2.4.2007 | 19:54
ÓLÍKU SAMAN AÐ JAFNA
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld er greint frá því að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi sagt árið 2003 að hægt yrði að skapa fleiri störf fyrir austan án virkjunar en með, - en að tilraunir Vestfirðínga til þess að taka andstæðingana á orðinu hafi mistekist, - engin slík uppbygging hafi orðið þar á eina landshlutanum sem er og verður stóriðjulaus.
Hér er ólíku saman að jafna. Vestfirðir eru eini landshlutinn sem ekki hefur tryggar flugsamgöngur, - þangað er ófært til flugs miklu oftar en til Norður- og Austurlands vegna þröngra og misvindasamra aðflugsskilyrða og þó einkum þess að ekki er hægt að fljúga vestur í myrkri. Þetta er frágangssök fyrir ferðaþjónustu og aðra starfsem sem þarf á tryggum samgöngum að halda.
Það vegur þó líklega jafn þungt að samkeppnisaðstaða Vestfjarða er miklu erfiðari gagnvart öðrum löndum en samkeppnisstaða hins eldvirka svæðis íss og elds á miðhálendi Íslands sem á sér engan keppnaut í heiminum.
Þeir erlendir ferðamenn sem vilja sjá hrikalegt fjarðalandslag geta farið til vesturstrandar Noregs eða jafnvel til Grænlands þar sem slíkt landslag er enn fjölbreyttara og stærra í sniðum en á Íslandi.
Þegar við bætist að ríkisvaldið jós meira en hundrað milljörðum í framkvæmdir fyrir Austfirðinga á sama tíma og nær ekkert er gert fyrir Vestfirði er skýringin á hnignun byggðanna á Vestfjörðum augljós. Andstæðingar Kárahnúkavirkjunar höfðu engan stuðning til þess að framkvæma það sem fjármagn þurfti til ef jafnræðis átti að gæta.
Til þess að Vestfirðir geti keppt við eldvirka jöklasvæðið á Íslandi um ferðamenn verður að uppfylla þrenn höfuð skilyrði:
1. Koma á samkeppnisfærum samgöngum við Vestfirði. Íslandshreyfingin - lifandi land hefur sett fram hugmynd um flugbraut á Barðaströnd, sem hægt er að nota jafnt nótt sem dag, - með góðu jarðgangasambandi við Ísafjörð. Þetta yrði að líkindum mesta lyftistöng sem unnt er að gefa Vestfirðingum kost á til að ná sjálfsögðu jafnræði við aðra landshluta.
2. Veita fjármagni til uppbyggingar á Vestfjörðum til jafnræðis við aðra landshluta. Það er ósanngjarnt að segja að umhverfisverndarfólk hefði átt að koma vestur stuðningslaust með tvær hendur tómar til þess að framkvæma það sem sanngjarn stuðningur ríkisvaldsins hefði getað gert.
3. Að gera Vestfirði jafn einstæða á heimsvísu og samspil elds og íss í öðrum landshlutum er. Þetta er þrautin þyngri eins og áður hefur verið rakið. En engu að síður skulda landsmenn Vestfirðingum stuðning til þess að þeir standi jafnfætis öðrum landshlutum í samgöngum.
Hugsanlegt er að með skattaívilnunum til handa fyrirtækjum í jaðarbyggðum Íslands eins gert hefur verið í nágrannalöndunum s. s. í Svíþjóð sé hægt að laða vestur fyrirtæki á borð við hugbúnaðarfyrirtæki sem eru óháð staðsetningu. Íslandshreyfingin vill láta skoða þennan möguleika.
Athugasemdir
Sniðug þessi hugmynd með skattaívilnunum til handa fyrirtækjum í jaðarbyggðum Íslands..
Björg F (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 21:57
Ef stóriðjan skiptir ekki máli Ómar, hvers vegna ættu Vestfirðir þá að líða fyrir það að þar er ekki hægt að hafa þar stóriðju? Skiptir einhverju máli hvar rok og rigning eru seld? Er rigningin og rokið fyrir vestan eitthvað öðruvísi en fyrir austan? Spyr sá sem ekki veit.
Halldór Egill Guðnason, 2.4.2007 kl. 22:07
Mér sýnist að Íslandshreyfingin sé víða að leita fanga í stefnuskrá Samfylkingarinnar og er það hið besta mál! T.d. þessi hugmynd um skattaívilnanir til fyrirtækja á landsbyggðinni. Stefnuskrá Samfylkingarinnar má lesa í heild sinni á www.samfylkingin.is
Guðríður Arnardóttir, 2.4.2007 kl. 22:21
Góðar hugmyndir sem virðast vel geta gengið upp...guð sé lof fyrir að loksins er komið fram stjórmálaafl með forgangsatriðin á hreinu...ég er allavegana ekki í vafa hvað ég kýs í kosningunum, Ómar ,ég tek hatt minn ofan fyrir þér...það veit ég líka að faðir minn heitinn (Sveinbjörn Beinteinsson), hefði líkað ykkar málflutningur vel ,alveg í hans anda...og míns..Takk!
Georg P Sveinbjörnsson, 2.4.2007 kl. 22:53
Enda er ég farin að hallast að því að Íslandshreyfingin og Samfylkingin saman í stjórn sé góður kostur. Einn helsti "galli" á Samfylkingunni finnst mér vera sá að þau hafa ekki afnám eða minnkun verðtryggingar á dagskrá.
Kristinn; það væri nær í lagi að spyrja Margréti S. um þessar spurningar
Björg F (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 22:54
Ég vil framtíð þar sem hrein orka íslands er virkjuð, vatnsorka, því mun meiri mengun fylgir jarðvarma. Ekki legst ég þó gegn virkjun jarðvarma en kýs þessa forgangsröð. Hvernig orkunni er ráðstafað er svo stóra spurningin. Það skiptir mig litlu hvort það er gert fyrst um sinn í 5-7 álverum, þau eru aðeins 2 starfandi í dag og það þriðja að taka til starfa. Rafokusamningar renna út og þá er staðan endurmetin og hagstæðra verða leitað á ný. Auðvitað mun aldrei öll orkan fara í álver. Mikið af orku mun seinna fara til að hlaða rafbíla. Hugsanlegt er að rafgreina vatn til að framleiða vetni fyrir vissar tegundir farartæka eins og flugvélar. Vetnisbílar munu ekki geta keppt við rafbíla - það er einfaldlega betra að nota rafmagnið beint þ.e. hlaða því inná rafgeyma og nota þannig. Vetni gæti samt orðið góður kostur fyrir flugið þar sem það er orkumikið og létt og rafgeymar vonlausir þar. Íslendingar munu sífellt meir nýta sér orku landsins til hagsbót fyrir okkur öll. Sjálfsagt mun álverum fækka seinna meir og annað nýta hina endurnýjanlegu orku en þangað til er tilvalið að byggja nokkur álver og eiga góðar og traustar virkjanir frítt og endurráðstafa svo orkunni þegar hentar. Þetta er glæsileg framtíð sem við eigum á þessu orkumikla landi okkar og þetta er að gerast í þessari röð. Auk þess höfum við alls konar þekkingariðnað sem er að blómstra svo þetta lítur bara bærilega út hjá okkur. Rannsóknarþjónusta Háskólans er ágætt dæmi um slíkt. "Rannsóknaþjónustan er þjónustustofnun fyrir íslenskt þekkingarsamfélag sem aðstoðar við öflun styrkja til þekkingaröflunar, greiðir fyrir hagnýtingu þekkingar og styrkir getu einstaklinga og samfélagsins til að takast á við verkefni morgundagsins." segir á heimasíðu hennar.
Orka og þekking mynda saman þekkingarorku framtíðarinnar.
kær kveðja
Sveinn
Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 23:45
Hvað oft þarf að segja þér Ómar að ríkissjóður kemur hvergi nálægt Kárahnjúkavirkjun eða álverinu í Reyðarfirði? Ríkisjóður jós ENGU í framkvæmdir fyrir Austfirðinga. Þarna liggur nefnilega reginmunurinn á úrræðum vinstrimannakórsins til atvinnuveganna. Og nú hefur þú bæst í þann kór, sem reyndar hljómar Ómar afskaplega hjárænulega og falskt.
Það á ekki að veita landsbyggðinni hjálp í formi ölmusu eða styrkja. Gefa á frekar landsbyggðinni tækifæri til að vera sjálfri sér nóg í þjónustu og atvinnusköpun. Gefum henni tækifæri til að hjálpa sér sjálf. Tækifæri eins og Austfirðingar fengu. Ég hef ekki svör fyrir Vestfirðinga en ég efast um að þeir kæri sig um að vera bótaþegar landsins.
