Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð.

Stjórnmál og stjórnmálamenn eiga í vaxandi mæli undir högg að sækjameðal kjósenda, sem verða æ tregari til að koma á kjörstað með hverjum kosningum. 

Píratar sækja sér fylgi úr ýmsum áttum. Það er ekki erfitt að verða afhuga núverandi stjórnarflokkum og stefnu þeirra við að færa fjármuni og völd til þeirra sem þegar hafa mest af slíku og standa ekki við kosningaloforð sín.

Píratar eru nú að verða kjósendum kunnari en áður og koma vel fyrir. Þeir höfða til yngri hluta kjósenda sem fulltrúar nýrra tíma fjarskiptabyltingar netsins og tölvanna og nýtingar þess til framfara í beinu lýðræði og á mörgum öðrum sviðum.

Þar að auki virðast þeir vera einarðastir í sambandi við aukið og bætt lýðræði og það að farið verði að vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Að minnsta kosti nefna þeir þau mál oftar en aðrir. 

Og nýir tímar kalla á ný viðbrögð og ný vinnubrögð og þá beinist athyglin að nýju fólki eins og Pírötum, sem leitast við að koma fram af hreinskiptni og einlægni og hefur hæfileika til að gera gagn.  

Hinir flokkarnir, sem eiga mikið mannval og mörg ágæt stefnumál, verða að taka mið af þessu og rífa sig á breyttum tímum út úr stöðnuðu fari stjórnmálanna sem hafa beðið endurtekið skipbrot síðustu árin, - þeir verða að taka sér ærlegt tak í stefnumálum sínum og vinnubrögðunum og aðferðunum sem hafa ríkt við að koma þeim fram. 

Tákn um það hve langt stjórnmálin eru komin niður, er til dæmis stórminnkandi traust almennings á Alþingi, og var þó ekki af miklu taka.     

 


mbl.is „Ákall um lýðræðisumbætur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafa Píratar hæfileika til að koma að gagni?
Hvar hefur það komið fram?

Sagan hefur að geyma ótal dæmi um "bjargvætti" í pólitíkinni. Þeir eru flestir á ruslahaugum sögunnar. Það að vera "nýr og ferskur" er svo sannarlega engin trygging fyrir árangri. Og séu þingmenn og þingmannsefni Pírata skoðaðir, þá eru þeir ungir og reynslulitlir. Ungt og reynslulítið fólk gerir oft afdrifaríkustu mistökin. Það er líklegra að grípa til drastískra aðgerða, án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum.
En svo geta þeir farið hina leiðina, leiðina sem Besti flokkurinn fór í Reykjavík, að gerast kerfisflokkur með því að eftirláta Samfylkingunni stefnuna og framkvæmdina.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 14:30

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eitt helsta mál Pírata, allavega hefur mér fundist það, er að fólk geti krafist þjóðaratkvæðnagreiðslna um mál.  Hann bendir á þetta Helgi, og þá bæði minnihluti Alþingis og kjósendur almennt og þá stundum verið nefnd mörk eins og 5% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðs.

Undanfarin ár eða eftir 2009 aðallega, hefur ítrekað sýnt sig að gríðarstuðningur er við þetta meðal þjóðarinnar.  Bæði skoðanakannanir og ein þjóðaratkvæðagreiðsla hefur sýnt þennan mikla stuðning.

Útá þessa tísku höfðuðu td. Framsókn og sjallar fyrir síðustu kosningar þegar þeir lofuðu og sárt við sóru að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB.  En þeir sviku það eins og frægt varð.  

Þetta virðist eitt af því fá sem er nokkurnvegin stabíliserað hjá kjósendum.  Þ.e. vinsædir þess að geta krafist þjóðaratkvæðis.

Eg er ekki að sjá hvernig stjórnmálamenn almennt geti vikist undan þessari kröfu á komandi misserum.

(Hitt er svo önnur umræða hvort þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál séu til góða eða til baga.  Í stuttu máli þá geta þjóðaratkvæðagreiðslur alveg haft kosti en líka galla.  Eg er dáldið hræddur um að það eigi allt endanlega eftir að fara í fokk þegar jóðaratkvæðagreiðslur eru lögfestar og komnar til framkvæmda.  Hægri-öflin eiga eftir að misnota þær.  Við þekkjum alveg umræðuna síðustu ár, hve stórt menn taka uppí sig í því samhengi að þeir vilja meina að þeir tali fyrir munn þjóðarinnar eða tali fyrir vilja meirihluta þjóðar.  Þjóðaratkvæði gæti alveg reynst bensín á ruglumbull eldinn sem hefur logað hér pólitískt síðustu ár.  Eg er smeykur um það.  Þó skiptir framkvæmdin og útfærslan alltaf máli.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2015 kl. 14:41

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Burtséð frá því hvaða stjórnmálaflokka menn hafa kosið hafa þessi atriði einfaldlega ekki virkað:

Stóriðjustefnan:

Djöfulgangur sumra gegn náttúru Íslands, sem vilja láta ríkið sjá um að skapa atvinnu á örfáum stöðum á landinu með gríðarlegri raforkunotkun stóriðju, þegar einkafyrirtæki hafa með margfalt minni tilkostnaði skapað miklu meiri atvinnu og útflutningsverðmæti með til að mynda ferðaþjónustu í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Hernaðurinn gegn höfuðborgarsvæðinu:

Djöfulgangur sumra á landsbyggðinni, sem halda því fram að fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins skapi hér flest störf og mestu tekjurnar og greiði þar að auki mestu skattana, sem er í engu samræmi við staðreyndir.

Hernaðurinn gegn Reykjavík:

Djöfulgangur sumra gegn því að flytja Reykjavíkurflugvöll af Vatnsmýrarsvæðinu og virða þannig í engu meirihlutaeign Reykjavíkurborgar og einkaaðila á svæðinu.

Hernaðurinn gegn 101 Reykjavík:

Djöfulgangur sumra sem fullyrða að íbúar þessa svæðis geri ekkert annað en að fá sér kaffi á kaffihúsum, þegar það er staðreynd að í engu öðru póstnúmeri á landinu eru skapaðar meiri gjaldeyristekjur.

Hernaðurinn gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu:

Djöfulgangur sumra gegn því að Ísland geri samning um aðild landsins að Evrópusambandinu, sem kosið verði um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hernaðurinn gegn nýrri stjórnarskrá:

Djöfulgangur sumra gegn því að stjórnarskrá landsins verði breytt til að auka hér lýðræði.

Enginn Pírati hefur svo ég viti tekið nokkurn þátt í einhverjum af þessum djöfulgangi.

Þorsteinn Briem, 21.3.2015 kl. 15:35

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október 2012 er enn í fullu gildi.

"11. gr. Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni."

Sem sagt ekki meirihluta þeirra sem eru á kjörskrá hverju sinni.

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010


Já sögðu 48 og enginn sagði nei

Þorsteinn Briem, 21.3.2015 kl. 15:44

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012:

1.
Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já sögðu 67,5%.


2.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Já sögðu 82,9%.


3.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Já sögðu 57,1%.


4.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Já sögðu 78,4%.


5.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Já sögðu 66,5%.


6.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já sögðu 73,3%.

Þorsteinn Briem, 21.3.2015 kl. 15:46

7 identicon

Voðalega margir virðast misskilja Pírata - það nýjasta, í kjölfar fylgist í skoðanakönnunum, er að vega að "hæfileikum og reynslu" Pírata.

Píratar eru fjölbreyttur hópur sem býr yfir margs konar hæfileikum. Hvað varðar reynsluleysi þá lítum við á það sem styrk þegar kemur að því hvernig stjórnmál virka - við höfum nefnilega engan áhuga á því að verða snillingar í stjórnmálum eins og venjulega. Við erum að reyna að breyta því hvernig stjórnmálin virka - aðallega með því að leggja áherslu á aukinn þátt lýðræðis.

Þar kemur að næsta hlutanum, "reynslu". Þegar við köllum til reynslu samfélagsins í ákvarðanatöku þá skiptir okkar _eigin_ sérfræðiþekking í því máli minna. Það sem skiptir máli er að tryggja að upplýsingar liggi fyrir og ferlið sé ekki spillt. Þar eru Píratar með fullt af reynslu og hæfileikum. Píratar hafa lifað og hrærst í umhverfi þar sem stöðugt er verið að reyna að afvegleiða umræðuna og dreifa röngum upplýsingum. Það á ekki að vera verk okkar að segja til um allt, við viljum að löggjafinn og framkvæmdin séu þjónustufyrirbæri fyrir samfélagið. Löggjafaþjónusta og framkvæmdaþjónusta. 

Því er nær að spyrja _hina_ flokkana, hvaða reynslu hafa þeir í því? Þeirra reynsla byggir á gamalli stjórnmálahefð, hvernig er hægt að ætlast til þess að þeir geti breytt einhverju þar? Markmið Pírata er að gera alla aðra flokka að Pírataflokkum - með áherslu á borgararéttindi, lýðræði og opna stjórnsýslu. Þar eru Píratar sérfræðingar, ekki hinir (almennt séð)

Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 16:12

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hilmar.

Málið er reyndar að píratar þykjast ekki og hafa aldrei þóst vera neinir "bjargvættir" enda er það fyrst og fremst á færi hvers og eins að bjarga sjálfum sér. Píratar hafa hinsvegar ýmis stefnumál og hugmyndir um hvernig eigi standa að stjórnmálum, og annaðhvort styður fólk þær eða ekki.

Hvað varðar meint reynsluleysi, þá er það nú frekar hæpin aðdróttun. Hvaða reynslu hafði til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir af því að vera forsætisráðherra áður en hún varð það? Hvaða reynslu hafði Brynjar Níelsson af því að vera þingmaður áður en hann varð það? Svarið er það sama í báðum tilvikum: enga, og það sama má segja um alla sem koma nýir að slíkum störfum. Tek það fram að þessi tvö eru aðeins nefnd hér í dæmaskyni.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2015 kl. 16:19

9 identicon

Geta Píratar svarað einföldum spurningum

Vilja Píratar ganga í ESB - já eða nei

Grímur (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 16:26

10 identicon

Grímur, ESB er ekki mál málanna í dag og fyrr eða seinna fær þjóðin að tjá sig um málið. En af hverju ertu ekki sjálfum þér samkvæmur og spyrð; vildu Píratar borga Iceave?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 16:34

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Grímur.

Stjórnmálaflokkar geta ekki gengið í ESB, það geta aðeins þjóðríki.

Stefna pírata er að þjóðin eigi að ráða slíku en ekki stjórnmálaflokkar.

Aðrir stjórnmálaflokkar hafa viljað taka ráðin af þjóðinni um þetta og þröngva sinni eigin afstöðu upp á hana, en það vilja píratar ekki.

Spurningin þín er þar af leiðandi röng og henni beint að röngum aðila.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2015 kl. 17:44

12 identicon

@Grímur: Stefnan í ESB er hér: http://www.piratar.is/stefnumal/evropusambandid/

Þetta er stefnan sem allir flokkar ættu að vera með. Þjóðin ræður hvort gengið er inn eða ekki og svo er frekar stefnan þeirra að þeir muni ekki styðja þetta nema með hinum og þessum skilyrðum sem þeim skiptir máli. 

Þeir flokkar þar sem að jafn flókið mál og ESB er leyst með einföldu "já" eða "nei" án frekari útskýringar eru í besta lagi grunnhyggnir og að súna af sér einfeldni. Í versta falli með annalega tilgang.

Jón Grétar (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 17:47

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Haukur.

Í fyrsta lagi voru píratar ekki til sem stjórnmálahreyfing hér á landi á tíma Icesave málsins. Í öðru lagi var knúin fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið og eftir niðurstöðu hennar var farið sem er í fullkomnu samræmi við stefnu pírata. Í þriðja lagi byggist stefna pírata á því að standa vörð um borgaraleg réttindi eins og þau eru skilgreind að lögum, og þar sem það var einfaldlega ólöglegt að láta skattgreiðendur gangast í ábyrgð fyrir innstæðutryggingum hefði afstaða pírata til þess aldrei getað orðið önnur en það sem lögin segja um það. Sumir aðrir flokkar tóku afstöðu í málinu sem fór ekki aðeins gegn þeirra eigin stefnu heldur einnig gegn lögum og rétti. Það gætu píratar hinsvegar aldrei gert því þá væru þeir ekki píratar.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2015 kl. 17:56

14 identicon

Það má vel vera að Píratar hafi ekki boðað sig sem "bjargvætti", Guðmundur, en þeir sannarlega boða sig sem baráttuafl "fyrir lýðræði og gegn spillingu".
Fremur vel þekkt konsept, hefðbundin útgerð á óánægju, án þess að segja okkur kjósendum, hvar þessi spilling nákvæmlega er, eða hvaða frelsi það er sem okkur vanhagar um.

Það eru rúm tvö ár til kosninga, og mér segir svo hugur að kjósendur verði á endanum þreyttir á síbylju, sem er án innihalds.
Stefnuskráin er almennt orðað kjaftæði, sem fer ábyggilega vel í einhverja sem nenna ekki að rukka um nákvæmni.

"Við viljum að þú ráðir" yfirskriftin er auðvitað dæmigerð og meðvituð framsetning frá flokki sem ætlar ekki að stuða neinn, og ætlar ekki að opinbera raunverulegar skoðanir eða stefnu flokksins. Þetta er útgáfa af efnahagsstefnu Samfylkingar, sem ætlaði að redda öllu með aðlögun að ESB, og hafði ekkert plan B ef það tækist ekki. Píratar ætla sem sagt að láta allt fara í þjóðaratkvæði. Það yrði afar áhugavert, eða ekki.
Hvað myndu Píratar segja um atkvæðagreiðslu sem hljómar svo: "Viltu hætta að borga skatta?"

Hilmar (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 18:05

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Grétar.

Ég er ekki sammála því að þetta sé neitt flókið mál.

Stjórnarskráin bannar ósköp einfaldlega aðild að ESB.

Þar með ætti málið að vera útrætt. Flóknara er það ekki.

Vilji menn hinsvegar taka afstöðu til þess hvort ráðlegt sé að umturna allri stjórnskipan Íslands út af þessu, þá væri kannski ráð að byrja fyrst á því að lesa einfaldlega aðildarsamninginn og taka svo afstöðu út frá því. Ekkert er því til fyrirstöðu að gera það nú þegar og það þarf enginn að kvarta yfir að einhverjir stjórnmálamenn standi í vegi fyrir því. Utanríkisráðherra hefur í það minnsta ekki látið fjarlægja skjalið af vefsíðu ráðuneytisins:

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/PDF/Lissabon-sattmali-2.-utgafa-juni-2012.pdf

Við þurfum ekkert að hlusta á rangtúlkanir stjórnmálamanna á samningum þegar við getum bara lesið þá sjálf. Þar að auki á maður aldrei að samþykkja neitt ólesið og ekki heldur samninga sem maður skilur ekki hvað þýða.

Við komumst að réttri niðurstöðu í Icesave málinu með því einfaldlega að lesa samningana og reglurnar sem bönnuðu þá. Það hefðum við aldrei getað með því að hlusta á ímyndanir ólesinna stjórnmálamanna um merkingu þeirra.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2015 kl. 18:17

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hilmar.

Þér er velkomið að hafa þín eigin skoðun á þessari stefnu. Ef þú ert til dæmis fylgjandi spillingu og andvígur lýðræði, þá er fullkomlega eðlilegt að hún höfði alls ekki til þín.

