10.3.2015 | 20:22
"Hernaðurinn gegn landinu" í 50 ár.
Nú er að verða hálf öld síðan stórsókn virkjanafíkla Íslands hófst gegn Þjórsárverum og syðri hluta hálendisins. Á myndinni er horft hátt úr lofti yfir einn fossanna á aftökulistanum, Gljúfurleitarfoss í Efri-Þjórsá.
Það var ekkert verið að skafa utan af því í upphafi að ætlunin væri að sökkva öllum Þjórsárverum eins og þau lögðu sig og ekkert minna kæmi til greina.
Þessu er mjög vel lýst í bók Guðmundar Páls Ólafssonar, og þegar farið er yfir þær hugmyndir, sem vikjanamönnum þóttu sjálfsagðar, skilst vel af hverju þessi áform voru ein helsta ástæðan fyrir tímamótagrein Halldórs Laxness 1970: "Hernaðurinn gegn landinu", sem hann skrifaði nokkrum árum eftir að ósköpin dundu yfir.
Meðal þess sem verkfræðingarnir settu fram var, að vegna hinnar miklu hagkvæmni þessara tröllauknu virkjanaframkvæmda yrði bæði fjárhagslega og tæknilega auðvelt að búa til ný heimkynni heiðargæsanna annars staðar á hálendinu !
Í hálfa öld hefur staðið baráttan fyrir friðun þessa svæðis og þar með björgun fossanna stóru í Þjórsá, sem virkjun þarna mun annars eyðileggja.
Virkjanafíklarnir sáu fljótlega að það var of áberandi að nöfn Þjórsárvera eða fossanna væru í nöfnunum, sem þeir völdu.
Í stað þess að kalla áformin Þjórsárveravirkjun eða Dynksvirkjun, var fundið nafn á lítt áberandi malaröldu, sem er nálægt stíflustæðinu og einnig forðast að nota orðið virkjun, heldur hið meinleysilega heiti "veita."
Heitið Norðlingaölduveita segir nákvæmlega ekki neitt um eðli virkjunarinnar.
Þetta var gert markvisst í svonefndri Kvíslaveitu, sem raunar fólst í fimm mismunandi virkjunum, sem allar tóku vatn úr einhverri af þverám eða kvíslum, sem féllu í Þjórsá austanmegin.
Þannig náðu virkjanamenn til sín þegjandi og hljóðalaust 40% af orku fossanna í Þjórsá, og upplýstu aldrei um hina háu prósentutölu fyrr en þeir voru örugglega komnir með allar veiturnar í höfn.
En þeim nægir ekki að hafa stórlaskað Dynk, flottasta stórfoss Íslands. Þeir halda áfram að að sækja að takmarki sínu og ósvífnin nær nýjum hæðum með því að dulbúa áformin í heitið "stækkun friðlands Þjórsárvera."
En þegar betur er að gætt, sést að ætlunin er að inn í áttina að hjarta veranna liggi eins og beitt sverð mjótt ófriðað svæði, nægilega stórt fyrir miðlunarlón og virkjunina!
Í raun virðist staðan í stríðinu um landið hafi ekkert hafa breyst í 50 ár. Fyrir liggja yfirlýsingar og stefna um að stefna í "mestu virkjanaframkvæmdir í sögu þjóðarinnar" fram til 2025 með því að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna í landinu, þannig að í stað þess að við framleiðum 5 sinnum meiri raforku en við þurfum fyrir okkur sjálf, framleiðum við 10 sinnum meiri raforku árið 2025 en við þurfum sjálf.
90% af þeirri orku á að fara til "orkufreks iðnaðar" í eigu útlendinga, (les: stóriðju) og aðeins 2% til heimilanna í stað 5% nú.
"Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær, sæstrengur verður lagður til Evrópu" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi þess fyrirtækis í hitteðfyrra og með tilkomu hans verður búið að gulltryggja að engu verði eirt.
Á teikniborðinu í þessari hernaðaráætlun einbeitts brotavilja gegn hinni einstæðu náttúru landsins eru meðal annars virkjanir Dettifoss, Jökulsánna í Skagafirði og Skjálfandafljóts (Aldeyjarfossvirkjun), virkjanir Skaftár og annarra áa í Vestur-Skaftafellssýslu, Tungnaár við anddyri Landmannalauga, virkjana- og mannvirkjabelti norður um Sprengisand, virkjun Bjarnarflags á austurbakka Mývatns 2022 og virkjanir við Leirhnjúk og í Gjástykki 2025 o.s.frv. o.s.frv.
