5.5.2015 | 02:41
"Enginn er betri en Sigmundur Davíð."
Tvöföld fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur verið mjög umrædd í fjölmiðlum og á þingi í dag. Annars vegar yfirlýstur vilji hans til að vera fjarverandi í samningum um lausn vinnudeilna og hins vegar fjarvera hans frá svörum við fyrirspurnum til hans, vegna þess að hann taldi brýna nauðsyn bera til þess að graðga í sig súkkulaðiköku með rjóma hið snarasta af því að hann þekkir bandaríska máltækið: "You can´t have the cake and eat it too."
Væri betra ef menn hefðu það í huga þegar menn segjast eiga endurnýjanlega orku um alla framtíð á Hellisheiði á sama tíma og hún mun klárast á næstu áratugum.
Bjarni Benediktsson eldri, forsætisráðherra 1963 til 1970, taldi sig ekki "kasta eldivið á bálið" með því að ræða tímanlega og ítarlega við deiluaðila í vinnudeilum þess tíma áður en í óefni var komið, fá fram gagnkvæmt traust og leysa harða hnúta.
En þetta fer auðvitað allt eftir því hver maðurinn er og engu er líkara en okkur sé sagt nú, að við megum þakka fyrir að SDG sé sem mest fjarverandi þegar nærveru hans er óskað við að finna lausn í stíl við lausnir Bjarna Ben 1964 og 65.
Bætist nú við brag, sem gerður var í kringum nýtt og öflugt kjörorð SDG, sem kom upp í hugann þegar enginn fulltrúi Íslendinga fór í göngu forystumanna þjóðríkja um Parísarborg í desember.
Núna lítur bragurinn svona út:
Forystu Íslands féllust hendur.
Til Frakklands var þess vegna enginn sendur.
Héðan fór enginn yfir hafið
því enginn er betri en Sigmundur Davíð.
Til hnallþóruköku hljóp hann af þingi.
Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi.
Í ljós kom að yfir efa er hafið
að enginn er betri en Sigmundur Davíð.
Forystu Íslands enn fallast hendur.
Í fjasið um kaupið er enginn sendur.
Þá verður ei utan af því skafið
að enginn er betri en Sigmundur Davíð.
Við endalok valda hans enginn er skaðinn?
Og enginn þarf þá að koma í staðinn?
Þá verður á endanum ekki tafið,
að enginn sé betri en Sigmundur Davíð.
Með eldivið Simmi fer ekki´inn í reyk.
Svo einföld er lausn hans og pís of keik:
"Nú klára ég tertuna og kokgleypi nú!
You can´t have the cake and eat it too!"
Mun ekki kasta eldivið á bálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta eru skemmtilegar vísur Ómar, vonandi verður gert lag við þetta og þú syngur svo við gott tækifæri.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.5.2015 kl. 09:45
Í fréttinni sem þú vitnar í er þetta m.a. haft eftri Sigmundi:
"Lagði Sigmundur áherslu á það að launþegahreyfingin hefði ekki farið fram á neitt frá stjórnvöldum heldur tekið fram að hún sneri sér að atvinnurekendum og að ekki mætti gleyma því hlutverki vinnuveitenda eða fulltrúa þeirra sem semja.
Að sögn Sigmundar getur ríkisstjórnin lagt lagt ýmislegt til málanna ef samið er á þann hátt að það ógni ekki efnahagslífi þjóðarinnar, ýti undir verðbólgu og vegi að velferð í landinu. „Þá mun ríkisstjórnin auðvitað geta lagt ýmislegt til málanna til þess að auka enn á ráðstöfunartekjur fólks.“
Í þessari frétt hér:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/04/misskilningur_ad_radherrar_bara_bidi_og_voni/
er haft eftir Bjarna:
"Bjarni segir að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að ræða ýmsar hliðar í þessari vinnu, m.a. að beita opinberum aðgerðum til að koma til móts við kröfur fólks. Hann segir að stjórnvöld hafi átt fjölmarga slíka fundi til að fara yfir þau mál, m.a. í dag."
Auðvitað vill stjórnarandstaðan (þ.m.t. flokkur Ómars Ragnarssonar) mála stjórnina sem verst út og segja að hún geri ekkert. Það er nú m.a. þeirra vinna ef svo má segja.
En það hafa meira að segja lekið út fréttir þess eðlis að ríkið sé að velta ýmsum flötum upp með þeim sem eru að "reyna" að semla, en það er augljóst að ríkið græjar ekki samningana sem slíkt nema setja lög á allt saman.
Það sem helst skortir á núna er að verkalýðshreifingin nái saman um kröfur og samninga þ.e.a.s. það komi ekki allir eftir að einn semur og heimtar það sama (í prósentum eða krónum eftir því hvort er hærra) og helst aðeins meira til að leiðrétta eitthvað.
ls (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 11:46
Fyrir mér er þetta svona góðlátlegt grín í anda Ómars. Og örugglega sett fram meira til skemmtunar en áróðurs.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.5.2015 kl. 12:54
Það þarf ekki alltaf mikið til að vekja upp "réttláta" reiði stjórnarandstöðunnar og blogghersins!
Reiðir þeir hrópa úr ræðunnar stól
réttlætis verðirnir stöku:
"Sigmundur Davíð, þú siðblinda fól
það sást til þín - bíta - í köku."
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 13:16
Ég las bara textann sem hann skrifaði, leiðist pólitískir söngtextar svo ég skautaði yfir þann hluta.
ls (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 13:26
Engir forsætisráðherrar, allt frá árinu 1956, hafa sloppið við að ég syngi um þá. Fer ekki að hætta slíku úr þessu.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2015 kl. 14:15
Þess má geta að vísurnar um síðasta forsætisráðherra á undan þessum, Jóhönnu Sigurðardóttur, er hægt að hlusta á á tónlistarspilaranum vinstra megin á þessari síðu. Þær heita: "Saga Jóhönnu."
Ómar Ragnarsson, 5.5.2015 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.