Ástæða þess að ekki kemur fram í stefnuskrá hvar sú spilling er, þá er það einfaldlega vegna þess að hún er svo víða í íslensku stjórnkerfi að maður gæti í raun bent hvert sem er og haft rétt fyrir sér. Auk þess er varla pláss til að telja þá staði alla upp í stefnuskrá eins stjórnmálaflokks.

Svarið við því er þar af leiðandi: *.* (alvöru píratar vita hvað það þýðir)

Svo virðist þú algjörlega misskilja þetta þar sem þú heldur því fram að stefnan gangi einhvernveginn út á að stuða engan með því að opinbera ekki afstöðu flokksins. Sú afstaða að "þú eigir að ráða" er nákvæmlega afstaða pírata í flestum mikilvægum málum og hún er fullkomlega opinber á vef pírata, það þarf einhverja alvarlega tregðu til að komast að annarri niðurstöðu. Svo spyr ég á móti: Á það frekar að vera hlutverk stjórnmálaflokka að stuða fólk með stefnu sinni? Hvaða flokkur hefur það eiginlega á sinni stefnuskrá?

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2015 kl. 18:29

17 identicon

Sjáðu til Guðmundur, það er nákvæmlega þetta sem maður meinar með almennu kjaftæði:
"Ef þú ert til dæmis fylgjandi spillingu og andvígur lýðræði, þá er fullkomlega eðlilegt að hún höfði alls ekki til þín."
"Ef þú ert ekki fylgjandi okkur fallega og góða fólkinu, þá ertu spillt ómenni sem er andvígt frelsi"

Píratar eru ekki fyrsta stjórnmálaaflið að gera út á útópískar hugmyndar, og steingleyma að útskýra hvernig þeir ætla að útfæra útópíuna. Sem dæmi, þá benti ég þér á dæmi um þjóðaratkvæði um skattheimtu. Þú svaraðir því ekki. Af augljósum ástæðum, þú getur það ekki. Af þeirri einföldu ástæðu, að þjóðaratkvæði um skattheimtu er óframkvæmanleg, fáir vilja borga skatta en allir vilja þjónustu. Það verður tiltölulega einfalt að ná fram atkvæðagreiðslu sem fela í sér útgjöld, en ólíklegt að því fylgi skynsamleg skattheimtuleið. Kalifornía er frábært dæmi um þetta.

Annað dæmi getur verið þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi "samningaviðræður um inngöngu í ESB". Hvernig er hægt að kjósa um ferli sem gerir bara ráð fyrir aðlögunum að bandalagi, með upptöku allra laga og reglna sem bandalaginu fylgir?
Vita Píratar ekki betur, eða eru þeir fylgjandi aðlögun að ESB, en eru svo óheiðarlegir að þeir horfa vísvitandi framhjá þeirri staðreynd?

Spurning um framhaldið hjá Pírötum er fólgin í því, hvort þeim tekst, eins og þú reynir, að forðast efnislega umræðu og drekkja henni í innihaldslausu kjaftæði.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 20:02

18 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Piratar eru táknmynd óreiðu stjórnleysis,og rugls sem er á höfuðborgarsvæðinu.Efnahagur höfuðborgarsvæðisins er táknmynd þeirar starfsemi sem leiðir til fátæktar.Innnflutnings og þjónustustarfsemi,láglaunastörf við ferðamensku,fjármálabrask sem engin innistæða er fyrir,og ríkiststofnanir sem eru reknar fyrir skattfé.Engin útflutningsiðnsður að heitið getur.Liatafólki er haldið' uppi af ríkinu.Húsnæðisleysi, rándýrar byggingalóðir sem leiða til húsnæðisverðs ssem enginn getur borgað.Ríkisstarfsmenn,leikarar,fólk með háskólapróf á leið í verkfall.Píratarnir eru um allt höfuðborgarsæðið í stjórnunarstörfum hjá ríki og bæ á höfuðborgarsvæðinu nú þegar.Fátækt og eymd býður eftir Reykjavík.

