Útlendingur með íslenska afsökun: "Hvort eða er.."

Hingað til höfum við Íslendingar að mestu verið einfærir um  að sækja að íslenskri náttúru með mestum mögulegum óafturkræfum neikvæðum áhrifum, svo sem með Kárahnjúkavirkjun. 

Helsta og klassískasta afsökun okkar hefur verið og er "hvort eð er..." afsökunin, sú að íslensk náttúra sé sífellt að breyta landinu og að við, sem hluti af náttúrunni, eigum að vera stórtæk á því sviði, enda muni náttúran sjálf "hvort eð er" breyta öllu mest á endanum. 

Nú heyrum við rök útlendings sem eru í takt við "hvort eð er.." kenninguna. Orð hans um að hvort eð er muni aska frá eldgosum setjast í hverina á Geysissvæðinu er samt einhver sú allra langsóttasta. 

Sem dæmi um "hvort eð er.." kenninguna má nefna, að í góðu lagi sé að reisa hvaða mannvirki sem vera skal á Torfajökulsvæðinu og öllum öðrum hliðstæðum náttúruperlum landsins og umturna þeim, því að "hvort eð er" muni verða þar stórgos einhvern tíma á næstu öldum. 

Í lagi væri að gera stíflu við suðurenda Þingvallavatns og stækka Steingrímsstöð, þótt Þingvellir myndu sökkva við þetta, því að "hvort eð er..." muni land síga við norðanvert vatnið í framtíðinni og vellirnir sökkva. 

Afsökunin er algild: Okkur er heimilt að fara með land okkar og náttúru þess eins og okkur sýnist. Gildir þá einu þótt draumsýnin feli í sér stórfellt brot gegn frelsi komandi kynslóða, milljónum Íslendinga framtíðarinnar, sem við tökum ráðin af með þessu framferði. 

Við höfum heimild til þess að hrifsa allt það til okkar sem okkur er mögulegt. 

"Hvort eð er..." kenningin er náskyld "túrbínutrixinu" sem varð til árið 1970 þess efnis að hvort eð væri væri búið að kaupa svo stórar túrbínur í nýja stórvirkjun að ekki yrði aftur snúið. 

Nú er "hvort eð er" búið að byrja á að reisa kerskála álvers í Helguvík og þess vegna verður samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aftur snúið með það að umturna náttúru landsins með virkjunum allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslur og yfir hálendið.

Daginn sem andófsfólk var handtekið í Gálgahrauni var stærstu jarðýtu landsins beitt til þess að fara hamförum eftir öllu vegarstæðinu til þess að kvöldi væri hægt að segja að hvort eð væri væri búið að leggja hraunið í veglínunni í rúst.

Þessi stærsti skriðdreki landsins sem beitt var þennan eina dag var til að sýna mátt og megin "hvort eð er.." kenningarinnar.

Svipuð hugsun lá að baki því í júlí 1999 þegar ég var flæmdur í burtu fljúgandi yfir miðhálendinu af F-15 orrustu- og sprengjuþotum, stórvirkustu drápstækjum öflugasta herveldis heims sem íslenskir ráðamenn báðu NATO um að æfa sig á gegn hryðjuverkaógn Íslands, náttúruverndarfólki, sem heræfingin byggðist á að væru þarna á ferð og þyrfti vera búið að æfa hvernig ætti að murka niður.

Það þurfti hvort eð er að æfa sig á að nota drápstólin og þá var náttúruverndarfólk nærtækast.  


mbl.is Ætlar ekki að greiða sektina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Væri þá ekki með sömu rökum hægt að fara að manninum með stóra haglabyssu því hann fellur frá að lokum hvort eð er??  Ekki þó það að ég mæli með slíku.  Alls ekki, fremur en hinu sem hann leggur til.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 26.4.2015 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband