17.4.2015 | 01:33
Styrmir Gunnarsson, fulltrúi ótrúlega stórs hóps.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur verið fylgismaður Sjálfstæðisflokksins frá öndverðu og lýsti stöðu sinni þannig að hann væri "innvígður og innmúraður" í þann flokk.
Styrmir man vel eins og ég þá tíma þegar Birgir Kjaran alþingismaður flokksins var ásamt Eysteini Jónssyni, formanni Framsóknarflokksins, meðal öflugustu talsmönnum náttúruverndar á Íslandi og formenn Náttúruverndarráðs.
Í tíð Eysteins voru hugsanlega fleiri svæði og staðir settir á Náttúruminjaskrá en í formennskutíð nokkurs annars.
En síðan eru liðnir margir áratugir og þau öfl hafa orðið æ sterkari í Sjálfstæðisflokknum, sem sjá ekkert annað, sem geti glatt þá meira, en fleiri risaálver á borð við álver í Helguvík, sem tryggi umturnun og eyðileggingu hálendisins. Er grein Halldórs Blöndals í Morgunblaðinu í morgun gott dæmi um það.
Út á við hafa Sjálfstæðisflokkurinn og fylgismenn hans líkst harðsvíruðum flokki gróðaafla og náttúruspellvirkja.
En skoðanakannanir hafa sýnt annað. Í skoðanakönnunum um stærstu átakamálin varðandi náttúruvernd hefur það gerst að stærsti flokkpólitíski hópurinn að höfðatölu, sem var á móti Kárahnjúkavirkjun, var það fólk, sem sagðist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og einnig stærsti flokkspólitíski hópurinn sem vill friða hálendið í einum þjóðgarði.
En á landsfundi örlítils hluta fylgismanna flokksins kæfir "flokkseigendafélagið" jafnan niður slíkar raddir og þáverandi forseti Alþingis tók þátt í því sem fundarstjóri á landsfundi 2001 að hrekja Ólaf F. Magnússon úr ræðustóli og af fundinum.
Á stórkostlegum baráttufundi fyrir friðun hálendisins í kvöld vöktu afdráttarlaus ummæli Styrmis Gunnarssonar sérstaka athygli mína, því að fyrir aðeins örfáum árum hefði engan órað fyrir því að hinn "innvígði og innmúraði" Styrmir myndi halda uppi jafn einarðlegum málflutningi gegn hernaðinum gegn hálendinu og raun ber vitni.
Sjá má þessi sterku ummæli á myndbandi á facebook síðu minni og Láru Hönnu Einarsdóttur, og eru þau á tímanum 3 klst 03:24 á tímalínu myndbandsins og segja sína sögu um það, að Styrmir er þarna nokkurs konar fulltrúi ótrúlega stórs hóps sem er ekki á sömu línu og þeir sem ráða ferðinni í flokknum, sem þeir kjósa samt.
Styrmir gengur svo langt að segja að þjóðin geti ekki lifað án ósnortins hálendis og að þegar hafi verið gengið of langt í röskun þess. Það er laukrétt hjá honum.
Allir þekkja Kárahnjúkavirkjun og sem annað dæmi má nefna, að með svonefndri Kvíslaveitu hafa til dæmis 40% verið tekin af vatni Dynks, flottasta stórfoss landsins, sem síst allra fossa mátti við því.
Og Gljúfurleitarfoss og Kjálkaversfoss hafa líka misst þetta vatn.
Þetta var gert með laumuspili, því að þegar ég var að gera þætti um þetta svæði fyrir 15 árum var sagt að talan væri aðeins 10-15 prósent.
Ég skammast mín fyrir fréttaflutning minn af Kvíslaveitu á meðan hún var framkvæmd í fimm áföngum, því að ég kafaði ekki nógu djúpt niður í málið og lét auk þess blekkjast af talsmönnum Landsvirkjunar.
Athugasemdir
17.4.2015 (í dag):
Holskefla af kínversku áli mun lækka álverð - Sérstakt áhyggjuefni fyrir Íslendinga
Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.