6.4.2015 | 22:31
Ein takmarkaðra auðlinda jarðar. Orkuskiptin nálgast hratt.
Í æsku og á yngri árum kemur vitneskjan um að menn séu dauðlegir ekki í veg fyrir þann hugsunarhátt að dauðinn sé órafjarri og það sjaldgæfur hjá ungu fólki, að framundan hjá meðalmanninum sé ævi sem sé ígildi heillar eilífðar. Þið vitið: Sumt fólk deyr að vísu fyrir aldur fram en ekki ég.
Þegar ungt fólk byrjar að reykja eru afleiðingarnar af því svo fjarri í huga þess, að þær hafa ekki nógan fælingarmátt.
Þegar líður á ævina blasir hins vegar sú staðreynd æ skýrar við að jarðlífið er takmörkuð auðlind.
Fram á okkar daga hefur ríkt svipað hugarfar hjá jarðarbúum varðandi auðlindir jarðar og möguleikana á endalausri nýtingu þeirra fyrir þarfir sífjölgandi mannkyns.
Afleiðingin og niðurstaðan af þessum hugsunarhætti birtist í hinni ófrávíkjanlegu kröfu um endalausan og veldisvaxandi hagvöxt, - hugarfar og krafa, sem engin stjórnvöld í heiminum virðast geta losnað við þótt allir megi sjá, að dæmið mun ekki ganga upp endalaust með sama áframhaldi.
Það koma áreiðanlega flestum á gersamlega á óvart þegar það upplýstist í fyrra eða hitteðfyrra að súkkulaði ætti sér ekki bjarta framtíð sem algeng og ódýr matvara.
Jafn mikið á óvart kom sú vitneskja að til væri efni, sem enginn hefði hingað til haft áhyggjur af að takmarkaði væri til af og heldur ekki vitað um hve mikil undirstaða það er í landbúnaði og margs konar framleiðslu.
En þetta er fosfór, auðlind sem mun með sama áframhaldi ganga til þurrðar á þessari öld með afdrifaríkum afleiðingum.
Sérfræðingar helstu olíuframleiðslulanda heims viðurkenna að olíuöldin hafi náð hámarki fyrir tíu árum eða svo, og að eftir 20-40 ár liggi leiðin hratt niður á við.
Í augum sumra kann þetta að virðast það langur tími að engin ástæða sé til að bregðast við strax núna, en í raun er þetta ógnarstuttur tími, ekki hvað síst með tilliti til lengdar annarra alda í sögu mannsins eins og steinaldar og bronsaldar.
Það sjáum við þegar við lítum 20-40 ár til baka, aftur til áranna 1975-1995.
Og stórfelld orkuskipti kalla á mikinn tíma og kostnað við undirbúning og tækniúrvinnslu.
En allar þjóðir hafa samt hagað sér þannig hingað eins og olían sé eilíf orkuuppspretta og eins og engin takmörk séu fyrir því hvað hægt sé að dæla miklu af koldíoxíði út í lofthnjúpinn.
Framundan er tími, þar sem óhjákvæmileg orkuskipti verða að fara fram að stórum hluta í búskap mannkynsins.
Í dag fór ég í fyrsta skipti í 56 ár á reiðhjóli í verslunarferð.
Ég fór að vísu í 3ja kílómetra reynsluferð á hjólinu í gær, en annað var erindið ekki og hjólið kom að því leyti ekki í staðinn fyrir bíl í þeirra ferð.
En ferðin í dag leysti bíl af hólmi, því að þannig stóð á, að ekki var nægur tími til að fara þetta gangandi.
Þetta var að vísu stutt verslunarferð en reiðhjólið er "hybrid" eða "tvinnhjól," það er með hjálparrafhlöðu, sem getur líka knúið það áfram eingöngu ef með þarf.
Þetta er á algeru byrjunarstigi hjá mér, því að eftir er að skoða í hvaða ástandi rafhlaðan er.
Hjólið hafði staðið all lengi nýtt og ónotað þegar því skolaði í hendurnar á mér í tengslum við sölu á gömlum bíl í fyrra, og stóð aftur ónotað í vetur svo að rafhlaðan gæti hafa misst getuna til að hlaðast almennilega.
1500 metrar samtals fram og til baka kann að þykja stuttur spölur, en fyrsta flug Whrigt-bræðra var reyndar enn styttra.
Engu er hægt að spá um það hvort þessi litlu orkuskipti hjá mér muni endast samfellt úr þessu. Veðurspáin fyrir næstu daga er ekki uppörvandi og af því að hjólið er splunkunýtt og kannski óhjákvæmilegt að selja það, er viss óvissa í spilunum með þetta.
En það er freistandi að víkja ekki af þeirri leið til óhjákvæmilegra orkuskipta, sem við blasa fyrr eða síðar hjá öllum jarðarbúum. Og fá lönd búa upp á betri möguleika en Ísland.
Fyrir tveimur árum átti ég heima við Háaleitisbraut og útreikningar benda til að svona hjól hefði nýst miklu betur á þeim slóðum en þar sem ég á heima núna, austarlega í Grafarvogshverfi.
Háaleitisbrautin er 2,5 kílómetra frá miðju íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu en Fróðengi er 5 kílómetra frá miðjunni.
Samanburðurinn er óhagstæðari varðandi þann stað sem ég á oftast erindi á, Útvarpshúsið.
Frá gamla verustaðnum voru 1,6 kílómetrar þangað, en 8,6 kílómetrar eru þangað frá núverandi verustað.
Þetta eru 14 kílómetrar samtals fram og til baka, sem samsvarar 40 mínútum í tíma, auk 2x5 mínútna sem bætast við við að taka hjólið út og koma því fyrir aftur eftir hverja ferð, alls 50 mínútur.
Og tíminn er stundum peningar, ekki satt?
Páskaegg verða senn lúxusvara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Í dag fór ég í fyrsta skipti í 56 ár á reiðhjóli í verslunarferð."
Til hamingju með það!
Þorsteinn Briem, 6.4.2015 kl. 22:37
Takk. Og dagurinn var fæðingardagur fyrsta barnabarns okkar Helgu, sem ekki fékk að njóta þess að lifa og geta fengist við lífið og tilveruna.
Ómar Ragnarsson, 6.4.2015 kl. 22:41
"Og tíminn er stundum peningar, ekki satt?"
Sem sagt, engan tíma tekur að setja bensín á bíla, þrífa að innan og utan, láta skoða þá og gera við á verkstæðum.
Og þar að auki er það allt ókeypis.
Þorsteinn Briem, 6.4.2015 kl. 22:43
Ég samhryggist þér og þinni frábæru fjölskyldu, Ómar minn.
Þorsteinn Briem, 6.4.2015 kl. 22:46
Þakka þér. Taktu eftir því sem ég skrifa: "Tíminn er stundum peningar. Gönguferðir og þess vegna hjólaferðir gefa oft hreyfingu og útiveru og tilbreytingu sem kveikja dýrmætar hugmyndir og efla andann!
Ómar Ragnarsson, 7.4.2015 kl. 00:41
Rétt er það, enda erum við sammála um nær alla hluti, Ómar minn.
Þorsteinn Briem, 7.4.2015 kl. 00:50
Ef olíuþurrð verður, þá munu ýmis efni sem við höfum hingað til talin verða sjálfsögð, hverfa líka. Þetta á sérstaklega um ýmis gerfiefni, sérstaklega plastefni.
Takkarnir á lyklaborðinu sem við skrifum hér með koma t.d. úr olíu, það sam má segja um skjáinn sem við horfum á, en mikið af þeim efnum sem í honum eru, eru t.d. gerviefni, og svo náttúrulega hinn hræðilegi málmur, ál, sem bara má framleiða í verksmiðjum í einhverjum fjarlægum löndum í staðinn fyrir hér á landi.
Líklega er stólinn sem við sitjum á þegar við hömrum á tölvuna, mikið til úr efnum sem unnin eru úr olíu.
Ef um tréstól er að ræða, þá eru miklar líkur á að olía hafa verið notuð við smíði á honum, t.d. til að knýja þær vélar sem notaðar voru við smíðina, og svo náttúrulega þau samgöngutæki sem notuð voru til að flytja efnið í hann, og svo náttúrulega til að flytja stólinn á áfangastað.
Hægt er að nefna urmull hluta sem koma úr olíu, en það yrði of langt mál að tíunda það hér. Læt því nægja að nefna, að allstaðar í kringum okkur eru hlutir sem upprunanlega koma úr olíu.
Yrði ekki veröldin snautleg af við hefðum ekki olíuna?
Fjalar Finnbogason (IP-tala skráð) 7.4.2015 kl. 09:14
"Ef olíuþurrð verður ..."
"Fjalar Finnbogason" heldur greinilega að olía sé ótakmörkuð auðlind.
Þorsteinn Briem, 7.4.2015 kl. 11:24
Steini Briem.
Hvar hef ég sagt að olía sé ótakmörkuð auðlind?
Geturðu bent mér á það?
Fjalar Finnbogason (IP-tala skráð) 7.4.2015 kl. 13:45
"Ef olíuþurrð verður ..."
Þorsteinn Briem, 7.4.2015 kl. 13:58
Olian gengur aldrei til þurrðar.
Benedikt V. Warén, 7.4.2015 kl. 18:00
Hversu langan tíma er jarðolía að myndast?!
16.4.2004:
"Nú er talið að í jörðu séu um 1.000 milljarðar tunna en það samsvarar um 159.000 milljörðum lítra.
Mest af olíu er í Sádi-Arabíu. Að öllum líkindum munu þessar olíubirgðir endast í um 40-80 ár."
Hvaðan kemur olían og klárast hún einhvern tímann? - Vísindavefurinn
Þorsteinn Briem, 7.4.2015 kl. 18:18
Ég stend við færslu #11
Benedikt V. Warén, 7.4.2015 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.