30.4.2015 | 22:27
Hvílíkur harmleikur!
Mistaka- og syndaregistur bandarísku leyniþjónustunnar og ráðgjafa bandarískra stjórnvalda er langur og ljótur.
1960 höfðu Bandaríkjamenn staðið uppi sem sigurvegarar í öllum styrjöldum sem þeir háðu allt frá stofnun ríkis þeirra, eða í tæplega tvær aldir.
Á slíkri samfelldri og óralangri sigurbraut er alltaf af hætta á því að ofmetnaður taki völdin á kostnað yfirvegunar og stöðumats.
Sú varð raunin í Víetnam, þar sem Bandaríkjamenn, sem sjálfir höfðu brotist undna nýlenduoki Breta, var gersamlega um megn að skilja þjóðarsál Víetnama og undirrót baráttu þeirra við Frakka og síðar Bandaríkjamenn, en þessi frumdrifkraftur var þjóðerniskennd þjóðar sem þráði að verða sjálfri sér ráðandi.
Þessi viðleitni Víetnama átti ekki aðeins við um andóf þeirra gegn áhrifum Bandaríkjamanna, heldur líka aldagamalt og gróið andóf þeirra gegn áhrifum og afskiptasemi hinna fjölmennu og voldugus nágranna þeirra í norðri, Kínverja. Enda lentu þeir í átökum við Kínverja á áttunda áratugnum.
Bandaríkjamenn hlóðu undir gerspillta leppa sína í Suður-Víetnama og héldu að þetta módel, sem hafði reynst þeim notadrjúgt í Mið- og Suður-Ameríku, myndi virka í Víetnam.
En svo illa reyndist þetta í Saigon, að þeir neyddust meira að segja til þess að láta ráða lepp sinn, Ngo Diem Diem, af dögum, án þess að það breytti þó neinu um ástandið.
Þeir tóku það til bragðs í suðurhluta Suður-Víetnam að víggirða þorpin þar til þess að verja þau fyrir skæruliðum Vietkong.
Áhrif þess voru þveröfug til tilganginn, því að þorpsbúum fannst þeir hafa verið settir í fangelsi.
Þær staðreyndir að þrjár milljónir Vietnama féllu í stríðinu og að meira sprengjumagni var varpað yfir þetta eina land en í allri heimstyrjöldinni, - að það skyldi á tímabili hafa verið ætlunin að eyða með eitri þúsundum ferkílómetra af skógi til þess að skæruliðar Víetkon gætu ekki falið sig, napalm- og flísasprengjuárásir á þorp og bæi og margt fleira, segja sína sögu um tryllinginn, sem réði ríkjum í þessu hræðilega stríði, þar sem Bandaríkjamenn biðu sinn fyrsta ósigur og hann verðskuldaðan.
Réttlæting Johnsons Bandaríkjaforseta fyrir því að stigmagna svo stríðið 1964, að þegar hæst stóð voru meira en hálf milljón hermanna í bandaríska liðinu, átti að vera atburðarás á Tonkinflóa sem túlkuð var sem árás á Norður-Viethama sjó á Bandaríkjamenn.
Langlíklegast er að þessir atburðir hafi verið sviðsettir.
En þetta stríð var þó ekki að öllu leyti ósigur fyrir bandarísku þjóðina, því að segja má að hún hafi tapað því á heimavelli, það er, vegna hinna miklu og vaxandi mótmæla í Bandaríkjunum og einnig vegna þess að til voru fjölmiðlamenn bandarískir sem stóðu í lappirnar við að sýna hið raunverulega eðli og inntak stríðsins á áhrifamikinn og oft einfaldan hátt, þar sem ein ljósmynd gat sýnt meira en þúsund orð.
Þegar Walter Cronkite sjónvarpsfréttamaður sagði eftir eftirminnilega umfjöllun um stríðið, sem hann gerði að aflokinni ferð á vígstöðvarnar 1968: "That´s the way it is", er sagt að Johnson forseti hafi fölnað við sjónvarpsskjáinn og sagt að nú væri einsýnt að hann gæti ekki boðið sig fram sem forsetaefni Demókrata í kosningunum sem í vændum voru um haustið.
Afl og kjarkur andófsins gegn stríðsrekstrinum var því ákveðinn sigur fyrir lýðræðis- og umbótaöflin í Bandaríkjunum og sigur fyrir þá "dynamik" sem bandarískt þjóðfélag býr stundum yfir.
Kom aldrei heim úr stríðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þið vinstrimenn passið ykkur á að draga það ekki fram, að það var suður Víetnam sem átti í stríði við kommúnista i norður Víetnam. Vissulega komu Bandaríkjamenn til aðstoðar, og vissulega báru þeir hitann og þungan af stríðinu megnið af tímanum. Það breytir því þó ekki, að suður Víetnamar háðu frelsisbaráttu gegn einræði kommúnismans. Þeir töpuðu, með þeim afleiðingum að þeirra beið hörmungartíð, sem leiddi til þess að tvær miljónir manna flýðu landið, og gríðarlegur fjöldi fórst á þessum flótta.
Þeirra sem eftir sátu biðu aftökur (100.000 drepnir af kommúnistastjórinni) miljónir settar í "endurmenntunarbúðir" og fluttir nauðugir hreppaflutningum.
Almenningur í Bandaríkjunum snerist vissulega gegn stríðinu, af mörgum ástæðum. Þeim helstu að Bandaríkjastjórn tapaði áróðursstríðinu, og of margir bandarískir hermenn féllu í stríði sem margir í Bandaríkjunum töldu ekki þeirra.
Og þið passið ykkur á því að minnast ekki á voðaverk sem norður Víetnamar og Viet Cong frömdu. Nei, það er sameiginleg tilhneyging vinstrimanna að þagga niður óhæfuverk sem "þeirra" menn frömdu.
Það eru meira að segja íslenskir vinstrimenn sem studdu Pol Pot og félaga í Kambódíu með ráðum og dáð.
Það er hreint alveg magnað, hversu lítils virði mannslífið er vinstrimönnum, ef það eru "þeirra" menn sem drepa.
hILMAR (IP-tala skráð) 30.4.2015 kl. 23:53
Greining Ómars á þessu misskildasta, mistúlkaðasta stríði sögunnar er kolröng. Sjálfur skrifaði ég all ítarlega um þetta stríð í Þjóðmál fyrir nokkrum árum í greininni „Víetnam, vendipunktur kalda stríðsins“ http://vey.blog.is/blog/vey/entry/561839/
Vilhjálmur Eyþórsson, 1.5.2015 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.