Fólk gúglar ekki til sín lífsreynslu og þroska.

Áberandi munur er á viðhorfi fólks til aldurs hjá tækniþjóðfélögum vesturlanda og þjóðfélögum í þróunarlöndunum. 

Á vesturlöndum er einblínt á þá staðreynd að um 25 ára aldur telst líkamleg og andleg geta einstaklinga mest og fari smám saman dvínandi þar sem eftir er ævinnar.

Í austurlöndum eru reynsla og þroski hinna eldri í hávegum höfð og þeir njóta mestrar virðingar, svo að manni sýnist stundum, litaður af æskudýrkun vesturlanda, að það geti verið um of.  

Lítið dæmi um neikvæðu síbyljuna um aldurinn er sífelld endurtekning á því hve íþróttafólk er orðið gamalt strax um þrítugt. 

Sífellt er talað um Eið Smára Guðjohnsen sem "gamla manninn" og er það að vísu skiljanlegt þegar miðað er við óvenju ungan meðalaldur annarra landsliðsmanna.

En Eiður sýndi svo um munaði þegar "gamla manninum" var kippt inn í liðið hvers virði gamli maðurinn var. 

Þetta sífellda tal í neikvæðum tóni um miðaldra og gamalt fólk hefur smitandi áhrif, og eitt dæmi um það er að fólk yfir fimmtugu skuli ekki vera haft í meiri metum sem starfskraftar er raun ber vitni.

Sömuleiðis það hvernig fólk yfir sjötugu, að ekki sé nú talað um sístækkandi hluta þjóðarinnar sem er yfir áttrætt, er næstum algerlega afskrifað, til dæmis í skoðanakönnunum þar sem fólki yfir áttrætt er skipað í flokk með börnum að því leyti, að því sé ekki treyst til að hafa marktækar eða gildar skoðanir.

Á erlendum málum eru fréttir nefndar "news" eða "nyheder" sem vísar til þess að eitthvað nýtt þurfi að felast í þeim.

Því brá mér í brún að sjá hvernig reyndum frétta- og blaðamönnum var eins og sópað út af fjölmiðlunum í Hruninu.

Eitt sinn þegar ég kom á fréttastofu RUV var aðeins einn fréttamaður á vakt hjá RUV sem var eldri en fertugur.

Ef hann hefði ekki verið á vakt hefðu hinir ungu í mörgum tilfellum ekki vitað, hvort eitthvað "nýtt" eða einstakt fælist í álitaefnum dagsins.

Oft þarf að hafa hraðar hendur í frétta- og blaðamennsku og þá er ómetanlegt að reynslubolti geti lagt á það mat samstundis án þess að það þurfi að fara að gúgla út og suður.

Atvinnurekendur geta treyst því að fólk yfir fimmtugt þurfi ekki á fæðingarorlofi að halda.

Þátturinn 60 mínútur er gott dæmi um það hve mikils virði reynsla og aldur geta verið.

Ekki er annað að sjá að sjónvarpsfólkið þar sé vel við aldur, - á tímabili var sjálfur stjórnandinn kominn vel á áttræðisaldur en samt gefur þetta fólk ekkert eftir í því að leysa af hendi krefjandi og erfið verkefni í öllum heimshlutum.

Í gærkvöldi var ég að horfa á smá þátt á Youtube um Sean D. Tucker. Á flugsýningu í Oskosh í Bandaríkjunum fyrir rúmum áratug hreifst ég afar mikið af frammistöðu hans í listflugi á sýningunni.

Síðan þá hefur hann orðið enn betri ef eitthvað er og er viðurkenndur sem magnaðasti sýningarflugmaður í listflugi í heiminum. Þarf ekki annað en að sjá dæmi um það á Youtube hvernig hann stendur framar öðrum til að átta sig á snilld hans.

En samt er hann nú kominn á sjötugsaldur og er í líkamlegu formi á við fremstu íþróttamenn, eins og sést á því hvernig hann æfir stíft 340 daga á ári í líkamsræktarstöð, svo að hann er með "skorinn", vöðvastæltan og eins og tálgaðan skrokk.

Miklu skiptir að vera sem léttastur, því að hann verður að standast 9,5 líkamsþyngdir í dýfum og 7,5 líkamsþyngdir í dýfum á hvolfi. Hann æfir flugæfinga sínar líka helst daglega til þess að öðlast sem mesta reynslu og þroska.      


mbl.is Fólk um fimmtugt bestu starfskraftarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 31.3.2015 kl. 12:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 31.3.2015 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband