9.3.2015 | 18:31
Brot gegn 1. boðorði fjölmiðlunar, ef rétt er.
"Góð frétt má aldrei líða fyrir sannleikann" er hermt að Indriði G. Þorsteinsson hafi sagt við blaðamann sinn hér um árið, gott ef það var ekki Sigurður Hreiðar.
Raunar má skilja orð ritstjórans á tvo vegu en ef lýsingarorðið "góð" er ekki haft með, sýnist auðveldara að túlka orðin sem kröfu um að í umfjöllun sé ávallt að finna bestu, réttustu og nauðsynlegustu fáanlegar upplýsingar og einnig lýsingu á mismunandi skoðunum, en þetta er boðorð fjölmiðlunar númer eitt, tvö og þrjú.
New York Times hefur löngum notið mikillar virðingar og álits fyrir ýmis umfjöllunarefni sín eins og til dæmis Watergate. ( Afsakið, hér slæddist inn villa, sem mér var bent á í athugasemd, - það var Washington Post sem upplýsti um Watergate).
Sé það rétt, að á vegum blaðsins hafi mynd af minningargöngunni um atburði í réttindabaráttu blökkumanna í gær hafi verið hagrætt, er það mikill álitshnekkir fyrir þetta virta blað.
Maður á hreinlega erfitt með að trúa þessu.
Sakað um að fjarlægja Bush | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er reyndar ekki hægt að segja að myndin hafi verið fölsuð. Ef til vill má segja að henni hafi verið "hagrætt" ef svo má að orði komast.
Ekkert á myndinni er rangt. En það má segja að hugsanlega vanti eitthvað á hana.
En ég hef þó að ekki sé neinn vafi á því að Bush og kona hans hafi verið í göngunni, hef ég ekki séð "orginal" af þeirri mynd sem birtist í NYT. Því kann ljósmyndarinn einfaldlega að hafa tekið "þrengri" mynd, án þess að ég hafi nokkurn grunn til að fullyrða um slíkt.
Og ef ég hef skilið málið rétt, er minnst á veru Bush hjónanna í göngunni í frétt NYT, þó að þau sjáist ekki á myndinni.
En samt verður þetta að teljast álitshnekkir fyrir NYT, því það er erfitt að trúa því að ljósmyndarinn hafi ekki tekið myndir þar sem allur "fronturinn" af göngunni sást.
Lang líklegast að er myndin hafi verið "kroppuð" í þessum tilgangi, eða "þrengri" mynd valin vísvitandi.
En því miður er fréttamennska sem þessi ótrúlega útbreidd.
G. Tómas Gunnarsson, 9.3.2015 kl. 20:36
Góð bloggfærzla má heldur ekki líða fyrir sannleikann; til dæmis þann að það voru blaðamenn Washington Post sem héldu Watergate málinu vakandi. New York Times lét undir höfuð leggjast að taka það mál upp meðan hvað harðast var vegið að þeim Bob Woodward og Carl Bernstein, sem gáfust ekki upp. Allir menn forsetans reyndu að rægja þá og hóta öllu illu. Minnir um sumt á þrautsegju tveggja ungra íslenzkra blaðamanna í lekamálinu nýverið.
Bjarni (IP-tala skráð) 10.3.2015 kl. 14:41
Takk, Bjarni, að benda mér á augljósa innsláttarvillu, sem ég leiðrétti hér með, án þess að þurrka út athugasemd þína, sem er staðreynd og ber að halda til haga sem atriði í því að "hafa skuli það sem sannara reyndist."
Svipað gildir um mynd NYT. Blaðið skuldar skýringu á því af hverju myndin var tekin þannig að Bush sæist ekki á henni. Hafi það verið fyrir mistök ljósmyndarans, á hann að fá ofanígjöf fyrir það.
Því að mynd segir oft meira en þúsund orð, og gera verður sömu kröfur til upplýsingagildis mynda og upplýsingagildis texta.
Skiptir þá engu þótt Obama hefði færst eitthvað örlítið til hliðar á myndinni út fyrir miðju hennar.
Hálfsannleikur, "hvít lygi", er oft verri en lygi.
Og hvað mig varðar skiptir það heldur engu þótt George W. Bush sé í einna minnstum metum allra Bandaríkjaforseta hjá mér. Hann var þarna, fjandinn hafi það.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2015 kl. 15:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.