Stórlega vanmetið ferðamannasvæði.

Reykjanesskaginn er vanmetið ferðamanna- og útivistarsvæði í hlaðvarpa stærsta þéttbýlis landsins og aðal alþjóðaflugvallarins. 

Sum svæðin eru einhver best varðveittu leyndarmál landsins og það kemur sér vel fyrir þá sem ætla sér að kæfa þau í gufuaflsvirkjunum, svo sem Eldvörp, Trölladyngja, Krýsuvík, Ölkelduháls og Grændalur.

Ætlunin er að gera alla leiðina frá Reykjanestá til Þingvallavatns að niðurnjörvuðu svæði stöðvarhúsa, skiljuhúsa, gufuleiðslna, háspennulína og mannvirkjavega, - alls 12 virkjanir, en fjórar eru á því nú. 

Auðvelt er aka á venjulegum bílum að öllum fyrrnefndum stöðum, en engir nema hundkunnugir rata að Eldvörpum og Sogunum, gili við Trölladyngju, en fara verður austur á Landmannalaugasvæðið til að sjá hliðstæðu þess.

Við Eldvörp og Sogin hentar það vel fyrir virkjanafíklana að sem fæstir sjái þessar náttúruperlur, enda hart sótt að þeim til að virkja við Eldvörp, þótt aðeins sé ætlunin að tappa þar af sameiginlegu orkuhólfi þeirra og Svartsengis.

Og til lítils, vegna þess að gufuaflsvirkjanirnar gefa hvorki af sér hreina né endurnýjanlega orku, eins og glögglega er þegar að koma í ljós á Hellisheiði. 

 

Eldvörp er gígaröð, en slík fyrirbæri finnast aðeins á Íslandi og þarf að fara alla leið austur og upp á Suðurhálendið til að sjá hliðstæðu.

En mótbáran við því að kynna náttúruperlur Reykjanesskagans er sú, að þangað sé margfalt styttra að fara fyrir erlenda ferðamenn heldur en að fara til dæmis Gullna hringinn og þess vegna græðum við minna á slíkum ferðamönnum en þeim sem styttra fara.

Þetta rímar ekki við mína reynslu af ferðum um "Silfraða hringinn" á Reykjanesskaga sem ég hef farið með ferðamenn, sem hafa verið í tvo daga í Reykjavík á ráðstefnum og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn.

Þessi stutta ferð, sem hægt er að hafa misjafnlega langa, hefur nefnilega oftast kveikt í þeim löngun til að koma aftur til landsins og dvelja hér lengur og fara víðar. 

Gott er framtak Sigurðar Boga Sævarssonar sem þessi bloggpistill er tengdur við, og ber að þakka það.

Eins gott að fara svona ferð sem fyrst, því að til stendur  að endastöðin í Flóanum, Urriðafoss, verði þurrkaður upp með virkjun, sem kennd verður við hann.   


mbl.is Jörðin kraumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þrefalt húrra fyrir þessa frétt! Og bloggið!
Þarna er ég búinn að rúnta svolítið með ferðamenn, og var undrandi á því hve traffíkin var lítil. Þarna er hægt að gera skemmtilega hluti sem....öhm....raska lítt og gefa betur af sér heldur en stóriðjan.

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 14:43

2 identicon

Svo sammála að Reykjanesskaginn er algjör perla.

Fullt af stórkostlegum hellum, lautum, kvosum og einstökum stöðum.

Einn er sá staður sem hefur verið nefndur sem virkjanakostur eru Bennisteinsfjöll. Að labba upp Grindaskörðin og á Kistufell er stórkostleg upplifun.

Og svo mættti legi telja..................

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband