Framsýni 1965 en afglöp 2006.

Stofnun Landsvirkjunar 1965 í eigu ríksins og Reykjavíkurborgar sýndi framsýni, sem þeir sem að stofnun fyrirtækisins stóðu voru sannfærðir að myndi borga sig, jafnvel þótt komið gætu tímabil þegar arðurinn yrði lítill, aðstæður og rekstur erfiður eða gerð mistök. 

Það, að Reykjavíkurborg ætti myndarlegan hlut í fyrirtækinu sýndi líka mikla framsýni þáverandi borgarstjórnar Reykjavíkur með Geir Hallgrímsson sem borgarstjóra og Sjálfstæðisflokkinn með meirihluta. 

Um þessar mundir fagnar Landsvirkjun 50 ára afmæli sínu og í þeim hefur þessi framsýni réttilega verið höfð til skýjanna. 

Hafi trú ár fyrirtækinu og eignarhlut í því sýnt framsýni og verið réttmæt 1965, hefur hún verið réttmæt æ síðan, líka 2006, svo framarlega sem menn kynnu að reka fyrirtækið í samræmi við þá yfirburðastöðu sem það hefur haft í nýtingu á hinni verðmætu orkuauðlind landsins og að því gefnu að orkan yrði ekki seld á smánarverði til erlendra auðhringa.

Þess vegna voru það arfamistök og í raun hneyksli þegar Reykjavíkurborg lét lét hlut sinn af hendi fyrir alltof lágt verð 2006.

Þegar þetta var gert sýndu tölur, sem glöggir menn á þessu sviði settu fram, að þarna var farið illa með verðmæta eign borgarbúa.

Sú röksemd, að um nokkurt árabil hafi arðurinn af rekstri Landsvirkjunar verið svo lítill að rétt hafi verið að gefa hlut borgarinnar frá sér fyrir spottprís 2006, er jafn fánýt og það hefði verið sagt við stofnun Landsvirkjunar 1965 að sú gjörð væri misráðin, af því að á einhverju árabili eftir 40 ár yrði arðurinn lítill á þeim tíma þegar orkan yrði seld undir kjörorði bæklingsins frá 1995: "Lowest energy prizes!" sem sendur var til helstu stóriðjufyrirtækja heimsins. 

Og að tugmilljarða árlegur arður af stærsta álveri landsins rynni úr landi án þess að borgaður væri tekjuskattur af honum.  

  


mbl.is Gat ekki átt bæði fyrirtækin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ert þú ekki einn þeirra sem haldið hefur því fram að tap sé á raorkusölu til stóriðju. Tap á Kárahnjúkum? Náttúruverndarsamtök hafa haldið því fram, ásamt ótal öðru órabulli.

Nú segja menn að innan áratugs verði Kárahnjúkar skuldlausir. Rekstrarkostnaður virkana er afar lítill þannig að raforkusalan fer hreinn gróði innan fárra ára.

Það er gleðiefni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.5.2015 kl. 22:03

2 identicon

Reykjavíkurborg lagði aldrei grænan eyri inn í Landsvirkjun. Hinsvegar gekkst hún í ábyrgð fyrir lánum. Framlögin til Landsvirkjunar komu hinsvegar frá þeim sem keyptu orkuna, sem sé þjóðinni. Þessvegna fékk borgin næga fjárhæð fyrir ábyrgðina ef ekki allt of há.

Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 7.5.2015 kl. 22:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef aldrei haldið því fram að tap væri á Kárahnjúkavirkjun. En arðsemin sem reiknað var með í upphafi var svo lítil og áhættan við framkvæmdirnar svo mikil (samanber bréf lögfræðings til landeigenda um það efni) að ekkert einkafyrirtæki hefði farið í þessa framkvæmd. 

Einungis ríkisábyrgð og ríkisframkvæmd gat komið henni á koppinn.

Og þegar tvísýnast var um að það tækist að bora í gegnum 6-7 kílómetra haft misgengis sunnan við Þrælaháls, sem engar könnunarholur voru boraðar í af því "að við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð var" eins og fjölmiðlafulltrúinn sagði, og ég ræddi þau mál í ferð Landsbankans á svæðið, af því að bankinn var aðal lánveitandinn, fékk ég svarið: "Við höfum engar áhyggjur. Því verr sem þessi virkjun gengur, því meira græðum við." 

Ómar Ragnarsson, 7.5.2015 kl. 23:28

4 identicon

Reykjavík og ríkið ábyrgðust lán til virkjana í Sogi sem m.a. voru byggðar fyrir Marshallfé (Írafoss). Þessar virkjanir voru seinna lagðar inn í Landsvirkjun. Þaðan kom að uppistöðu hlutur Reykjavíkur í Landsvirkjun.

Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 7.5.2015 kl. 23:59

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Arðsemin sem reiknað var með í upphafi var ekki lítil heldur eðlileg og Guðmundur Ólafsson hagfr. mælti með að lífeyrissjóðirnir leggðu til fé í framkvæmdina, miðað við þær væntingar sem gerðar voru. Þær væntingar voru varlega áætlaðar og arðurinn er meiri en þær gerðu ráð fyrir. Ef lífeyrissjóðirnir hefðu farið að ráðum Haraldar, hefðu þeir hagnast í stað þess að tapa á hrun-árunum.

Náttúrverndarsamtök fengu sína "sérfræðinga" til að reikna út arðinn og fengu niðurstöðu sem hentaði áróðri þeirra, áróðri sem átti að fá saklausann almenning til að fylgja þeim að málum.

Þú vildir hætta við framkvæmdirnar þegar þær voru langt komnar og nota aðrennslisgöng virkjunarinnar til að hlaupa maraþonhlaup og sagðir að við myndum græða meira á því heldur en virkjun og álveri.

Náttúruverndarsamtök fengu líka fleiri "sérfræðinga" í lið með sér, m.a. á sviði ferðamála. Þeirra fullyrðingar gengu út á að ef af framkvæmdunum eystra yrði, myndi ferðamönnum á Austurlandi fækka um 50% og um 20% á landinu öllu.

Náttúruverndarsamtök fengu líka allskyns dýra og náttúrufræðinga í lið með sér sem sögðu að fuglastofnar (gæsir, lóa, spói o.fl.) yrðu í hættu ef farið yrði í Kárahnjúkaverkefnið. M.a.s. fiskistöfnar í hafinu, selir o.fl. væru í hættu vegna inngripsins við vatnaflutningana. Geta þessir "fræðingar" litið kinnroðalaust framan í þjóðina í dag?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2015 kl. 00:27

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

".. að ráðum Guðmundar" [Ólafssonar] (lífeyrissjóðirnir) átti þetta að vera

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2015 kl. 00:29

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hreindýr áttu líka að vera í hættu, en hreindýrum hefur fjölgað full mikið síðan og veiðikvóti því verið aukinn á hverju ári, undanfarin ár.

Það stendur ekki steinn yfir steini í bullinu í ykkur.

Það er afar slæmt að náttúruverndarsamtök komi svona herfilegu óorði á sig, því að lokum mun ekki nokkur maður hlusta á þau. Ábyrgð ykkar er mikil og þið ættuð auðvitað að skammast ykkar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2015 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband