20.3.2015 | 19:24
Gamli rúnturinn var stórbrotin félagsmiðstöð.
"Keyra rúntinn piltar sem eru´í stelpuleit..." orti Sigurður Þórarinsson þegar hann lýsti stemningunni í miðbæ Reykjavíkur um miðja síðustu öld í ljóði sínu "Vorkvöld í Reykjavík" undir sænsku lagi.
Þessi yndislega hringekja með hæfilegri blöndu af gangandi fólki og bílum var upp á sitt besta áður en bílarnir urðu of margir miðað við gangandi fólkið þegar leið á öldina.
Fyrir unga fólkið gegndi rúnturinn mikilvægu hlutverki við það að það kynntist og blandaði geði í aðdraganda þess að finna lífsförunaut, en til þess þurfti það að "sýna sig og sjá aðra."
Eftir að rúnturinn í Reykjavík fór að dala hélt rúnturinn á Akureyri velli.
Þar var hann að vísu eðlilega miklu styttri en rúnturinn í Reykjavík en virtist ekki missa afl sitt af einhverjum ástæðum.
Ég kynnti mér hann sérstaklega og gerði stutt sjónvarpsinnslag um hann, rúntinn á Akranesi og rúntinn í Reykjavík sem dró það vel fram hve mjög rúnturinn í höfuðborginni mátti muna fífil sinn fegri.
Einn tæknilegur munur var áberandi: Rúnturinn á Akureyri var með tvöfalda umferð þannig að ekið var í báðar áttir, - en í Reykjavík aðeins í eina átt.
Í bílunum í Reykjavík sá því enginn framan í aðra í bílunum, en á Akureyri margsinnis hvert kvöld, - allir vissu af öllum og formúlan "að sýna sig og sjá aðra" svínvirkaði.
Þegar best lét í Reykjavík var gangandi fólkið svo margt að þrátt fyrir ákveðinn skort á sambandi milli fólksins í bílunum, sáu allir í bílnum gangandi fólkið og allt gangandi sáu alla akandi; - rúnturinn var nokkurs konar risavaxin félagsmiðstöð fyrir bæjarbúa og sérstaklega fyrir unga fólkið.
Nú hefur ferðamannafjöldinn í Reykjavík og að hluta til á Akureyri yfirkeyrt og eytt megin sérkennum gamla rúntsins.
Það er eftirsjá af gamla rúntinum en tímarnir breytast og mennirnir með, og "enginn stöðvar tímans þunga nið."
Á rúntinum í 16 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Nú hefur ferðamannafjöldinn í Reykjavík og að hluta til á Akureyri yfirkeyrt og eytt megin sérkennum gamla rúntsins."
Hægt er að aka Laugaveginn og aðrar götur í miðbæ Reykjavíkur, þannig að sumir geta enn kannað hvort þeir sjá þar einhvern sem þeir þekkja án þess að nenna að stíga út úr bíl.
Þorsteinn Briem, 20.3.2015 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.