Nöfn virkjananna eru á bilinu 80-100 eftir því hvenær þau birtast, og þegar er búið að gera um 30 stórar virkjanir.
Neðst hér á síðunni eru loftmyndir yfir Bjarnarflagssvæðið og þann hluta Gjástykkis, sem Alþjóðleg samtök áhugafólks um marsferðir, hafa valið sem æfingasvæði.
Krefjast friðlýsingar á svæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
18.3.2014:
"Skoðanakönnun Capacent Gallup hefur sýnt fram á víðtækan stuðning við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Um 56% aðspurðra voru því hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu.
Hugmyndin átti vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, meðal allra aldurshópa og um allt land."
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 20:55
Stærsti flokkspólitíski hópurinn að höfðatölu, sem var hlynntur stofnun slíks "miðgarðs" voru fólk, sem kvaðst ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Hvernig má það vera? Jú, Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti því með því að segja að þetta fólk vildi kjósa hægri flokk með sterka forystu, svo að það þyrfti ekki sjálft að hafa fyrir því að koma stefnumálunum í framkvæmd, heldur fá frið og aðstöðu til að "græða á daginn og grilla á kvöldin".
Þess vegna getur "sterk forysta" Sjallanna komist upp með hvað sem er, jafnvel í blóra við skoðanir kjósenda þeirra.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2015 kl. 21:09
9.3.2015 (í gær):
"Raforkuframleiðsla hér á landi hefur nærri tvöfaldast á mann undanfarinn áratug.
Norðmenn eru ekki nema rúmir hálfdrættingar í raforkuframleiðslu á mann."
"Orkustofnun hefur tekið saman heildarraforkuframleiðsluna í fyrra og nam hún 18.120 gígavattstundum."
"Raforkuframleiðsla á hvern íbúa nam tæpum 56 megavattstundum í fyrra.
Árið 2004 nam hún tæpum 30 megavattstundum og aukningin nemur 90 prósentum.
Magnús Júlíusson verkfræðingur á Orkustofnun segir að Norðmenn komi næstir á eftir okkur en þeir hafi um 30 megavattsstundir á íbúa.
Stöðug aukning hefur verið síðustu áratugi. Mesta stökkið varð þegar Kárahnjúkavirkjun var tekin í gagnið í nóvemberlok 2007.
Heimilin nota aðeins fimm af hundraði rafmagnsins en stóriðjan 80 af hundraði."
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 21:10
Leggja á raflínur í jörð í stað heljarinnar raflínumastra úti um allar koppagrundir, sem spilla hér góðu útsýni til allra átta og er að sjálfsögðu mikils virði fyrir okkur Íslendinga almennt og ferðaþjónustuna, þann atvinnuveg sem skapar hér mestu útflutningsverðmætin.
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 21:15
Raflínur í jörð - Einfaldlega hagkvæmast
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 21:17
Raflínur í jörð - Danmörk
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 21:18
Raflínur í jörð - Frakkland
Þorsteinn Briem, 10.3.2015 kl. 21:19
Þú ert hreinlega æðislegur Ómar!!!!!!!
Dinkur er ómetanlegur og Aldeyjarfoss er það líka!
Takk, takk fyrir allt bloggið þitt.
kv. Bjössi
Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 10.3.2015 kl. 23:15
Hvar er svo allur hagnaðurinn. Nei menn, sumir hverjir munu seint kunna að skammast sín.Já áfram með skattsvika menningu erlendra stórfyrirtækja. Ekki er sú áhætta takandi að sækja þá til saka. Ekki lækkar rafmagnskostnaður íslenskra
HEIMILA, eða hvað.
Eftir tengingu kapalsins Verður þá kanski norskt Rafmagnsverð á Íslandi.
Það furðulegasta í þessu öllu saman, virðist vera sú staðreynd sem blasir við að íslenskum kjósendum er nákvæmlega sama um Landið sitt, sem og Raforkuverðið til Stóriðjunnar og Heimilanna í landinu.
Guðni Ásmundsson (IP-tala skráð) 12.3.2015 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.