Sigurgeir Jónsson, 21.3.2015 kl. 21:02

19 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta með ,,pírata og höfuðborgarsvæðið ásamt óreiðu", - að þá vekur reyndar athygli í könnun Fréttablaðsins, að Píratar eru að fá menn inn útá landi.  Man það ekki alveg nákvæmlega, en sumsstaðar allt uppí 2 og jafnvel 3 menn úti á landi.

Á móti er Framsókn að tapa um 2 útá landi þar sem þeir fengu yfirleitt 4.

Þetta er soldið merkilegt, finnst mér.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2015 kl. 22:20

20 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Píratar eru að sækja sig en hverju myndi það breyta ef þeir næðu hreinum meirihluta í næstu þingkosningum?
Haldið þið að skattheimtan verði lögð niður, ríkisþjónustan breyttist frá því sem hún er nú - eða að yfirhöfuð nokkur tæki eftir því að nýir stjórnarherrar hefðu tekið við? 
Ó,nei - kerfið er nefnilega orðið sjálfbært!

Kolbrún Hilmars, 21.3.2015 kl. 23:10

21 identicon

Fyrst minnst var á Reykjavík hér að framan, má til gamans geta að Píratar starfa í meirihluta. Þeim meirihluta sem ætlar að sniðganga meirihlta landsmanna með því að loka Reykjarvíkurflugvelli. Og það þó andstæðingar lokunar hafi safnað 70.000 undirskriftum gegn lokuninni.

Píratar eru helv.... hræsnarar. 

Hilmar (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 23:37

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það verður eiginlega bara að koma í ljós hvað píratar gera ef þeir fá 20-30% fylgi í næstu kosningum.  Við værum þá náttúrulega að sjá fjöldan allan af nýjum andlitum á þingi.  Kannski fara þeir í samstarf við sjalla.

Að öðru leiti er eitt sem gæti skipt máli eða haft mikil áhrif í framtíðinni.

Það er atriðið með þjóðaratkvæðagreiðslur.  Erfitt er að sjá pírata í ríkisstórn nemaþeir fái því stefnumáli sínu framgengt eða lögfest.

En burtséð frá því hvort manni finnist það að hægt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna um öll mál sé æskilegt eður ei, - þá geta sjallar og framsóknarmenn kennt sjálfum sér soldið um það hve þessi krafa er sterk útí þjóðfélaginu.  Framsjallar hafa ítrekað gefið þjóðaratkvæðagreiðslum undir fótinn og töluðu um sem það væri sjálfsagt þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.  Ekkert nema sjálfsagt, sögðu sjallar.  Við sjallar heimtum þjóðaratkvæðagreiðslu!  Bættu svo framsóknarmenn við.

Nú, svo má nefna að eitt megin kosningaloforð bæði sjalla og framsóknarmanna var að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og Aðildarviðræður.  Sviku það allt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2015 kl. 23:52

23 identicon

Sæll Ómar.

Þó Píratar hafi verið ferskt afl og óvenjulegt
í fyrstu þá hefur það mikið til endað þar.

Tillögur og málflutningur einkennist af draumórum
og óskhyggju, ljóðalestri og einhverri sjálfsvorkunn sem
erfitt er að henda reiður á og nú undir það síðasta hvað
mest af geðvonsku.

Píratar hafa haft 2 ár til að læra á þetta kerfi en þess
sér ekki stað að þeir hafi minnstu hugmynd um hvernig
þeir ætla sér að koma tillögum sínum í þann faveg að
aðrir flokkar geti sameinast um þær.

Einhverjir snjallir þarna úti ættu að grípa tækifærið meðan
stjórnmálin eru í sögulegu háloftaklifri og stofna flokk
sem vel mætti heita Bandalag jafnaðarmanna því ákall virðist
vera uppi um það að einhver flokkur geti staðið uppúr
meðalmennskunni og tengslum inní banka eða lífeyrissjóði,
hagnað af gjaldeyrishöftum eða að vera á klafa einhvers.

Ég held að aldrei hafi krafan verið hærri um eitthvert
afl sem raunverulega býr yfir getu, dugnaði og hugviti
til að gera eitthvað fyrir fólkið sjálft, þá sem búa í
þessu landi og þeir hinir sömu sem hafa tapað tiltrú á
flestum stofnunum því þær brugðust er á reyndi og stjórnvöld
gripu til aðgerða í hruninu varðandi innheimtu sem litlar líkur
eru á að nokkrum líði úr minni gagnvart þeim eða þeim öflum
sem þar voru á ferð, - hvílík andstyggð.

Bandalag jafnaðarmann sem ryður sér brautina til forystu í íslenskum 
stjórnmkálum og sameinar flokka og fylkingar frá hægri og vinstri
í einn farveg kann að vera svarið sem venjulegt fólk hefur leitað eftir.

Húsari. (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 23:59

24 identicon

Sjáðu til Hilmar, skattaspurningin er mjög einföld. Henni fylgir óhjákvæmilega útskýringin: "Ef þú vilt að allir hætti að borga skatta þá þýðir það að þú þarft að borga sérstaklega fyrir skóla, heilbrigðiskerfi, í tollahlið á vegum, ..."

Þannig að nei, þetta er ekkert voðalega flókin spurning. Það sem er flóknara eru spurningar um mannréttindabrot. Það má aldrei kjósa um brot á mannréttindum eins og er til dæmis gert í Sviss. Tökum trúmál sem dæmi. Það mætti aldrei kjósa um hvort reisa mætti Ásatrúarhof eða ekki, rétt spurning vegna mannréttinda væri hvort það mætti reisa einhverja trúarbyggingu - jafnt skal yfir alla ganga hvað mannréttindi varðar.

Ég veit að margt sem Píratar leggja til er öðruvísi - hugsa sér, að leyfa þjóðinni að ráða, að leyfa fólkinu í landinu að koma að ákvarðanatökunni í staðinn fyrir að afsala sér lýðræðislegu valdi til fjögurra ára í senn. 

Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.3.2015 kl. 08:06

25 identicon

Þér hefur ábyggilega fundist þetta frábært svar hjá þér, Björn Leví.
En það er það ekki.

Þú ert nefnilega byrjaður á því sem óhjákvæmilega gerist, að einhver ætlar sér að ákveða hvað má og hvað ekki. Þú t.d. boðar að við megum ekki það sem Svisslendingar mega.
Það kemur svo sem ekkert á óvart, því fulltrúi Pírata í Reyjavík sér enga ástæðu til að leyfa almenningi að eiga síðasta orðið um Reykjavíkurflugvöll.

Hitt er svo, að finnist ykkur vera spilling á Íslandi, then you have seen nothing yet, því lobbíisminn og auglýsingamenskan sem fylgir svona atkvæðagreiðslum verður óbærileg, og það er útilokað annað, en að sá sem er fjársterkastur og hefur bestu áróðursmaskínuna fer með sigur af hólmi.

Annars, ef þetta er ykkar stefna, þá er sjálfsögð krafa að þið gefið það upp nákvæmlega, hvað það er sem við megum kjósa um, og hvað ekki.

Hilmar (IP-tala skráð) 22.3.2015 kl. 10:47

26 identicon

Það má kjósa um allt. Það skiptir hins vegar öllu máli að framsetningin sé ekki leiðandi eða villandi. Það ekki lítil vísindi á bak við það bæði hvernig er hægt að nota atkkvæðagreiðslur sem lýðræðistól og sem lýðskrum.

Ef þú vilt kjósa um mannréttindi, til dæmis, þá verður þú að fara í ferlið sem breytir þvi hvernig þau mannréttindi eru skilgreind. Ekki um það hvort einhverjir séu undanskildir réttindunum.

Stutt svar; það má kjósa um allt. Langt svar; það er ekki svo auðvelt.

Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.3.2015 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband