Maðurinn sem gat hvorki sannað að hann væri lifandi né dauður.

Fyrir nokkrum áratugum gerðist það að þegar íslensk flugvél varð eldi að bráð á Grænlandi, brunnu skilríki eins flugvirkjans í föggum hans inni í vélinni en sjálfur slapp hann svo naumlega, að skegg hans sviðnaði. 

Hann ætlaði að endurnýja skilríkin en komst þá að því að þegar hann hafði að honum forspurðum verið skráður út úr sveitarfélagi einu út á landi eins og hann væri brottfluttur, hafði hann ekki verið í staðinn skráður heimilisfastur neins staðar annars staðar, og í þessum tilfæringum gerðist það að nafn hans var þurrkað út úr þjóðskrá.

Þetta var afar bagalegt fyrir hann þegar hann ætlaði að endurnýja ökuskírteini sitt, flugvirkjaskírteini og önnur skilríki og kom að lokuðum dyrum, því að staða hans jafngilti stöðu látins manns, þótt hvergi væri að finna gögn um það, hvernig hann hefði horfið sporlaust út úr þjóðfélaginu. 

"Það er helvíti hart að búið sé að klippa af manni nafnnúmerin" sagði hann við mig.

Það leið talsvert langur tími sem þessi vinur minn var tæknilega eins og draugur á milli heims og helju á pappírunum, því að hann gat ekki framvísað neinum gögnum um að hafa fæðst og vera á lífi og ekki heldur framvísað dánarvottorði! 

 

Hann upplifði það skondna ástand að sitja í viku í fangelsi fyrir að framvísa hvorki ökuskírteini né öðrum skilríkjum, og segja ekki heldur til nafns, þegar lögregla stöðvaði hann eitt sinn á bíl sínum, og taldi hann hafa ekið yfir á rauðu ljósi.

Hann harðneitaði sök og réttlætiskennd hans var svo sterk, að hann lét sig frekar hafa það að sitja í steininum í viku heldur en að sætta sig við aðgerðir lögreglunnar.

Fyrir tilviljun hafði einn af vinum hans spurnir af þessu, enda hafði flugvirkinn ekki komið til vinnu vikuna, sem hann sat í fangelsinu.

Tókst vini hans að fá hann látinn lausan og verða laus allra mála án þess að segja til nafns.   


mbl.is 317 manns hafa fellt niður nöfn sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Guðnason

Hef ekki fyrr séð frásögnina þannig í heild.  Færi betur að fleiri héldu prinsip sín - þótt einhvern milliveg færu.  Blessuð sé minning hans.

Þorkell Guðnason, 14.4.2015 kl. 15:22

2 identicon

En nú er hann þó allavega fallinn frá og því ekki misskilningshætta framar.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 14.4.2015 kl. 16:04

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn á krossinum:

"Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í kaupfélaginu á Sauðárkróki."

Þorsteinn Briem, 14.4.2015 kl. 17:18

4 identicon

Ein málefnislegasta athugasemd #3 ,sem ég hef séð.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 14.4.2015 kl. 19:22

5 identicon

Guðmundur Sigurbergsson fór ekki troðnar slóðir.  Mér þótti vænt um þann mann

Pétur Einarsson (IP-tala skráð) 14.4.2015 kl. 19:40

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Guðmundur Sigurbergsson reyndist mér svo vel sem vinur, að enda þótt það hefði verið freistandi að gera um hann sjónvarpsþátt sem hefði látið Gísla á Uppsölum falla í skuggann, gat ég ekki fengið mig til að gera slíkan þátt. 

Hann heimtaði upp úr þurru að ég keypti af honum tveggja hreyfla flugvélina TF-HOF þótt ég ætti ekki nema lítið brot upp í kaupverðið á henni og aftæki þess vegna með öllu að fara út í þau viðskipti.

"Hvað myndurðu eiga mikið sem upphaflega borgun?" spurði Guðmundur.

"Í mesta lagi 100 þúsund" svaraði ég.

"Þá er það ákveðið, hér eru pappírarnir og þú skrifar undir og verður eigandi vélarinnar héðan í frá. Þú þarft tveggja hreyfla vél þegar þú flýgur út á hafið."

"Já, en ég hef ekkert efni á að eiga hana, er með níu manns í heimili og sé ekki að ég muni geta borgað meira í henni," andmælti ég.

