"Hverju reiddust goðin...?

Þegar heiðnir menn sögðu á Alþingi við kristnitökuna árið 1000 að goðin væru reið, því að hraun í gosi á Hellisheiði stefndi niður bæ eins hálfkristna goðans að Hjalla í Ölfusi, svaraði Snorri goði: "Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?"

Á svipaðan hátt mætti spyrja nú: Hverju reiddust forráðamenn annars af tveimur fyrirtækjum sem var búið að leggja fé í að fá leyfi fyrir rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu en hætti nýlega við?

Varla Samfylkingunni, löngu fyrir landsfund hennar.

Og hverju reiddust kínversku fyrirtækin sem voru búin að tilkynna um stórfellda olíuleit við Grænland en hafa nú hætt við og það svo rösklega að Grænlendingar hafa afskrifað olíuleit í sinni lögsögu?

Varla gátu þeir reiðst Samfylkingunni þá?

Menn tala um óskiljanlega stefnubreytingu hjá Sf.

En það er ekkert óskiljanlegt við hana.

Allir íslensku stjórmálaflokkarnir höfðu í meira en fimmtán ár fylgt fram stefnu í olíumálum Íslendinga án þess að nokkur bitastæð umræða færi fram um það innan flokkanna eða almennt í þjóðfélaginum.

Það átti að skjóta fyrst og spyrja helst aldrei.

Í fyrra gerðist hins vegar það að Samfylkingin stóð fyrir vönduðu málþingi um olíumálin frá sem flestum sjónarhólum. Þetta var fyrsta slíka málþingið af þessu tagi um þetta víðfeðma efni, en fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á því. 

Á málþinginu héldu sérfræðingar á ýmsum sviðum fróðleg erindi, sem opnuðu alveg nýja heildarsýn á málið þótt sjónarhólarnir væru mismunandi.

Einn sérfræðinganna var að vísu enn greinilega áhugasamur um olíufundi og sagði til dæmis, að því miður hefði engar olíulindir fundist á Skjálfandaflóa!

Ég hef áður rakið hér á síðunni helstu rökin fyrir því að taka strax breytta afstöðu til framtíðar varðandi þá draumsýn að Ísland verði olíuríki með tilheyrandi "heimshöfn" í Finnafirði, jarðgöngum og hraðbrautum um þvert hálendið til Reykjavíkur og þar með ríkasta land í heimi.

Staðreyndirnar er ljósar:

Fyrirtækið sem hætti við á Drekasvæðinu hefur líklega gert það vegna þess að vinnslukostnaður á Drekasvæðinu yrði minnst þrisvar sinnum meiri en í Arabalöndunum og langt fyrir ofan söluverðið.

Sádi-Arabar stjórna sem fyrr ferðinni í olíumálum heimsins og fyrir liggur að þeir eiga enn í jörðu upp undir 20 ára olíubirgðir og nýtanlegar birgðir í heiminum eru heldur meiri. 

Þegar þessar birgðir verða búnar lýkur olíuöldinni óhjákvæmilega og menn neyðast til orkuskipta í tæka tíð. Sádarnir hafa unnið góða heimavinnu í því máli og stjórna nú orkuverðinu á þann hátt að þeir verði í lok olíualdar nákvæmlega á þeim punkti að hafa notað olíubirgðir sínar þegar aðrir orkugjafar taka við. 

Aðrir orkugjafar eru á vaxandi siglingu um þessar mundir með nýrri tækni varðandi nýtingu sólarorku og fleiri endurnýjanlegra orkugjafa auk rafvæðingar samgöngutækja.

Íslendingar sem matvælaframleiðsluþjóð og með viðskiptavild vegna meintrar forystu í nýtingu hreinna og endurnýjalegra orkugjafa, yrðu í hróplegri mótsögn við sjálfa sig ef þeir stefndu einbeittir að því að leggja fram meiri skerf á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð til þess að framleiða óendurnýjanlega orku með stórfelldum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og taka um leið þá áhættu sem fylgir olíuvinnslu af margfalt meira dýpi en áður hefur þekkst.

Ekki hvað síst yrði þetta slæmt fyrir okkur vegna nýrra skuldbindinga okkar í loftslagsmálum.

Það var fullkomlega rökrétt ályktun hjá Sf að móta framtíðarstefnu í samræmi við þetta.

Heyrst hafa raddir um það að það sé skaðlegt að breyta um stefnu og upplýsa um stöðu mála vegna þess að það fæli þá, sem þegar hafa hafið samstarf við okkur, frá því að skipta við okkur.

Við eigum sem sagt að þegja um það sem við teljum okkur vita sannast og réttast og halda áfram eins og ekkert nýtt hafi komið fram. Stunda áfram áunna fáfræði. 

En er ekki það einkennileg mótsögn að halda því fram að það réttasta sem maður geri sé að halda fram því sem maður telji rangt og reyni að koma í veg fyrir að aðrir viti að það sé rangt?    

Væri það ekki eitthvað sem mætti "furða sig á"?


mbl.is Furðar sig á stefnubreytingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þið í Samfylkingunni viljið kasta frá ykkur mia.kr. tekjumöguleikum framtíðarinnar, þá verðið þið að hætta að væla yfir niðurskurðum í rekstri ríkisins, því ekki veit ég hvar þið ætlið að afla tekna fyrir komandi kynslóðir.
Það má ekki virkja meira því þá hljóðið þið eins og stungnir grísir, svo orkuöflun á þeim sviðum er útilokuð fyrir frekari atvinnuuppbyggingu.

Nei, það á allt að gerast á Höfuðborgarsvæðinu sem á að vera hátæknivætt svæði með öll heimsins gæði, á meðan landsbyggðin á að vera einn allsherjar þjóðgarður og útivistarsvæði sem einungis er opið 3-4 mánuði á ári.

Að auki eiga ráðstefnugestir og ferðamanna einungis að koma til Reykjavíkur og nágrennis þannig að þetta landssvæði nýtur ein afrakstur aukins ferðamannstraums.

Þetta er nú öll jafnaðarmennskan hjá Samfylkingunni.

Ari Austmann (IP-tala skráð) 29.3.2015 kl. 15:20

2 identicon

Ps. Svo vælið þið alltaf um að allt sé svo gott í Noregi og að þeir eigi svo mikinn pening að Íslendingar flýji peningaleysis hér á landi þangað.

En af hverju eiga norðmenn svona mikinn pening?
Svar: Það er af því að þeir eru svo ríkir.

Og af hverju eru norðmenn svona ríkir?
Svar: Það er af þvi að þeir vinna svo mikla olíu, auk þess hafa þeir verið duglegir að virkja sín fallvötn til orkuöflunar, nokkuð sem þú Ómar og fleiri gervi-umhverissinnar eru svo mikð á móti.

Ari Austmann (IP-tala skráð) 29.3.2015 kl. 15:23

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jafnvel þótt sá aðilinn, sem ekki hefur enn skilað leyfi sínu til rannsókna og vinnslu , haldi sínu striki, er það í fyrsta lagi eftir 15 ár eða eftir arið 2030 sem olíuvinnsla gæti hafist á Drekasvæðinu ef allt gengur upp varðandi það sem margir telja nú að muni ekki takast.

Það verður ekki dælt inn peningu í ríkssjóð á meðan engin olía er unnin og engar rannsóknir að neinu marki hafnar.  

Grænlendingar eru þegar búnir að afskrifa olíugróðadrauma sína og snúa sér nú að raunhæfum viðfangsefnum.

Þess má síðan geta að Norðmenn eiga jafnmikið magn af vatnsorku óvirkjaða og Íslendingar og forsætisráðherra þeirra lýsti því yfir fyrir 13 árum að tími stórra vatnsaflsvirkjana í Noregi væri liðinn og engar slíkar yrðu gerðar þaðan í frá.

Við það hafa þeir staðið og til dæmis ekki snert á stórbrotinni áætlun frá því fyrir hálfri öld um að virkja allt vatnsafl á norska hálendinu á svipaðan hátt og Íslendingar réðust í með Kárahnjúkavirkjun.

Er þó norska vatnsaflið tært og orkan endurnýjanleg, en Hálslón mun hins vegar fyllast upp af drullu með tímanum og virkjun verða ónýt.  

Ómar Ragnarsson, 29.3.2015 kl. 19:11

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Norðmenn fara að virkja þegar olían verður búin.Og hún klárast.Um það eru flestir sammála.Og hún verður notuð þar til hún klárast.En áður en hún verður búin verður unnin olia á heimsskautasæðunum.Fáir efast um það.Allir jöklar á Íslandi verða bráðnaðir efir 150-200 ár.Engu skiptir þá þótt Hálslón verði orðið fullt og jafnvel fyrr,því virkjunin verður aflögð þegar lítið vatn verður.Og hitinn verður það mikill á Kárahnjúkum að þar verður eekkert fok, állt grænt.

Sigurgeir Jónsson, 29.3.2015 kl. 20:46

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aukin lífsgæði þýða ekki sjálfkrafa meiri mengun, því að sjálfsögðu er hægt að öðlast aukin lífsgæði án aukinnar mengunar í heiminum.

Líf og heilsa og þar af leiðandi sem minnst mengun eru alls staðar í heiminum mestu lífsgæðin.

Og að sjálfsögðu er hægt að auka hagvöxt án aukinnar mengunar.

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 20:55

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."

Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007


Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 20:56

11 identicon

Ómar segir að búið sé sð virkja allt vatnsafl á hálendinu með Kárahnjúkavirkjun.

Þetta er ekki satt hjá þér Ómar. Það er nóg eftir af vatnsafli á hálendinu þrátt fyrir Kárahnjúka. Allt þetta óvirkjaða vatnsafl rennur óbeislað til sjávar án þess að skila verðmætum. Sem sagt verðmæti sem fara forgörðum.

Er annars eitthvað betra að láta hundruði þúsunda ferðamenna traðka niður hálendið og það líka ókeypis?

Ari Austmann (IP-tala skráð) 29.3.2015 kl. 23:51

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sínum heimabæ en utan hans, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.


Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.

Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 23:54

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012 og ekki þarf nema örlítið brot af þeirri upphæð til að stækka hér bílastæði, bæta salernisaðstöðu, leggja nýja göngustíga og viðhalda þeim gömlu.

Og íslenska ríkið fær stóran hlut af þeim tekjum sem skatt þessara fyrirtækja.

Þar af leiðandi er engin ástæða til að leggja hér á Íslandi sérstakan skatt á erlenda ferðamenn vegna einhverra göngustíga.

Íslenskir og erlendir ferðamenn geta að sjálfsögðu greitt fyrir afnot af salernum og bæði íslenskir og erlendir ferðamenn nota hér göngustíga.

Og að sjálfsögðu greiða ferðamenn fyrir leiðsögn og gistingu.

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 23:55

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.1.2014:

"Vinna við landvörslu í sumar minnkar um helming frá því í fyrra vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.

Landverðir starfa í íslenskum þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum á sumrin.

Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar og fræðslu, gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt, hafa eftirlit með umferð og umgengni og sjá um framkvæmdir eins og að leggja göngustíga og halda tjaldsvæðum við."

Vinna við landvörslu minnkar um helming frá því í fyrra vegna minni fjárframlaga

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 23:56

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.3.2014:

"Skoðanakönnun Capacent Gallup hefur sýnt fram á  víðtækan stuðning við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Um 56% aðspurðra voru því hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu.

Hugmyndin átti vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka
, meðal allra aldurshópa og um allt land."

Þorsteinn Briem, 29.3.2015 kl. 23:57

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagkerfi margra vestrænna landa byggist nú á þjónustu og samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veittu Bandaríkin mesta þjónustu árið 2005.

Næstmesta veittu Japan og Þýskaland en þjónusta myndaði þá 78,5% hagkerfis Bandaríkjanna."

En það skilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn engan veginn.

Þjónusta
- Vörur

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:01

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 185.700 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaðnum hér á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Og álverin hér á Íslandi eru ekki að fara úr landi, enda orkuverðið lágt til stóriðju.

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:03

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.

Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:04

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferðaþjónustan hefur vaxið mikið hér á Íslandi undanfarin ár meðal annars vegna þess að gengi íslensku krónunnar var alltof hátt og ekki innistæða fyrir þessu háa gengi.

23.3.2015:

"Árið 2001 spáði Vil­hjálm­ur Bjarna­son þingmaður og þáver­andi sér­fræðing­ur hjá Þjóðhags­stofn­un því að hingað til lands myndi koma um ein millj­ón ferðamanna árið 2016 ... en tal­an fékkst meðal annars með því að fram­reikna þá fjölg­un sem varð á ferðamönn­um milli ár­anna 1990 og 2000."

Spá­in reynd­ist nærri lagi

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:05

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.3.2015:

"Raforkuframleiðsla hér á landi hefur nærri tvöfaldast á mann undanfarinn áratug.


Norðmenn eru ekki nema rúmir hálfdrættingar í raforkuframleiðslu á mann."

"Orkustofnun hefur tekið saman heildarraforkuframleiðsluna í fyrra og nam hún 18.120 gígavattstundum."

"Raforkuframleiðsla á hvern íbúa nam tæpum 56 megavattstundum í fyrra.

Árið 2004 nam hún tæpum 30 megavattstundum og aukningin nemur 90 prósentum.

Magnús Júlíusson verkfræðingur á Orkustofnun segir að Norðmenn komi næstir á eftir okkur en þeir hafi um 30 megavattsstundir á íbúa.

Stöðug aukning hefur verið síðustu áratugi. Mesta stökkið varð þegar Kárahnjúkavirkjun var tekin í gagnið í nóvemberlok 2007.

Heimilin nota aðeins fimm af hundraði rafmagnsins en stóriðjan 80 af hundraði."

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:06

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samtök iðnaðarins:

"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990-2004 sköpuðust vegna hátækni.

Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.

Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun."

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:07

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar eru auk CCP og mikillar ferðaþjónustu til að mynda stór og fjölbreytt framleiðslu- og útflutningsfyrirtæki, í ullarvörum, fiskvinnslu, lýsi, veiðarfæragerð, stoðtækjum, hátækni í matvælaframleiðslu, lyfjum og áli, Ístex (áður Álafoss) í Mosfellsbæ, Grandi hf., Lýsi hf., Hampiðjan og Össur hf. í Reykjavík, Marel í Garðabæ, Actavis og álverið í Hafnarfirði.

Og verið er að reisa hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem um 200 manns munu starfa.

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:07

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gapa nú mjög um hagvöxt hér á Íslandi síðastliðin ár en útflutningur á þjónustu hefur skapað þann hagvöxt.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekkert gert til að skapa þennan hagvöxt, heldur þvert á móti gapað af mikilli lítilsvirðingu um ferðaþjónustu hér á Íslandi.

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 00:13

26 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held því ekki fram að búið sé að virkja á öllu hálendinu þótt ég bendi á að Kárahnjúkavirkjun, sem er um helmingurinn af svonefndri LSD áætlun um risastóra virkjun á norðausturhálendinu, sé verkfræðilega af svipuðum toga og samsvarandi LSD virkjun Norðamanna var á sjöunda áratugnum, en þeir féllu frá og skammast sín fyrir síðan. 

Ómar Ragnarsson, 30.3.2015 kl. 01:13

27 identicon

Er þessi samþykkt bara ekki til að hygla einum af flokksbroddum Samfylkingarinanr, Dofra Hermannssyni, sem er framkvæmdastjóri og einn af aðaleigendum fyrirtækisins sem framleiðir vistvænt eldsneyti?

Hér er því augljóst hagsmunapot eða hvað?

Munum, að Samfylkingin sér um sína.

Ari Austmann (IP-tala skráð) 30.3.2015 kl. 20:47

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

Líttu nú á allar staðreyndirnar hér að ofan, Ari Austmann.

Þorsteinn Briem, 30.3.2015 kl. 21:04

29 identicon

Þetta vinstra lið kunna ekkert nema að vera í vösum hjá skattborgurum, skapa verðmæti er að vefjast svolítið fyrir þeim. Allt þetta vatn sem rennur til sjávar engum tll góðs. Nýta þetta meðan býðst að sjálfsögðu. Hvað skyldu margt vinstra fólk vera í verðmætasköpun? Öfáir, þekki þetta sjálfur af eigin raun. Flestir á spenum einhverstaðar, hjá ríki, sveitafélögum ofl verkalýðsfélögum ofl. ofl.

Komið með eitthvað nýtt, og hættið þessu væli ef þið eruð ekki sátt við virkjanir olíuleit ofl.

HH (IP-tala skráð) 31.3.2015 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband