24.4.2015 | 08:56
Það eina, sem tæknin hefur enn ekki getað leyst.
Stórfelld fækkun banaslysa og alvarlegra slysa í umferðinni hér á landi og í öðrum löndum er einkum hægt að rekja til stórfelldra framfara í öryggisatriðum í hönnun og gerð bíla.
Þannig eru öryggisloftpúðar orðnir allt að níu í einstaka bíltegundum eins og til dæmis hinum ofurstutta Toyota iQ, og meira að segja komnir púðar fyrir hnén.
En eitt grundvallaratriði er þó enn ekki á valdi bílaframleiðenda, en það eru bílbeltin. Enn hefur ekki verið fundin upp aðferð til að tryggja að bílbeltin séu ávallt spennt.
En ef þau eru ekki spennt, eru öll hin öryggisatriðin meira og minna ónýt, því að forsenda þess að þau virki eins og til er ætlast, er sú, að fólk sé kyrrt í sæti sínu þegar óhöpp dynja yfir.
Fyrir um 30 árum var gerð tilraun til þess að útbúa Volkswagen bíla á Bandaríkjamarkaði með beltum, sem spenntust sjálfkrafa og ökumenn gátu hvorki ekið af stað né losað beltin á ferð, en framleiðendurnir urðu að gefast upp á þessari nýbreytni.
Enn í dag er hægt að undrast hve mikla andstöðu bílbeltin hlutu hér á landi og harma hve mörg mannslíf sú andstaða kostaði.
Svo hatrömm var þessi andstaða og svo fáránlegir fordómar á sveimi, að um nokkurra ára skeið voru sérstakar undanþágur veittar fyrir að nota þau ekki, byggðar á "séríslenskum aðstæðum", sem voru auðvitað ekkert séríslenskar.
Svona fyrirbrigði virðast gjósa upp hér á landi oft á tíðum, og þá gegn fyrirbærum, sem þegar hafa hlotið sess erlendis eftir rökræna og ítarlega umræðu og reynst vel þar, en virðast framandi fyrir okkur, sem ekki höfum að baki reynslu og umfjöllun en geysumst samt af stað með tilfinningaþrungnum upphrópunum.
Mér kemur til dæmis í hug það sem núna hefur verið í umræðunni, svo sem að það sé fólgin "auðmýking" í því að taka fjárhagslegan þátt í að vernda náttúruverðmæti og byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólk.
Eru upphrópanir eins og að það sé "skortur á frelsi að fá ekki að horfa ókeypis á eigið land" nú algengar.
Við hliðstæðar aðstæður erlendis hefur sú umræða verið tekin fyrir löngu, að ferðafólkið, jafnt "heimamenn" sem aðrir, séu "stoltir þátttakendur" ( "proud partner") í því, eins og það er til dæmis orðað á bandaríska náttúrupassanum, að taka þátt í að vernda náttúruverðmæti, sem í raun eru eign alls mannkynsins og heimamönnum hefur verið falið að annast vörslu þeirra, sem þeir eru stoltir af að inna af hendi.
"Experience your America" er þar ritað, sem þýðir það að þessi Ameríka var árið 2002 jafnt mín sem Ameríkananna sjálfra.
Hér á landi höfum við hins vegar allt á hornum okkar gegn því að þessi leið eða aðrar séu reyndar til þess að afstýra þeirri þjóðarskömm sem fels í versnandi ástandi helstu ferðamannastaða landsins.
Um helmingur látinna var í belti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í öryggismálum og heilsu landsmanna hefur og verður ætíð uppi andstaða gegn forræðishyggju. Hvort ég borði sykur eða sleppi því að nota öryggisbelti á ekki að koma löggjafanum við setji ég ekki aðra í hættu. En löggjöf er ódýrari en fræðsla og því verður hún oft sú lausn sem gripið er til þegar hegðun samborgaranna er talin óæskileg.
Í uppbyggingu og verndun eru uppi margar og misgóðar hugmyndir. Náttúruskatturinn Náttúrupassi er ein þeirra og ekki endilega sú besta þó hún sé langt frá því að vera verst. Í Bandaríkjunum er þeirra náttúrupassi frekar táknrænn en einhver tekjulind, innkoman skilar ekki nema litlu broti að þeirri upphæð sem fer í viðhald staðanna ($180 milljónum af $11.500 milljóna viðhaldskostnaði). Og þar hefur mikil andstaða í sex ár komið í veg fyrir hækkun gjaldsins.
Vagn (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 10:19
Fyrisögn fréttarinnar á mbl finnst mér villandi. Hún gefur óbeint til kynna að það sé sama hvort maður sé í belti eða ekki. Ef fréttin er lesin kemur annað í ljós: Í utanbæjarakstri er aðeins einn af hverjum tuttugu ekki í belti en næstum helmingur þeirra sem létust voru ekki í belti. Þetta má túlka þannig að það sé næstum tíu sinnum líklegra að látast í bílslysi ef maður er ekki í belti.
jka
jka (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 11:25
Að sjálfsögðu vill Sjálfstæðisflokkurinn aukna skattheimtu.
Þorsteinn Briem, 24.4.2015 kl. 12:08
Árið 2012 voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.
Þessi íslensku fyrirtæki greiða alls kyns skatta til íslenska ríkisins og þeir níu þúsund Íslendingar sem hjá þeim starfa greiða að sjálfsögðu einnig skatta til íslenska ríkisins, tekjuskatt og virðisaukaskatt sem er með þeim hæstu í heiminum, af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.
Svo og útsvar til íslenskra sveitarfélaga.
Erlendir ferðamenn greiða í raun alla þessa skatta með útgjöldum sínum til íslenskra fyrirtækja, 238 milljörðum króna árið 2012.
Og ekki þarf nema örlítið brot af öllum þessum sköttum til íslenska ríkisins til að stækka hér bílastæði við ferðamannastaði, bæta þar salernisaðstöðu, leggja fleiri göngustíga og viðhalda þeim gömlu.
Þorsteinn Briem, 24.4.2015 kl. 12:13
"Vinna við landvörslu í sumar minnkar um helming frá því í fyrra vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.
Landverðir starfa í íslenskum þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum á sumrin.
Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar og fræðslu, gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt, hafa eftirlit með umferð og umgengni og sjá um framkvæmdir eins og að leggja göngustíga og halda tjaldsvæðum við."
Vinna við landvörslu minnkar um helming frá því í fyrra vegna minni fjárframlaga
Þorsteinn Briem, 24.4.2015 kl. 12:15
Ég átti einu sinni bíl af gerðinni GEO METRO, amerísk framleiddan Suzuki Swift, sem var þeim eiginleikum búinn, að ekki var hægt að setjast í framsætin öðru vísi en að beltin spenntust sjálfkrafa um mann þegar hurðinni var lokað. Mér fannst svolítið ankannalegt í fyrstu en þetta vandist vel. Svo ýmislegt hefur verið reynt.
Stefán Þ Ingólfsson, 24.4.2015 kl. 15:11
Ómar. Af hverju er ekki settur rofi í tengslum við læsingu bílbelta þannig að ekki er hægt að starta og hafa bílinn ú gangi nema að belti sé spennt? Skynjari í sæti segir hvar setið er í bílnum.
Sigurður Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.