5.5.2015 | 14:05
Sem sagt: Snýst um fjölda látinna. Öllum andskotans sama?
Fyrir fimm dögum birtist hér á síðunni bloggpistill með yfirskiftinni: "Líkindareikningur varðandi tölu látinna?" Var honum beint til tveggja aðila, annars vegar almennings og fulltrúa hans sem launagreiðanda og hins vegar til starfsfólks í heilbrigðiskerfinu sem launþega í núverandi vinnudeilu.
Voru í þessum pistli færð rök að því að eðli vinnudeilnanna á ákveðnum sviðum í heilbrigðiskerfinu myndi kosta mannslíf og að um fjölda þeirra mætti beita líkindareikningi sem fyndi út nokkurn veginn, hve margir myndu liggja í valnum eftir að tekist hefði að greiða úr ákveðnum biðlistum eftir marga, marga mánuði.
Pistill þessi vakti engin viðbrögð og það er fyrst nú sem maður sér fjallað um þetta á þann hátt, að hægt sé að beita nútíma blöndu af upplýsingum og líkindareikningi til að finna út tölu þeirra, sem vinnudeilurnar muni drepa.
Þetta virðist sem sé vera svipaðs eðlis og fréttir í hernaði: Fjöldi fallinna.
Og eitt stingur í augu, hin háa prósentutala fallinna, jafnvel þótt bíðlistar væru álíka langir og verið hefur, eða um það bil sjöundi hver sjúklingur.
Það vekur spurningu um það hvort það sé virkilega viðunandi að slíkt "eðlilegt" ástand sé.
Spurt var í lok pistilsins hvort öllum væri andskotans sama um hið ört versnandi ástand.
Spurt er aftur að því sama nú.
Og ef ekkert gerist í málinu hlýtur svarið að vera: Já, það er öllum andskotans sama, nema kannski nánustu aðstandendum hinna látnu, sem á hinn bóginn verða dauðir svo að þetta snertir þá ekki lengur.
Fleiri ótímabær andlát | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í stórum útboðum verklegra framkvæmda er ekki óalgengt að reiknað sé með visst mörgum dauðaslysum. Það að hægt sé með líkindareikningi að reikna einhvern dauðan hefur ekki enn skapað sérstaklega miklar umræður, nema þegar talnaglöggir hafa reiknað heimsendi og hann síðan látið bíða eftir sér. En fullyrðingar um að hinir reiknuðu muni deyja hafa ekki við annað en þessa talnaleikfimi að styðjast.
Hábeinn (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.