4.4.2015 | 00:56
Þegar íþróttaskór gátu orðið brottrekstrarsök.
"Fötin klæða manninn" var einhvern tíma sagt, og vissulega geta þau skipt miklu máli. Þegar ég byrjaði í M.R. fyrir 59 árum, kom ég á reiðhjóli í skólann og var í þykkum ullarsokkum og strigaskóm.
Það þótti varla við hæfi í þeim fína skóla.
Síðar fór ég að ganga í íþróttaskóm, af því að mér fannst þeir þægilegir.
Þegar ég hóf störf á fréttastofu Sjónvarpsins var fréttastjóranum afar annt um heiður hennar og virðingu í hvívetna. Hann las sjálfur yfir allar fréttir og gerði mjög harðar kröfur til málfars og vinnubragða. Það var góður skóli.
En honum var mikið í nöp við íþróttaskóna mína hvítu, sem stungu í stúf við skófatnað allra á þeim tíma.
Hann tók mig á teppið og gerði mér grein fyrir því, að miklu skipti í starfinu að vera ekki að óþörfu að skera sig úr í losaralegum eða glannalegum og áberandi klæðaburði, sem drægju athyglina frá aðalatriðinu: Fréttunum sjálfum og efni þeirrra.
Auk þess yrðu fréttamenn að sýna lágmarks virðuleika í klæðaburði.
Mér tókst að semja við hann um að fá mánaðar frest til að skipta um skó í vinnunni.
Vissi, að ég þyrfti að fara til útlanda í mánuðinum og notaði ferðina til að leita að og finna einlita svarta íþróttaskó.
Þetta nægði og hef ég síðan gengið í slíkum skóm, jafnt við hátíðlegustu athafnir og tækifæri og á sviði sem skemmtikraftur eða ræðumaður.
En hið skondna var, að nokkrum árum eftir að ég hafði gert þessar ráðstafanir, gerðist einhver hraðasta bylting á mörgum sviðum þjóðlífsins i kjölfar bítla- og hippatímabilsins.
Merkilegast var það að þéringar lögðust af á örfáum árum, en hitt gerðist líka að það komst í tísku að ganga á ljósum íþróttaskóm.
Var fljótlega svo komið að ég var farinn að skera mig úr með því að ganga alltaf í svörtum skóm á meðan flestir aðrir gengu í ljósum skóm, oftast íþróttaskóm.
Og góða svarta skó nota ég meira að segja að mestu í gönguferðum um allt land, líka uppi á öræfum og þykir mörgum það skrýtin sérviska.
Rekinn vegna umdeildrar peysu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.