma Pírata í skoðanakönnunum geti gefið til kynna stórsigur flokksins í kosningum munu þeir gjalda fyrir það kosningafyrirkomulag að kjósendur þurfi að hafa fyrir því að fara á kjörstað og kjósa þar eftir aldagömlu kosningafyrirkomulagi.
Þetta varð þeim næstum því að falli í síðustu kosningum þar sem næstum helmingur fylgis þeirra í skoðanakönnunum skilaði sér ekki á kjörstað.
Píratar sækja fylgi sitt fyrst og fremst til yngstu kjósendanna, sem vilja beinna lýðræði, lesa ekki dagblöðin og horfa varla á fréttir í sjónvarpi, heldur lifa og hrærast á netinu.
Gömlu flokkarnir hræðast þessar breytingar. Það má til dæmis minna á það að skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að verja minnihlutastjórn Jóhönnun Sigurðardóttur 1. febrúar 2009 falli, var að aðili utan þingsins, sérstakt stjórnlagaþing, setti landinu nýja stjórnarskrá.
Síðar á því ári áttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins tillöguna um Þjóðfundina tvo.
Báðir flokkarnir hröktust frá þessum stefnumálum sínum og afneituðu þeim eins og Pétur afneitaði Kristi forðum, þegar óttinn við breytingar greip þessa flokka heljartökum.
Píratar treysta því að jafnóðum og nýir kjósendur koma inn á kjörskrár, sem lifa og hrærast á netinu, lesa ekki blöðin og horfa takmarkaða á sjónvarp, muni fylgi þeirra aukast.
Það er þó ekki alveg sjálfgefið, því að slík hegðun eldist hugsanlega af sumum og á meðan kjósendum er haldið í spennutreyju þess að þurfa að hafa talsvert fyrir því að kjósa, munu Píratar gjalda þess grimmilega í kosningum.
Augljóst er að gömlu flokkarnir halda áfram að stuðla að því í raun að svíkja hér eftir sem hingað til 72ja ára gamalt loforð við þjóðina um nýja stjórnarskrá, og stórsókn Pírata mun augljóslega herða hina flokkana í þessu andófi.
Nú sér maður hér á blogginu útleggingar á þessu þriðja stærsta stjórnmálaafli þjóðarinnar sem "ókræsilegasta kostinn", samansafn af ruslfólki.
Slíkar fullyrðingar, hlaðnar fordómum, sýna beinlínis rangt, ósanngjarnt, ólýðræðislegt og hættulegt vanmat á kjölfestu Píratanna, sem sækja staðfastasta fylgi sitt í ágætlega menntað ungt fólk og einnig í framgöngu og framkomu þingmanna, sem segja allt aðra sögu en óhróðurinn um þá bendir til.
Píratar í stórsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fylgi flokka á landsvísu - Capacent Gallup 2.3.2015 (í gær):
Samfylking 17%,
Píratar 15%,
Björt framtíð 13%,
Vinstri grænir 11%.
Samtals 56% og þessir flokkar mynda nú meirihluta borgarstjórnar.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur 37% og þar af Framsóknarflokkur 11%.
Og næsta víst, eins og Bjarni Fel. myndi segja, að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kolfellur í næstu alþingiskosningum.
Þorsteinn Briem, 3.3.2015 kl. 07:25
Hárrétt greining hjá Ómari. Þarna mætti líka bæta við þeirri ótrúlegu ósanngirni, sem felst í mismunandi vægi atkvæða milli kjördæma. Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir hafa veitt íslendingum aðvörun um þetta gríðarlega ranglæti, en því er viðhaldið ásamt því að forsmá vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá.
Belgur (IP-tala skráð) 3.3.2015 kl. 08:01
Annar galli sem við glímum við er kosningakerfið. Núverandi stjórn beitir valdi í krafti minnihluta greiddra atkvæða (ESB málið - tilvitnanir á borð við "hér voru kosningar, við ráðum") - 49,86%. Svo er það réttlætt með því að það sé algengt að það gerist í öðrum löndum eins og Bretlandi eða BNA (Birgir Ísleifs á fundi stjórnarskrárfélagsins fyrir stuttu síðan).
Einnig féllu frá rétt tæplega 23.000 atkvæði ... atkvæði sem fólk greiddi flokkum eða engum. Þetta eru svipað mörg atkvæði og _allir_ kosningabærir í NV-kjördæmi. ALLIR ... 100% mæting á kjörstað í kjördæminu. Atkvæðunum bara hent í ruslið, teljast ekki með.
Þannig að maður spyr ... hvernig líður núverandi meirihluta að stjórna með minnihluta atkvæða - beita 100% valdi - í skjóli "lagalegs meirihluta".
að sjálfsögðu förum við eftir lögum ... en þegar þau eru ósanngjörn þá eigum við að breyta þeim. Ekkert hefur gerst í því máli síðan ég spurði fyrrverandi innanríkisráðherra um málið fyrir um ári síðan.
Að mínu mati er það einna brýnasta verk þessa kjörtímabils að breyta kosningalögum til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.
Björn Leví (IP-tala skráð) 3.3.2015 kl. 08:25
Það er með Píratflokkinn, - að það er rosalega margt óljóst varðandi hver afstaða hans er til grunnmála. Mér finnst málflutningur þeirra ekki alltaf sannfærandi. Einna helst má segja að eins stefna þeirra sem hönd er á festandi sé að fara með allt í þjóðaratkvæðagreiðslu. það þýðir bara að þeir munu ekki vilja taka neina ábyrgð sjálfir. Öllu skal ýtt yfir á kjósendur, stóru sem smáu.
Annað stórt mál má nefna hjá þeim Pírötum en það er að þeir eru á móti bólusetningum. Sennilega eykst fylgi þeirra vegna þess að þeir tóku það mál bókstaflega inn á Alþingi og vilja fara að debatta um það þar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2015 kl. 09:19
Edit: ,,Einna helst má segja að sú stefna þeirra sem hönd er á festandi" o.s.frv.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2015 kl. 09:20
Ómar Bjarki: Svo að ég leiðrétti þig aðeins þá eru Píratar ekki á móti bólusetningum. Vandamálið með það umræðuefni er að um leið og einhver minnist á það þá sér fólk rautt og fer að svívirða þann sem kemur með skoðun sem samræmist ekki manns eigin. Það sem þingmaður Pírata gerði var að tala um tjáningarfrelsi. Rétt fólks að tala um eldfim málefni af kurteisi frekar en að vera sjálfkrafa stimplaður sem fífl. Píratar eru fylgjandi vísindum og upplýstu samfélagi og í upplýstu og vísindalegu samfélagi bólusetur maður börnin sín.
Til hvaða grunnmála er afstaða Pírata óljós? Friðhelgi einkalífsins? Beinna lýðræði? Aukið tjáningarfrelsi?
Ertu að meina til einstakra mála sem breytast með tíð og tíma? Það er bara mjög einfalt. Fólk skoðar málin og kýs um þau. Framkvæmdavaldið framkvæmir. Þetta er ekkert óljóst.
Gissur Örn, 3.3.2015 kl. 11:29
Öll mál liggja undir. Allt óljóst hjá pírötum, nema það að varpa á allri ábyrgð a kjósendur ef svo ber undir.
Nú, varðandi bólusetninguna, - að hafa píratar sem flokkur hafnað ummælum þingmannsinns? Nei.
Og gera það varla úr þessu. Þetta virðist veiða.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2015 kl. 13:35
Könnunin var framkvæmd 29. janúar til 25. febrúar. Halldóra Mogensen varaþingmaður Pírata sem nú situr á þingi fyrir Helga Hrafn tók upp bólusetningarnar á þingi 25. febrúar. Kenningin um að þetta komi fylgisaukningunni eitthvað við fellur sumsé á einföldu staðreyndaprófi, nema að fólk ímyndi sér að allra síðasta daginn hafi komið gríðarlegur og snöggur kippur, vegna þessa eina atviks. Það er mjög ólíklegt.
Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að taka fyrir þá ásökun að Píratar séu gagngert að gera út á einhvern bólusetningaskeptisma - gæti hrakið það með ýmsu öðru en þess þarf ekki þegar grunnforsenda kenningarinnar er röng. Þarna er skotið fyrst en spurt svo.
Það er líkt og Ómar segir, við erum vanmetin af ýmsum ennþá. Fólk ennþá að leita yfirboðskenndra skýringa á velgengni okkar í stað þess að huga að því hvað mætti læra af henni.
Þarfagreinir, 3.3.2015 kl. 13:55
Könnunarfyrirtækin ættu að geta svarað þessu. Eg viðurkenni að ef maður reiknar með jafnri dreifingu yfir þessa daga og könnun endar 25 feb., - þá er þetta frekar mikið tæpt. Hinsvegar bera að hafa í huga að ekki þarf marga til fara skyndilega yfir á eina kúlu til að hugsanlegt sé að það hafi áhrif.
En samkv þessum dagsetningum, þá er þetta afar tæp kenning.
En þá vantar útskýringu á skyndilegri aukningu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2015 kl. 14:29
Takk fyrir spurninguna Ómar. Það er nú þannig með lýðræðisferlið að það fer ekki endilega allt í atkvæðagreiðslu. Málið snýst um að allt fari í lýðræðislegt ferli í staðinn fyrir að vera ákveðið með valdboði. Í flestum tilvikum þá fer málið ekkert voðalega langt því þær lausnir sem eru í boði eru borðleggjandi - án andstöðu. Lýðræðislega ferlið endar þá þar án atkvæðagreiðslu.
Það sem málið snýst um hins vegar er að Píratar vilja ekki taka ákvarðanavaldið af fólki þannig að þegar fréttamenn spyrja "hvað ætlið þið að gera?" þá geta Píratar ekki svarað því á neinn sérstakan hátt af því að _við_ ætlum ekki að ráða. Þess vegna gæti það litið út sem svo að við séum með óljósa stefnu, vegna þess að stefnan er að taka ekki völdin af fólkinu. Með tilvísun í grunnstefnuna, eins og Gissur Örn bendir á - þá er mjög auðvelt að giska á afstöðu okkar út frá áherslum á friðhelgi einkalífs, beint lýðræði og aðgengi að upplýsingum.
Til þess að halda sig við efnið - takk kærlega Ómar fyrir pistilinn. Ég veit ekki af hverju Píratar eru að taka stökk í skoðanakönnun ákkúrat núna. Mín tilgáta er sú að þingmennirnir og borgarfulltrúar hafa sinnt starfi sínu með mestu prýði, haldið í grunngildin, svarað beint út og á allan hátt gert sitt besta. Afrakstur vinnu þeirra hefur bara verið að smásaman skila sér til fólks.
Að lokum mætti ég kannski spyrja Ómar; værir þú ekki til í að skella þér í forsetaframboð? :)
Björn Leví (IP-tala skráð) 3.3.2015 kl. 14:50
Ómar Bjarki, það er ekki sanngjarnt, en fyrst og fremst rangt hjá þér, að ætla Pírötum að vera á móti bólusetningum. Ég skal glaður verja skoðanir sem ég og minn flokkur hefur, en við erum ekki á móti bólusetningum og höfum aldrei verið þannig að ég get ekki varið meinta bólusetningarfælni.
Varaþingmaður minn, Halldóra Mogensen talaði um orðræðuna, en ég þekki bara einn Pírata sem er á móti bólusetningum. Hinir hafa tilhneigingu til að gelta eins og soltnir úlfar við þá örfáu sem eru á móti bólusetningum. Athugaðu að Halldóra var ekki síst að kvarta undan því hvernig aðrir flokksmenn hafa látið, enda Píratar engu heilagara fólk en annað og getur hagað sér mjög illa í því sem ætti að vera siðmenntaðar samræður.
Eftir stendur að Píratar eru ekki á móti bólusetningum og enginn þingmaður Pírata hefur haldið ræðu gegn bólusetningum á þingi, hvorki Halldóra Mogensen (téður varaþingmaður minn) né nokkur annar. Þvert á móti hefur hluti af þessari umræðu sem Halldóra kvartaði undan einmitt átt sér stað innan raða Pírata, sérstaklega á Pírataspjallinu á Facebook, vegna þess að þeir, eins og fólk almennt, verða rauðir af bræði þegar þeir hitta einhvern sem er á móti bólusetningum. Athugaðu að þau viðbrögð, sem að mínu mati eru venjulega alltof blóðheit, eru vegna stuðnings við bólusetningar.
Ég ítreka pistil minn um þetta sem þú getur lesið hér: http://www.hringbraut.is/frettir/pistlar/af-frodufellandi-braedi
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.3.2015 kl. 21:53
Það er búið að benda á að spyrðing and-bólusetningarhreyfingarinnar og Pírata er úr lausu lofti gripin. Það sem mér finnst gagnrýnivert við orðræðu Halldóru er að þetta minnir um of á Ásmund Friðriksson þegar hann biður um vægð og vísar í að tjáningarfrelsið sé brotið á meirihlutanum þegar hann er (með réttu eða röngu) gagnrýndur. Lausnin á vondu umtali er meira en ekki minna umtal og ef það er of heitt í eldhúsinu þá er kokkur ekki gott starf fyrir þig. Að gefnu lýðræðisríki þá hlýtur að vera einhver tímapunktur þar sem viðkomandi veltir fyrir sér sannleiksgildi staðhæfinga sinna, en myndi síður gera það við minna mótlæti. Gagnröksemdin er að benda á einhvern sem hefur staðfasta röklega skoðun en mætir samt mikilli gagnrýni eins og Sam Harris þegar hann talar um Islam. Munurinn liggur kannski í því að Ásmundur og Halldóra biðja sér vægðar án raka en Harris fagnar nýjum mótbárum (sem hann kann að svara mjög vel).
Ég er mjög fylgjandi málstað Pírata og er stoltur af því að taka þátt í að gera veg þeirri meiri. Það eina sem ég kann illa við er hversu auðvelda leið jaðarskoðanir eiga upp á pallborðið hjá þeim. Dæmi um þetta er grein Jóns Þórs um hnattræna hlýnun. Hann bendir þar á raunverulegt áhyggjuefni um vísindalega ferlið: að skammtíma hagsmunir vísindasamfélagsins geti ýtt í burtu nýjum hugmyndum sem gætu fært fram betri lausnir. Samhengið er hins vegar að þetta er vísindagrein sem hefur þurft að takast á við gríðarleg hagsmunaöfl sem hafa í gegn um tíðina ekki vílað fyrir sér lygum og blekkingum, borið fé á stjórnmálamenn til að skapa sér betra starfsumhverfi og vísvitandi starfað á óábyrgan hátt gegn náttúru og mannlífi. Í því samhengi þá er eðlilegt að það myndist kúltúr um að hleypa ekki hjásvæfum óvinarins inn á heimilið.
Þarna erum við samt komin að kjarna þess að Píratar eru eina von okkar til að búa til betri stjórnmálaumræðu. Það þarf að skapa vettvang til að allir geti komið skoðunum sínum á framfæri. Á markaðstorgi hugmyndanna á sér síðan stað samkeppni þar sem vinsælasta hugmyndin lifir af (ekki endilega besta hugmyndin því miður). Þar verða jafnvel að viðrast af og til hugmyndir sem ekki lifa af og það verður okkur ekki til mikils happs ef ein hugmynd veldur því að við afskrifum allar síðari hugmyndir þess einstaklings. Allir læra af mistökunum sínum. Líka Píratar.
Árni St. Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 10:48
Takk fyrir þetta Árni, sammála og einn flokka held ég að Píratar séu með að það megi skipta um skoðun. Einmitt vegna þess að það koma alltaf fram ný gögn og lausnaferlið er þannig að maður vinnur með það besta sem er til þá og þegar - og bætir þegar nýjar upplýsingar koma fram.
Björn Leví (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.