4.3.2015 | 11:57
"Hefðbundnar" og og "óhefðbundnar" lækningar.
Afstaða fólks til "kukls", "hindurvitna" og "skottulækninga" byggist oft á persónulegri reynslu og atvikum sem erfitt er sanna eða afsanna og það gildir um mig eins og aðra.
Langafi minn, Runólfur Bjarnason í Hólmi í Landbroti, var titlaður "smáskammtalæknir" eða hómópati. Hann var sem sé ekki viðurkenndur læknir, enda algerlega ómenntaður bóndi með örlítinn barnaskólalærdóm að baki fáar vikur í nokkra vetur.
Yfirvöld þess tíma gátu hins vegar ekki gengið fram hjá því að hann og langamma, Rannveig Bjarnadóttir, höfðu sannanlega bjargað tugum mannslífa með fórnarstarfi sínu sem bitnaði á stórri og fátækri, stundum sveltandi fjölskyldu. Þau urðu að senda frá sér tvö börn sín, og var amma mín send til Öræfa sjö ára gömul í skiptum fyrir kú.
Vegna rómaðs árangurs síns á lækningasviðinu, sem aldrei bar skugga á, fékk Runólfur viðurkennd takmörkuð réttindi smáskammtalæknisins, enda enginn læknir í þessum byggðum, sem voru með þeim verst settu í samgöngum á landinu.
Runólfur bjó til ýmis lækningameðöl byggð á lestri hans um lyfjagerð, bæði nútíma lyfjagerð og lyfjagerð svonefndra grasalækna.
Árangur Runólfs var að mörgu leyti sambærilegur við þann árangur Bjarna, sonar hans, að smíða, jafn "ómenntaður" og faðir hans, á annað hundrað rafmagnstúrbínur og setja þær upp í jafnmörgum virkjunum um allt land.
Ef til var lífsstarf Bjarna Runólfssonar, "óhefðbundin" nálgun á hátækniverkefni, svipaðs eðlis og "óhefðbundin" nálgun föður hans á lækningum.
En tilvist hugsjónafólks, sem hefur þá köllun að líkna öðrum og gera þeim lífið bærilegra, breytir því ekki að stundum getur verið maðkur í mysunni og sumt af því sem trúað er, getur jafnvel verið gagnslaust eða til óþurftar og jafnvel aðeins til að hafa fé af fólki í neyð.
Þannig skilst mér að Bobby Fisher hafi trúað því að megnið af þróuðustu lækningaaðferðum nútímans væru óþarfar.
Hann trúði sem sé á getu líkamans til þess að vinna sjálfur bug á sjúkdómum án aðstoðar fullkomnustu lækningaaðferða nútímans, og stytti sennilega líf sitt með því.
Þetta er merkilegt því að einhvers staðar sá ég nýlega, að sérfræðingar giskuðu á að greindarvísitala hans hefði verið sú hæsta sem vitað væri um, 184 stig.
Fisher hafði það þó til síns máls, að oft sýnist bati í veikindum til kominn af notkun lyfja eða meðferðar, þegar öll rök hníga hins vegar að því að batinn hefði hvort eð er komið af sjálfu sér.
Gallinn við að skera úr um þetta felst í einu orði: Efa. Og í okkar stóra heimi er svo margt sem vafi leikur á, en hægt er að gera út á í stórum stíl varðandi ósannaðan árangur af alls konar hindurvitnum eins og mannkynssagan öll ber vitni um og sjálfsagt eitthvað af því sem fjallað var um í umtöluðu Kastljósi, einkum rándýru tækin.
Í nútíma læknavísindum kemur fram, þrátt fyrir strangar sönnunarkröfur, að verk mannanna eru aldrei alveg fullkomin, og það sem menn héldu vera sannindi voru það ekki, aðferð sem menn héldu að virkaði, var gagnslaus.
Þess vegna held ég að hæpið geti verið í einstaka tilfellum að flokka lækningaaðferðir í "hefðbundnar" og "óhefðbundnar" aðferðir á þann hátt að einungis nýjustu og bestu aðferðirnar séu "hefðbundnar".
Ég nefni sem dæmi kínverskar nálastungur sem byggja á þúsunda ára gömlum aðferðum eftir aldagamla reynslu og þekkingu á taugakerfi líkamans í smáatriðum.
Það sýnir mikið vestrænt yfirlæti og hroka að afgreiða þær sem "óhefðbundnar" aðferðir.
Það vill svo til að persónulega get ég vitnað um árangur af nálastungum þar sem aðrar aðferðir hrukku ekki til.
Fyrir nokkrum árum fór Landlæknir í heimsókn til Kína og kom heim með það álit, að kannski væri ágætt að nokkrir íslenskir læknar færu þangað til að kynna sér nálastungur og koma heim eftir námskeið þar.
Allt í einu áttu stutt námskeið að vera nóg.
Áður hafði því verið þverneitað að menn, sem hefðu farið í ítarlegt nám í Bandaríkjunum og komið heim með háskólagráðu í blöndu af nálastungum og vestrænum sjúkraþjálfunaraðferðum, yrðu viðurkenndir hér á landi.
Ég gæti hripað niður skemmtilega lýsingu á reynslu minni af nálarstunguaðferðinni, sem reyndist mér svo vel og reynist enn.
Þegar ég var verst settur, 2006, og þurfti að fara tvær ferðir til nálastungusérfræðingsins með nokkurra daga millibili, gat ég nánast fylgst með því í lokin hvernig bakverkurinn mikli færðist á um það bil 15 mínútum niður eftir öðrum fætinum niður í hné og ökkla og síðan líkt og læki út um tærnar.
Um það og ýmis verk Runólfs Bjarnasonar í Hólmi giltu orðin: Verkin sýna merkin.
Kastljós þvældi veiku fólki um bæinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Júlíus Júlísson vilda bara fá 4000 Dollara fyrir dingulinn og rafskautin þetta eru ca 538.000 kr. Ég kalla þetta rán og lygar og verið að reyna að auðgast á fársjúku fólki "Reindar gera Djúkrahús í USA það sama nema með allvöru lækningum".
Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 4.3.2015 kl. 12:19
1. Ef langafi þinn notaðist smáskammtakukl, þá læknaði hann ekki nokkurn mann. Smáskammtakuklið gengur nefnilega út á að gefa fólki ekki neitt.
2. Fischer var góður í skák. Hann var enginn sérfræðingur í læknisfræði.
3. Það er ekki "hroki" að afskrifa "óhefðbundnar lækningar". Það eina sem kuklið þarf að gera er að virka, þá er hægt að mæla það í rannsóknum. Ef það virkar, þá sést það í rannsóknum og þá verður það notað.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 4.3.2015 kl. 13:20
Læknar drepa lífvænleg fóstur, halda lífi í dauðu fólki og gera börn að fíklum. Þeir virka vissulegna en ekki alltaf sem skyldi.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 13:46
Hvaða heimildir hefur þú fyrir því, Hjalti Rúnar, að langafi minn hafi aldrei læknað nokkurn mann? Að allar heimildir sem liggja fyrir því, séu bull?
Að yfirvöld hafi gefið honum leyfi til hómópatalækninga út á ekki neitt?
Hvaðan kemur þér þessi nýi fróðleikur um gagnsleysi lífsfórna langafa míns og ömmu?
Hvaðan kemur þér sá fróðleikur að hann hafi aldrei gefið neinum neitt og hvaðan hefur þú það að allt líf hans, starf, leyfi til starfsins og vitnisburðir frá þessum tíma séu lygi?
Það er lágmarkskrafa, þegar menn hyggjast svipta fólk æru sinni, þótt látið sé, að einhverjar heimildir séu færðar fyrir því.
Ómar Ragnarsson, 4.3.2015 kl. 14:06
Ég hef sjálf farið og fengið meina bót með óhefðbundunum lækningum, var læknuð af sjúklegri flughræðslu, svo síðan hef ég ekki fundið til ótta í flugi. En þessi dæmi sem synd voru í gær voru af allt öðrum toga að mínu mati, þar virðist hafa verið hrein og klár fjárplógsstarfssemi og það í dýrari kantinum. Enda ósmekklegt að vera að vekja væntingar hjá dauðvona fólki.
En umræðan hér verður alltaf bæði í ökla og eyra, við gleymum alltaf að fara meðalveginn. Það eru til mörg dæmi um velheppnaðar óhefðbundnar lækningar, og það eru líka til læknamistök sem jafnvel hafa valdið dauða.
Og svo allt þarna á milli. Ef fólki finnst það fá bót sinna meina með því að leita til hómópata, þá finnst mér bara ekkert að því. Stundum gerir vonin ein kraftkaverk.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.3.2015 kl. 15:03
Ómar. Þetta er góður pistill hjá þér. Takk fyrir að segja einmitt það, sem ég og fjölmargir fleiri þekkja vel af reynslunni.
Engin stétt hefur einungis siðferðislega heilbrigða og dómgreindarmarktæka einstaklinga innan sinnar starfsstéttar. Þverskurður mannlegra og breyskra einstaklinga er margbreytilegur. Það er óumdeilanleg staðreynd.
Nú skuldar "Kastljós" (allra upplýstu hliða mála þátturinn), eigendum RÚV, svona svipaðan þátt með hinni sjónarhorns-hliðinni. Það er marklaus afsökun Kastljóss, að sumir hafi ekki getað mætt með eins sólarhrings fyrirvara. Fólk getur hreinlega verið utan 101-svæðisins, og þurfa þá væntanlega tíma til að mæta í efnislíkama, en ekki einungis í sálarandanum ósýnilega?
Það er siðferðisleg skylda RÚV að gæta jafnréttisins fjölmörgu og ólíku hliða heildræna sannleikans. Ef ekki er passað jafn vel uppá allar upplýtandi hliðar umfjöllunarmála, þá fellur traust og trúverðugleiki Kastljóss niður í ruslflokk siðleysisins ótrúverðuga og óverjandi.
Hann langafi þinn hefur án nokkurs vafa verið illa launaður, en þó virðingarverð, hjálpandi og andlega rík sál, sem afkomendur hans geta verið stoltir af. Óháð einokunarvörnum vísindanna afmöruðu.
Viskan, sem er samansafn þekkingar og reynslu sálarandans, verður ávalt ómetanlega dýrmæt náðargjöf hvers og eins. Og ætti eiginlega ekki að þurfa að benda á slíka staðreynd, í Kristnu þjóðríki.
Eða hvað?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.3.2015 kl. 16:06
Ómar, ég veit ekki til þess að ég hafi "svipt [langafa þinn] æru sinni". Ég sagði bara að ef hann var að reyna að lækna fólk með smáskammtakukli, þá læknaði hann engan. Ég byggi þá fullyrðingu á því að smáskammtakuklið virkar einfaldlega ekki. Það gengur nefnilega út á að gefa fólki nákvæmlega ekki neitt. Það er ekkert innihald í "remedíum" smáskammta"lækna".
Viltu fá heimildir fyrir því að hreint vatn sé ekki töframeðal?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 4.3.2015 kl. 16:21
Sigurður (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 16:22
Mjög góður pistill hjá þér Ómar og takk fyrir.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 18:02
Læknar eru ekki í smáskömmtum. Þeir eru í 214 þúsund dagskömmtum. Læknisfræðin snýst jú um virkni.
http://www.ruv.is/frett/avisadi-214-thusund-dagskommtum
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 18:04
Eitt sinn las ég um orkuáhrif á vatn. Ég man ekki hvað þessi Vatns-bók heitir. Ég fékk hana lánaða á bókasafni, og man kannski ekki allt rétt, sem þar kom fram.
Allt hefur áhrif á efnislega samverkunarþætti móðurjarðarinnar og alheimsorkunnar ósnertanlegu. Líka trú, hugsanir og orð hafa áhrif.
Einhliða og heildarsamhengislausar vísindafullyrðingar einokandi heimsveldisvísindavaldsins eru hættulegir útúrsnúningar í heildarsamhenginu. Enginn efnisþáttur er sannleiksundanskilinn, í orkuábyrgðar-samspilinu heildræna.
Eitt sinn var okkur sagt að opinberlega reknir ríkisfjölmiðlar ættu að sjá um þessa sannleikans réttlátu fréttaábyrgð. En eitthvað hafa víst heildarinnar sannleiksstaðreyndirnar orðið að víkja fyrir siðlausu heimsveldisfjölmiðluninni bankarænandi.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.3.2015 kl. 18:12
Það náttúrulega, að í gamla samfélaginu þróuðust aðferðir til að meðhöndla sjúkdóma þegar engir læknar voru.
Þar kenndi ýmissa grasa, eins og sagt er, - en td. grasasmyrsl og seyði oþh. getur alveg haft sínar verkanir, eins og kunnugt er. Það þróaðist þekking á hvaða jurt hentaði í hvaða tilefni eða hvaða blanda o.s.frv. Þetta var ekkert al-galið, að mínu mati. Sem dæmi má nefna að fólk er enn að búa til grasasmyrsli til að bera á sár, - og það virkar alveg!
Hitt er svo annað mál með alvarlegri sjúkdóma.
En svo ber ekki að vanmeta trúna. Þ.e.a.s., að ef fólk trúir á að eitthvað geri gagn, - þá getur það gert gagn!
Eg held að það sé þekkt meir að segja meðal vísindanna. Svona lyfleysutilraunir oþh. (Man það þó ekki nógu vel, en minnir að í sumum tilfellum við prófanir geti lyfleysa haft sömu áhrif og lyf. En að sjálfsögðu er það ekki dæmi í alvarlegri tilfellum sjúkdóma.)
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.3.2015 kl. 18:31
Nógu mikið er vitað um lækningar Runólfs Bjarnasonar til þess að segja að þar var ekki um smáskammta"kukl" að ræða heldur oftast um svipaðar minni háttar aðgerðir, ráðleggingar og lyfjagjafir eftir því sem frumstæðar aðstæður leyfðu og stundaðar eru á heilsugæslustofnunum landsins á okkar tímum.
Og haldi einhver að um tekjur hafi verið að ræða í kringum þetta sýnir það vel hve við nútímafólk eigum erfitt með að setja okkur inn í spor hins bláfátæka fólks á þessum tímum í vegalausu landi með sultarógnina við dyrnar.
Ómar Ragnarsson, 4.3.2015 kl. 19:39
Mér er alltaf minnisstæð frásögn síra Árna Þórarinssonar um græðarann sem var kvaddur til, til að sinna svöðusári á meri barnmargs og fátæks bónda, enda var farið að grafa í því og mikill missir í húfi fyrir gjörvalla fjölskyldu hans.
Af hyggjuviti sínu drakk sem mest hann mátti áður en hann tókst á við að hreinsa graftarvilsuna úr bólgnu sárinu.
Þessu næst, og þá kominn í spreng, girti hann niður um sig og meig af fullum krafti í sárið. Sumsé spúlaði sárið með þvagi.
(Nú er vitað að þvag úr heilbrigðri manneskju er því sem næst "sótthreinsað", þ.e. laust við allar sóttkveikjur.)
Þetta endurtók hann á vikufresti og sár merarinnar græddist.
Það er staðreynd að svokölluð lyfleysuáhrif eru bæði mikil og vanmetin.
Hver sá sem gaf sig að veikindum annarra, fyrir tíma vísindalegra lækninga, meðal bláfátækra samferðamanna var ævinlega kærkominn gestur.
Og læknir.
Jóhann (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 21:16
Ég held að það er nauðsynlegt þegar kemur að því að greina nútíma lækningar að peningar spila stórt hlutverk. Ef að það eru gífurlegar fjárhæðir í ákveðni grein þá getur það verið fjárhagslega óhagkvæmt að finna ódýra lækningu fyrir þúsundir manna. Þetta hefur áhrif, engin spurning í mínum huga. Langar að nefna eitt dæmi. Ég las litla bók um hvernig hægt væri að bæta sjónina með augn æfingum, ári seinna þá er sjónin margfalt betri. En að ég best veit þá er litið á þetta sem óhefbundið kukl enda gífurlegur bransi í augnlæknum sem mæla sjónina og síðan fyrirtækjum sem framleiða og selja gleraugu.
Mofi, 5.3.2015 kl. 10:01
Takk fyrir söguna af langafa þínum Ómar, þar sem að flest nútímalyf eru unnin úr plöntum þá er nokkuð víst að hann raunverulega hjálpaði fólki.
Mofi, 5.3.2015 kl. 10:03
"Fisher hafði það þó til síns máls, að oft sýnist bati í veikindum til kominn af notkun lyfja eða meðferðar, þegar öll rök hníga hins vegar að því að batinn hefði hvort eð er komið af sjálfu sér."
Hér er komin algengasta orsök frásagna af lækningamætti hjálækninga/kukls.
"Runólfur bjó til ýmis lækningameðöl byggð á lestri hans um lyfjagerð, bæði nútíma lyfjagerð og lyfjagerð svonefndra grasalækna. "
Þetta á akkúrat ekkert skylt við hómópatíu/smáskammtalækningar.
"Nógu mikið er vitað um lækningar Runólfs Bjarnasonar til þess að segja að þar var ekki um smáskammta"kukl" að ræða heldur oftast um svipaðar minni háttar aðgerðir, ráðleggingar og lyfjagjafir eftir því sem frumstæðar aðstæður leyfðu og stundaðar eru á heilsugæslustofnunum landsins á okkar tímum."
Það er einmitt engin ástæða til að eigna hómópatíu/smáskammtalækningum heiðurinn af árangrinum.
ls (IP-tala skráð) 5.3.2015 kl. 10:18
Smáskammta"lækningar" sem og nálastungur gera engum gagn. Sannað mál!
Við gætum allt eins sagt að Kringlan hafi lækningamátt, eftir 6 mánaða kvalir í baki var ég að skrönglast um Kringluna og BANG læknaðist...
DoctorE (IP-tala skráð) 5.3.2015 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.