Það eina sem ég get kvittað fyrir hjá þér Ómar eru samgöngubætur.Samgöngubætur eru fjárfesting sem skila arði. Skattaívilnanir til afskekktra svæði er langt frá því að vera ný hugmynd. En hún verður þá að leiða til einhvers. Það á ekki að vera stefna stjórnvalda að niðurgreiða búsetu á landsbyggðinni heldur að hlaða undir raunhæf plön sem skjóta stoðum undir arðbær atvinnutækifæri.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 02:12
Spennadi ef þú/þið keyrðuð fram hugmyndir um skattaívilnun fyrir landsbyggð. Fyrir utan meinta sérstöðu ykkar v. umhverfismála gæti það markað ykkur sérstöðu. Það er svipað fyrirkomulag (hér) í Noregi og munar miklu fyrir marga. Sérstaklega er skattaívilnun heppileg fyrir lítil fyrirtæki þar sem munar verulega um hvern tug/hundrað-þúsundkallinn.
Tryggvi H., 3.4.2007 kl. 08:09
Merkilegt hvað sósíalistar eru alltaf duglegir að sjá stefnumál annarra flokka í sinni eigin stefnuskrá og menga spjallið með því að vísa á link á heimasíðu sína! Segir þetta ekki ýmislegt um hugmyndaskortinn?
Er þetta kannski ástæðan fyrir því að Camparifylgi sósíalista er að detta niður í Rieslingfylgi?
Guðmundur (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 08:38
Og þetta var í Íslandi í dag á Stöð 2, ekki fréttunum :-) Rétt skal vera rétt.
Ritstjórinn :-)
Steingrímur Sævarr Ólafsson, 3.4.2007 kl. 09:03
Góðan daginn. Ja ég átti ekki von á að Ómar talaði niður til náttúru Vestfjarða. Hún stendur fyllilega jafnfætis öðrum svæðum á landinu. Hér á Vestfjörðum er rekin ferðaþjónusta sem smátt og smátt er að eflast og ná yfir lengri tíma ársins. En hún kemur aldrei í stað sjávarútvegs sem aðalatvinnugrein svæðisins. Varðandi aðkomu ríkisins að frmakvæmdum hér þá þurfum við ekki neinar sértækar aðgerðir til að rétta úr okkar atvinnulífi. Við þurfum að njóta þess sama og aðrir. Helsta ástæða erfiðleikana hér núna er efnahagsstjórnuninn. Undanfarinn 2-3 ár hefur eina stjórnunin á efnahag landsins verið sú að stuðla að hækkun gengis krónunnar til að innflutningur lækki og verðbólga verði fyrir það lægri. Þetta étur upp tekjur útfluttningsgreina sem því miður eru svo til allt atvinnulíf á landsbyggðinni. Landsbyggðin og þar með Vestfirðir eru að greiða niður hina gríðalegu þennslu sem óstjórn í efnahgsmálum hefur haft í för með sér. Þetta er það gjald sem lítill hluti þjóðarinar er að greiða fyrir þjóðina alla, vegna þessara stórframkvæmda fyrir austan og innspýtingu lánsfjár inn á fasteignamarkaðinn.
Landsbyggðin er í formi tekjuminkunnar, vegna hás gengis krónunar, að greiða stýrivexti Seðlabankans en stærsti hluti SV hornsins hirðir ágóðan af þessu í formi ódýrari innflutnings. Ef þetta væri jafnað þá væri ástandið hér ekki eins slæmt og nú er.
Einnig er það ankanalegt að ríkisstjórn sem setið hefur við völd í 12 ár skuli nú láta eins og staða mála hér fyrir vestan sé eitthvað sem þeir beri enga ábyrgð á. Ef tólf ára stjórnarseta nægir ekki þessum flokkum þá eru þeir ekki á vetur setjandi. Að ríkisstjórn sem fór í sértækar aðgerðir gegn þennslu með því að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum fyrir 800-1000 millj þegar framkvæmdir uppá 300 milljarða voru að hefjst þykist ekki bera neina ábyrgð ???
En Ómar náttúra Vestfjarða er og verður ein sú sérstæðasta sem þekkist í heiminum með sína firði, fuglabjörg, hafið og ekki síst fjölbreytt mannlíf. En ég er sammála því að samgöngur hér þurfa að færast í átt til þess sem eðlilegt er á 21 öldinn og reyndar Alþingi til skammar að hafa ekki neytt ríkistjórnina til að laga fyrir löngu síðan. Því það er jú Alþingi sem samþykkir eða hafnar því sem ríkisstjórn vill gera.
Kveðja Elías Oddsson Ísafirði.
Elías Oddsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 09:28
Sæll Ómar
Mér finnst þú vera að gera lítið úr náttúru Vestfjarða með þessu tali. Á Vestfjörðum höfum við Drangajökul (ís), á Vestfjörðum höfum við víða jarðhita (eld) eins og á Reykhólum, Reykjanesi, Drangsnesi, Reykjafirði nyrðri og í Árneshrepp. Það er rétt að við höfum engin lifandi eldfjöll lengur en er það höfuðatriði? Það má ekki festast í þessari eldfjallagarðahugmynd. Gönguleiðin um Hornstrandir er sívinsæl og fer brátt að verða of vinsæl með of miklum átroðning en það þýðir væntanlega að fólk er tilbúið að leggja á sig ýmislegt til að skoða náttúru Vestfjarða. Það er hinsvegar rétt að samgöngubætur eru forgangsatriði fyrir Vestfirðinga og að ekkert atvinnulíf mun dafna þar til frambúðar án þeirra. Hér má sjá pistil sem ég skrifaði um framtíð Vestfjarða og þar koma nokkur fleiri atriði fram. Það sem er hinsvegar mikilvægast er að grípa til aðgerða strax áður en að það verður of seint.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 3.4.2007 kl. 09:38
Sæll Ómar, það stefnir allt í að ég kjósi þig, ætla samt að sjá hverjir verða í framboði í kraganum. Ég er hægri þenkjandi og get ekki hugsað mér að kjósa VG. Þú hefur þá alla veganna laðað einn hægrigrænann til þín
Eysteinn Ingólfsson, 3.4.2007 kl. 11:24
Ólíku saman að jafna.
Ómar Ragnarsson hefur talað dreymandi um eldfjallaþjóðgarð sem er miklu stærri en sá á Hawaii sem þó malar gull að því er virðist. Hér er ólíku saman að jafna.
Í fyrsta lagi er ferðamannaiðnaðurinn á Hawaii gríðarlegur enda koma þangað árlega um 7 milljónir ferðamanna. Eldfjallaþjóðgarðurinn einn og sér er ekki að draga til sín þá 2.5 milljón ferðamanna sem sækir hann árlega. Á Hawaii er milt og hlýtt loftslag allt árið um kring á sama tíma og veðurfarið hér á Íslandi getur seint talist stöðugt, hvað þá milt. Á Hawaii er einnig stærsta eldfjall í heimi og þar er líka virkasta eldfjall í heimi, en þar hófst síðast gos árið 1982 og stendur enn. Það má því gera ráð fyrir að stór hluti þeirra ferðamanna sem heimsækja garðinn séu komir til að sjá eldgos, en það er eitthvað sem við getum ekki boðið uppá.
Eldfjallagarðurinn okkar yrði engu að síður merkilegur og kannski miklu merkilegri en sá á Hawaii, en aðeins fyrir fræðimenn.
Einnig þyrftum við að ráðast í mikla vegagerð um svæðið til að auðvelda aðgengi að helstu stöðum en nú á dögum má helst ekki velta við einni þúfu án þess að fara í umhverfismat og ekki þætti mér því líklegt að leggja mætti þessa vegi og koma upp þeim mannvirkjum sem þyrfti til að gera slíkan eldfjallaþjóðgarð aðgengilegan.
Það er því ansi langsótt að ætla að yfritrompa Hawaii með því að bjóða uppá miklu stærri eldfjallaþjóðgarð enda skiptir stærin ekki máli heldur eru það aðstæður og aðgengi auk verðurfarsins sem skiptir ekki síst máli.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 12:55
NÝ FRÁBÆR SÍÐA WWW.FM-MANAGER.CENTRAL.IS
Geir Formaður (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 18:20
ÞAÐ ER TIL NÓG AF PENINGUM Í ÞESSU LANDI en það er vitlaust gefið, stokka þarf spilin upp og gefa upp á nýtt. Aðalvandi sjávarbyggðanna, þar á meðal Vestfjarða, er núverandi kvótakerfi sem komið var á koppinn árið 1984 en þá byrjaði Vestfjörðum að hnigna og íbúum þar hefur fækkað um fjórðung á tímabilinu. Fyrirtækið Einar Guðfinnson lokaði til dæmis í Bolungarvík árið 1993. Íbúar á Vestfjörðum voru um 7.700 talsins árið 2004 og þá var hagvöxtur þar neikvæður um 2%. Nú er íbúafjöldinn um 7.500, þar af um 500 erlendir ríkisborgarar.
Oddi hf. á Patreksfirði og tengd fyrirtæki hafa undanfarið keypt 950 tonna aflakvóta fyrir tvo milljarða króna, þar af 1,7 milljarða á síðustu fjórum mánuðum, nú síðast með kaupum á Brimnesi BA ásamt aflaheimildum. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru nú þegar sameign þjóðarinnar, samvæmt stjórnarskránni, og þjóðin hefur rétt til að údeila aflakvótum til eins árs í senn með þeim hætti sem henni finnst réttast og skynsamlegast hverju sinni. Veiðiskip eru nú lítils virði án aflakvóta. Hins vegar er engin ástæða til að skip haldi ekki áfram að fá aflakvóta með svipuðum hætti og þau fá nú, en sjávarbyggðirnar eiga sjálfar að útdeila þeim og hirða af þeim arðinn í eigin þágu.
Ég fæ ekki séð að slíkt brjóti í bága við Vatneyrardóm Hæstaréttar frá 6. apríl 2000. "Alþingi geti í skjóli valdheimilda sinna kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru." (Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og lögfræðingur á heimasíðu sinni 9. apríl 2000, þar sem Björn segir að Hæstiréttur hafi komist að "viturlegri niðurstöðu".)
Ef um 150 skip skráð á Vestfjörðum, sem fengið hafa samtals um 30 þúsund tonna aflakvóta í þorskígildum, myndu greiða til sinna byggðarlaga rúmlega þrisvar sinnum lægra verð fyrir kvótann en þau gera nú sín á milli, 50 krónur fyrir kílóið í þorskígildum, myndu þau greiða árlega samtals 1,5 milljarða króna til byggðarlaga á Vestfjörðum, 200 þúsund krónur á hvern íbúa. Þar að auki myndu laun sjómanna og fiskvinnslufólks hækka verulega greiði útgerðir þrísvar sinnum lægra verð fyrir kvótana en þær gera nú, og hækki laun þessa fólks mun það hafa mikil margföldunaráhrif í öllum sjávarbyggðum landsins, til dæmis á Dalvík og Húsavík, og mun fleiri Íslendingar yrðu tilbúnir að vinna í fiskvinnslunni en nú er. Byggðarlögin gætu notað auðlindarentu sína meðal annars til samgöngubóta, setja upp þráðlaus net, greiða kennurum hærri laun, svo og starfsfólki í þjónustu við sjúka og aldraða.
Skip skráð í Reykjavík eru með 10% af heildaraflakvóta landsmanna í þorskígildum talið og með sömu forsendum og áður er auðlindarenta Reykjavíkurborgar 1,8 milljarðar króna á ári. Hins vegar er engan veginn sanngjarnt að Reykjavíkurborg fái þessa auðlindarentu, því Reykjavík fær nú þegar mikinn arð af þjónustu við alla landsbyggðina. Þessi upphæð, 240 þúsund krónur á hvern íbúa á Vestfjörðum, nægir til að greiða kostnað við jarðgöng á milli Syðridals og Hnífsdals, um 2,4 milljarða króna, á framkvæmdatímanum, 17 mánuðum. Auðlindarenta Reykjavíkur gæti alltaf gengið til þeirra byggðarlaga sem misst hafa mestan kvóta, eða þeirra verkefna á landsbyggðinni sem brýnust þættu hverju sinni, til dæmis jarðgangagerðar og annarra samgöngubóta.
Í Bolungarvík eru um 900 íbúar, um 30 útgerðir og um 40 veiðiskip. Með jarðgöngum á milli Syðridals og Hnífsdals verður hægt að leggja niður sýslumannsembættið í Bolungarvík og með jarðgöngunum verður sparnaður í opinberri þjónustu á svæðinu um 30 milljónir króna á ári. Á sama hátt geta Vestmanneyingar greitt jarðgöng á milli lands og Eyja, 38 milljarða króna á 23 árum, fyrir sína eigin auðlindarentu en skip skráð í Eyjum eru með 9% af heildaraflakvótanum í þorskígildum talið.
Þjóðhagslegur ábati af jarðgöngum á milli lands og Eyja yrði 25 milljarðar króna, samkvæmt Hagfræðistofnun. Veggjaldið yrði 2.500 krónur fyrir fólksbíla en 7.500 krónur fyrir stærri bíla. Kostnaður við Hvalfjarðargöngin verður hins vegar ekki greiddur upp fyrr en árið 2018, þrátt fyrir mun meiri umferð þar en gert var ráð fyrir í upphafi. Þorlákshafnarbúar þurfa ekki álver. Þeir eru með 3,35% af heildaraflakvótanum og auðlindarenta þeirra yrði samkvæmt sömu forsendum um 600 milljónir króna á ári, sem hægt væri að nota til að skapa alls kyns störf. Grindvíkingar eru með 10,4% af heildarkvótanum og þeirra auðlindarenta yrði 1,87 milljarðar króna á ári.
Keflvíkingar hafa Varnarliðssvæðið, sem er mörg hundruð milljarða króna virði, heilt bæjarfélag með öllu nauðsynlegu til reiðu, húsnæði af öllu tagi, lögnum og götum öllum. Þar verður meðal annars alþjóðlegur háskóli og Húsvíkingurinn, útvarpskonan og kvikmyndafræðingurinn Sigríður Pétursdóttir, segir mér að Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hafi tekið mjög vel í hugmyndir hennar um að gera á Varnarliðssvæðinu kvikmyndabæ að hætti Trollhättan í Svíþjóð. Bláa lónið er skammt frá Keflavík og Grindavík og veitir hátt í tvö hundruð manns vinnu. Þar að auki er auðvelt að koma þar Reykjanesgarði á koppinn, sem veita myndi svipuðum fjölda vinnu. Hins vegar fara stóriðja og ferðaþjónusta engan veginn saman, að sögn Önnu G. Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins.
Erlendir ferðamenn gistu í 48.400 nætur á Vesturlandi og Vestfjörðum í fyrra. Hver erlendur ferðamaður eyðir hér um 100 þúsund krónum að meðaltali og dvelst hér í viku, þannig að þeir eyddu alla vega um 700 milljónum króna á þessu svæði í fyrra. Til landsins komu um 420 þúsund erlendir ferðamenn í fyrra og eyddu því samtals um 42 milljörðum króna. Þar að auki komu hingað tugir þúsunda með skemmtiferðaskipum í fyrra og þau munu nú geta lagst að bryggju á Húsavík.
Jarðgangagerð bæði á Vestfjörðum og Tröllaskaga var frestað vegna allrar þenslunnar sem fylgdi stóriðjuframkvæmdunum en var mikil þensla á landsbyggðinni, fyrir utan ákveðið svæði á Austurlandi í kringum stóriðjuna þar? Með stórbættum samgöngum, til dæmis jarðgöngum, mun ferðaþjónusta stóraukast, til dæmis í Eyjum, á Vestfjörðum, Siglufirði og Ólafsfirði, svo og Mývatnssveit og Húsavík með jarðgöngum undir Vaðlaheiðina.
Undirritaður skrifaði í mörg ár um sjávarútvegsmál fyrir Morgunblaðið.
Steini Briem (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 20:56
VESTFIRSK BYGGÐARLÖG gætu fengið 1,5 milljarða króna auðlindarentu á ári til eigin nota seldu þau 30 þúsund tonna aflakvóta sína sjálf fyrir 50 krónur kílóið í þorskígildum, eða rúmlega þrisvar sinnum lægra verð en þorskkvótinn kostar nú innan ársins. Heildarúthlutun kvótabundinna fisktegunda hér við land á síðasta fiskveiðiári nam tæplega 354 þúsund tonnum í þorskígildum talið, sem er nánast sama heildarmagn og næsta fiskveiðiár á undan.
Ef byggðarlögin myndu selja þennan heildaraflakvóta fyrir 50 krónur kílóið, meira en þrisvar sinnum lægra verð en útgerðirnar greiða nú sín á milli, myndi heildarauðlindarenta þeirra vera 18 milljarðar króna á ári. Reiknað var með að heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2006 yrði um 130 milljarðar króna, þannig að samtals 18 milljarða kvótasala byggðarlaganna á ári væri um 14% af þeirri upphæð. Ef allur núverandi kvóti gengur kaupum og sölum innan ársins er verðmæti hans hins vegar 43% af útflutningsverðmætinu, samtals 56 milljarðar króna.
Hins vegar er einnig um mikla sölu á svokölluðum "varanlegum" kvótum að ræða. Kílóið af "varanlegum" þorskkvóta kostaði 2.200 krónur í nóvember í fyrra og er nú trúlega komið upp fyrir 2.500 krónur kílóið, þannig að kostnaður útgerða vegna kvótakaupa hefur farið og fer enn ört vaxandi.
Í hinu nýja kerfi yrði hins vegar ekki um neina "varanlega" kvóta að ræða, því aflakvótarnir yrðu einungis seldir til eins árs í senn. Í núverandi kerfi merkja "varanleg" kaup í raun kaup til nokkurra ára, þannig að kaupin eru afskrifuð á nokkrum árum. Kaup útgerða á nýjum aflakvótum af byggðarlögum sínum til eins árs í senn myndu því bætast við þessar afskriftir í nokkur ár, enda hefur ríkið ekki úthlutað aflakvótum til lengri tíma en eins árs í senn og útgerðir hafa engan veginn getað stólað á að fá aflakvóta með sama hætti og verið hefur. Útgerðirnar eiga heldur ekki rétt á skaðabótum ef fiskistofn hrynur eða loðnan finnst ekki.
Árum saman hefur verið rætt um það opinberlega að breyta þyrfti núverandi kerfi og í stjórnarskrána hefur verið sett ákvæði til að hnykkja á að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Hér skiptir ekki öllu máli hvort rétturinn til að veiða fiskinn telst eign þjóðarinnar, og því andlagið í lögfræðilegum skilningi, eða þá fiskurinn sjálfur. Útgerðarmennirnir þurfa fyrst að fá rétt hjá sjávarútvegsráðherra í umboði þjóðarinnar til að veiða fiskinn, veiðiréttinn, þar sem fiskurinn er eign þjóðarinnar allrar. Og mikil verðmæti eru fólgin í þeim veiðirétti sem úthlutað er, eins og dæmin sanna. Hins vegar er fiskurinn lítils virði ef enginn má veiða hann.
Útgerðarmenn eiga því engan rétt á skaðabótum yrði kerfinu breytt í þessa veru, enda fengju skip þeirra að halda áfram að veiða með svipuðum hætti og verið hefur, enda þótt þeir gætu ekki keypt "varanlegan" kvóta. Nú eru veiðiskipin sjálf lítils virði ef enginn "varanlegur" kvóti er bundinn við þau.
Alltaf hætta einhverjir í útgerð og fiskvinnslu og sæju byggðarlögin sjálf um að úthluta aflakvótunum gætu þau einnig selt þá til árs í senn nýjum útgerðum og fiskvinnslum, sem gætu þá selt réttinn áfram til útgerða, sem myndu veiða fiskinn fyrir þær. Á sama hátt væri hægt að selja fiskútflytjendum aflakvóta. Aðalatriðið er hins vegar að byggðarlögin sjálf hirði arðinn af sölu aflakvótanna, þeim sjálfum og þjóðinni allri til hagsbóta, enda á hún veiðiréttinn á Íslandsmiðum og hefur alltaf átt.
Steini Briem (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 14:37
Kæri Guðmundur Ragnar Björnsson. Þótt ég vilji að menn sýni raunsæi hvað snertir möguleika landsvæða til að lokka til sín ferðamenn hefði ég kannski átt að reifa nánar þá miklu möguleika sem Vestfirðir hafa til þess að skapa sér sérstöðu.
Ef hægt yrði að gera alþjóðlega flugbraut á Barðaströnd, helst við Brjánslæk, myndi opnast stórkostlegur möguleiki með öruggum flugsamgöngum til þess að koma þar á fót ferðamannamiðstöðu í kringum flugið frá Reykjavík eða jafnvel frá útlöndum.
Þaðan mætti bjóða upp á bátsferðir suður til Flateyjar og um nyrstu breiðfirsku eyjarnar þar sem sagan og náttúran eru sérstök.
Í hina áttina yrði greið leið til Ísafjarðar og áfram um Vestfirði. Á Vestfjörðum þarf að gera átak til að kanna fornminjar og laða ferðafólk að stöðum þar sem hið einstæða sambýli Vestfirðinga við sjóinn og sjávarnytjar fengi notið sín.
Vestfirðir geta skapað sér sérstöðu ef hugkvæmni ræður för og samgöngunum er kippt í lag.
Ómar Ragnarsson, 4.4.2007 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.