Bílar sem ganga fyrir bensíni og olíu hafa þann ókost að stuðla að rányrkju á takmarkaðri auðlind og eiga þátt í loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Kostur þeirra er sá að tæknin við þá hefur verið þróuð og er enn í þróun og eldsneytið og dreifingarkerfi þess sjá til þess að ekki sé hætta á að stöðvast á aflvana bíl vegna orkuskorts.
Hreinræktaðir rafbílar hafa þann kost að hægt er að láta þá ganga fyrir hreinni og endurnýjanlegri orku og akstur þeirra mengar ekki lofthjúpinn.
Ókostirnir eru takmarkað drægi, sem veldur hættan á því að bíllinn stöðvist og komist ekki lengra vegna orkuskorts og verði á meðan það ástand varir að ígildi bilaðs bíls.
Rafgeymar og flest annað er enn í framþróun varðandi hreinræktaða rafbíla, en á meðan er komin fram sú málamiðlun að með því að hafa bæði bulluhreyfil í bílnum og einnig rafhreyfil, sem hægt er að hlaða, er hægt að halda áfram akstri á afli bulluhreyfilsins ef rafhreyfillinn tæmist af orku.
Sé þessi tvinnbíll notaður að mest eða eingöngu í innanbæjarakstri er sá möguleiki fyrir hendi að hægt sé að nota rafmagnið nær eingöngu til akstursins með því að hlaða geyminn á næturnar eða á milli ferða.
Þetta er stór framför miðað við fyrri tvinnbíla, þar sem ekki var hægt að hlaða geyminn nema með því að nýta afl bulluhreyfilsins og aksturs þar sem bíllinn rann áfram undan brekku eða við hægingu á akstri.
Gallinn við nýjustu "innstungutvinnbíla" er sá að vélbúnaðurinn er flókinn og dýr og þyngir bílinn.
Þegar allir reikningar eru gerðir upp varðandi þessi atriði dregast kostnaður og umhverfisáhrif vegna framleiðslu bílsins frá ávinningnum.
En innstungutvinnbílarnir eru nýkomnir til sögunnar og framundan er spennandi tími í þróun bíla sem gera óhjákvæmileg orkuskipti þessarar aldar mögulega og sem léttbærasta.
Og einnig er möguleiki á að í stað eins dýrs innstungutvinnbíls séu bílarnnir tveir: Annars vegar bíll með venjulegum bullhreyfli og hins vegar sem ódýrastur rafbíll fyrir innanbæjarsnattið, sem er hjá flestum meira en 90% af heildarakstrinum.
Einn umhverfisvænsti lúxusbíllinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vissulega eru spennandi tímar framundan í thessum efnum og vonandi ad thróunin verdi sem örust. Hinsvegar er furdulítid raett um thá mengun sem stafar af framleidslu rafgeyma og annara spilliefna sem fylgja rafbílum. Thad er haegt ad menga med fleiru en útblaestri og notkun jardefnaeldsneytis, svo thad vaeri fródlegt ad fá einhverjar upplýsingar um ókosti vid framleidslu rafbíla. Hvada efni er verid ad nota, hvadan eru thau fengin, hvernig verdur thessu fargad ad notkun lokinni o.s.frv.
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 9.5.2015 kl. 18:22
Flestir nýjustu rafgeymarnir verða endurunnir þegar þeir ljúka starfstíma sínum, Halldór Egill, og eru þess í vaxandi mæli úr efnum, sem ekki valda mengun við endurvinnsluna. Rafknúin farartæki hljóta að verða óskavalkostur fyrir Íslendinga í framtíðinni. Það er því mikilvægt að verða ekki búin að ráðstafa allri hagkvæmri orku í landinu til annarra hluta þegar þar að kemur. Held að þessar vangaveltur Ómars séu allrar athygli verðar og nauðsynlegt að landsmenn velti þessum málum fyrir sér.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 18:32
Kostur við tengiltvinnbíla er að rafgeymirinn þarf ekki að vera eins stór og í hreinum rafbílum.
Ágúst H Bjarnason, 9.5.2015 kl. 19:49
Ég á tvo bíla, Chrysler Aspen, 7 manna jeppa sem eyðir 16 á hundraðið í blönduðum akstri, skemmtilegasti bíll sem ég eignast. Þegar mánaðarreikningurinn frá N1 var kominn í nær 100 þúsund krónur, keypti ég mér rafbíl, Nissan Leaf, rosalega skemmtilegur og kraftmikill bíll. Kostnaður á ekinn kílómeter féll úr ca kr. 35.- í ca kr. 3.-. Þetta er dásamlegt en hentar ekki öllum. Ég bý í Mos svo hver hleðsla dugar rúmlega tvær ferðir í bæinn. Þeir sem búa í 101 Rvk græða ekki krónu á að eiga rafbíl þar sem allt er innan seilingar.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 21:04
Að eiga rafbíl í Englandi? Hvernig er rafmagn framleitt þar? Kjarnorka? Hvað er gert við kjarnorkuúrgang?
Guðjón Guðvarðarson (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 21:45
Það eru til útreikningar, Guðjón, sem sýna hversu mikið sparast samt með því að láta ekki hvern bíl brenna jarðefnaeldsneytinu fyrir sig, heldur úr stórum orkuverum.
Þessu veldur hagkvæmni stærðarinnar við framleiðslu orkunnar á einum stórum stað í stað milljóna minni.
Ómar Ragnarsson, 9.5.2015 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.