"Skiptir engu máli," svaraði Gvendur, "hvort eða hve mikið þú getur borgað. Nú verður þetta þín flugvél." 

Við tókumst í hendur þegar búið var að ganga frá þessu og þá sagði Guðmundur: 

"Vonandi verður nú lát á ofsóknum Landssímans á hendur mér fyrir gamlan símareikning, sem ég hef neitað að borga í tíu ár, þrátt fyrir mikinn málarekstur þeirra og málaferli. Þeir fara fram með ranglæti, því að línan í símann var ónýt og frá stríðsárunum. Þeir skulu aldrei fá krónu af þessum reikningi og þaðan af síður flugvélina ef þeir keyra mig í gjaldþrot. Þess vegna vil ég að þú eigir hana. Nú er hún í góðum höndum. Ég vil að þú vitir núna um þetta, svo að það komi þér ekki í opna skjöldu, vil koma hreint fram í þessu máli, sem snýst um þessa flugvél sem má aldrei falla í ræningjahendur, - það væri eins og að slíta hjartað úr mér, mundu það! Nú erum við prðnir tveir, sem höfum taugar til hennar."

Nokkrum mánuðum síðar fékk ég bréf frá Landssímanum með svimandi hárri upphæð, sem hafði safnast vegna langvinnra málaferla svo árum skipti. Síminn hafði verið skrifaður fyrir not vegna reksturs flugvélarinnar TF-HOF og þess vegna voru þeir komnir á bakið á mér.

Ég fór á fund hjá fyrirtækinu og tókst með því að beita allri mögulegri lagni og fortölum að fá reikninginn lækkaðan stórlega þótt hann væri áfram margfalt hærri en hann hafði verið í upphafi. Borgaði og málið var dautt.  

Þegar Guðmundur frétti þetta var honum brugðið. "Aldrei hefði ég trúað því að þú gætir orðið svona mikill aumingi að bogna fyrir þessum andskotum. Nú hef ég misst allt álit á þér og tala ekki við þig næstu vikurnar meðan ég er að jafna mig."

"Jæja," svaraði ég, "en nú getum við bara snúið þessu við og þau kaupir vélina til baka af mér á sömu kjörum og þú gafst mér." 

"Nei, heyrðu nú" sagði Guðmundur. "Ég stend við mín orð og annað kemur ekki til greina. Þú átt vélina héðan í frá og borgar eða borgar ekki af henni eftir því sem ástæður þínar leyfa. Um það samdi ég og við það stend ég! Annað kemur ekki til greina!"

Ég átti TF-HOF í áratug og hún reyndist mér mikill happafengur. Enginn nema Guðmundur Sigurbergsson hefði gert þetta, svo mikið er víst.  

Ómar Ragnarsson, 14.4.2015 kl. 21:49

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Heyrði þessa sögu örlítið öðruvísi.  

Maður þessi skuldaði talsvert af opinberum gjöldum ýmiskonar og ágreiningur var við sýslumanninn á Höfn um uppgjörið.  Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtuaðgerðir sýslumannsins kom allt fyrir ekki og hann borgaði ekki krónu.  

Sýslumanni leiddist þófið og tók því það til bragðs, að stika hann út af þjóðská og núlla þar með allar hans skuldir.  Þar með var hann frjáls maður eins og Bjartur í Sumarhúsum og skuldaði þar að auki engum neitt.  

En kauði var ekki lengi í Paradís.  Það heldur betur babb í bátinn þegar síðan átti að endurnýja passa, ökuskírteini og þessháttar pappíra, eins og getið er hér að ofan.

En Hornfirðingar vita þetta upp á hár og upplýsa okkur, - vonandi innan tíðar.

Benedikt V. Warén, 14.4.2015 kl. 23:15

8 Smámynd: Þorkell Guðnason

Benedikt Warén:  Okkur sem kynntumst manninum á bak við þykka skrápinn og hörðu skelina, þætti rétt að hér væri látið staðar numið. Ómar gerði þessu ferli betri skil með sínum frásögnum, heldur en Friðjón heitinn sýslumaður gerði sjálfur í mín eyru. "Aldrei skyldi góð saga gjalda sannleikans" tel ég eiga vel við núna.

Þorkell Guðnason, 15.4.2015 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband