Sama viðfangsefnið hér, í Svíþjóð og víðar.

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld voru sýndar myndir af mótmælum landsbyggðarfólks í Svíþjóð vegna síminnkandi þjónustu og hraðasta fólksflótta í Evrópu úr dreifbýli í þéttbýli, að því er talið er. 

Einkennin eru alls staðar þau sömu, fækkun banka, verslana og alls kyns stofnana og fyrirtækja á vegum einkaframtaks eða ríkis og sveitarfélaga. 

Þegar stofnanir fyrir frumþarfir fólks á barneignaaldri eru vanræktar eða lagðar niður er vegið að undirstöðum byggðar. 

Ástæðurnar fyrir hinni stórfelldu tilfærslu fólks frá dreifbýli til þéttbýlis og borga í heiminum hafa verið þær sömu í meira en hundrað ár, krafan um svonefnda hagræðingu í þágu hagvaxtar eða sem viðbrögð við efnahagsörðugleikum. 

Fyrir 100 árum átti sér til dæmis stað stórfelld tilfærsla í fiskveiðum á Íslandi, þegar verstöðvar í tugatali á annesjum og útskerjum lögðust niður með tilkomu vélbáta og togara. 

Þessi bylting var að vísu af hinu góða því að þau kjör sem menn urðu að una við í verbúðunum voru ekki mönnum bjóðandi. 

En síðustu áratugi hefur staðið yfir stórkostleg tilfærsla á fiskveiðiheimildum til fárra og stórra útgerðarfyrirtækja á kostnað smærri fyrirtækja og dreifðra byggða.

Í Hruninu töldu menn sig tilneydda til að draga saman í þjónustu víða um land og hefur lítið af því gengið til baka eftir að efnahagurinn fór að rétta við.

Ástandið væri víða enn verra ef ekki komið til hin gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar sem hefur að hluta til, eðli málsins vegna, gagnast landsbyggðinni en hvergi nærri náð að snúa straumnum við.

Það er erfitt að finna ráð til að skapa betra jafnvægi í byggðinni þegar efnahagslegir kraftar eru jafn sterkir og raun ber vitni.

En í þeim efnum verður að huga betur að þeim þáttum í velferð fólks, sem ekki er hægt að setja sömu ísköldu verðmiðana á og á það, sem skapar unaðarstundir og upplifun og reikna dæmin út frá því, auk þess sem huga verður að þeim verðmætum, sem tapast þegar mannvirki eru skilin eftir mannlaus þegar byggðir fara í eyði eða hrakar hratt.  

  


mbl.is Nauðsynlegt að hafa verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

7.9.2005:

"Kvótaverð hefur hækkað mjög hratt á undanförnum mánuðum.

Í mars síðastliðnum var verðið 1.175 krónur á hvert þorskkíló [af svokölluðum varanlegum aflakvóta] en það er núna komið upp í 1.500 krónur, sem er geysilega hátt í sögulegu ljósi.

Þessi hækkun rímar ágætlega við þróun á öðrum eignamörkuðum á Íslandi sem hafa hækkað mikið á undanförnu misserum.

Það sem af er ári hefur úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hækkað um tæplega 40% og sama hækkun hefur orðið á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum.

Í samtali við Ólaf Klemensson hjá Seðlabankanum í Viðskiptablaðinu í dag kom fram að ástæðu fyrir þessari hröðu hækkun kvótaverðs að undanförnu megi rekja til hærri veðhlutfalla hjá viðskiptabönkunum og greiðari fjármögnun frá þeim til kvótakaupa.

Fregnir hafi borist af því að veðhlutfall hjá bönkunum hafi hækkað nokkuð á seinustu misserum og farið úr um 50% í fyrra upp í allt að 75% nú.

Ólafur sagðist fyrst hafa heyrt af aukinni fjármögnun frá bönkunum síðastliðið vor, sem vel fer saman við hækkun kvótaverðsins á sama tíma."

Steini Briem, 9.1.2009

Þorsteinn Briem, 4.4.2015 kl. 22:24

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í mars 2007 var verð á svokölluðum varanlegum þorskkvóta komið upp í um 2.500 krónur fyrir kílóið og í nóvember 2007 fór verðið í fjögur þúsund krónur fyrir kílóið.

Í mars 2008 var verðið hins vegar komið niður í 2.700 krónur.

"Viðskipti með varanlegan þorskkvóta hafa engin verið í marga mánuði. Erfitt er að fá lánsfé í bönkum fyrir kvótakaupum og svo sjá menn ekki vitglóru í því að kaupa kvóta á þessum okurvöxtum," sagði þá Eggert Jóhannesson hjá skipamiðluninni Bátar og kvóti í viðtali við Viðskiptablaðið.

Steini Briem, 9.1.2009

Þorsteinn Briem, 4.4.2015 kl. 22:27

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verð á leigukvóta þorsks er núna um 208 krónur fyrir kílóið en verð á óslægðum þorski er um 232 krónur, þannig að mismunurinn er einungis 24 krónur fyrir kílóið.

Og þá er eftir að greiða laun og kostnað vegna til að mynda olíu og veiðarfæra.

Steini Briem, 9.1.2009

Þorsteinn Briem, 4.4.2015 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband