Þegar "Dakarrall" var haldið hér á landi 1983.

Nú eru liðin 32 ár síðan franskur maður, vanur að halda torfæruröll, kom til Íslands og hélt hér rall, sem var alþjóðlegt rall, nokkurs konar íslenskt Dakar-rall, ætlað torfærubílum.

Nokkrir tugir útlendinga komu hingað til lands til að keppa í þessu ralli og voru allir á meira eða minna breyttum jeppum, varla smærri hjól en 35 tommu.

Keppt var erfiðum hálendisleiðum, fyrst frá Bárðardal suður Sprengisandsleið í einum áfanga suður fyrir Eyvindarkofaver, öllu grófari leið syðst en á hinni venjulegu leið og yfir djúpar ár að fara.

Síðan var frí í einn dag, en næsta dag var þeyst úr Fljótshlíð austur Fjallabaksleið syðri og haldið áfram Fjallabaksleið nyrðri, Dómadalsleið, allt vestur á Landveg.

Enn var frídagur, en næsta dag var rallað í einum áfanga norður Kjalveg, sem þá var gamla hlykkjótta slóðin með óbrúuðum ám, sem nú eru brúaðar, allt norður í Blöndudal, en þá var ekki einu sinni byrjað á framkvæmdum við Blönduvirkjun og allt eins og verið hafði í áratugii.

Frídagur var eftir þennan langa sprett en síðasta keppnisdaginn var ekið frá Húsafelli suður um Kaldadal, farið til austus yfir á línuveginn og þaðan til suðurs, eknir þrír hringir í kringum Hlöðufell og síðan sturtað sér fram af fjallinu fyrir ofan Laugarvatn hjá Gullkistu.Subaru við Gjástykki

Tveir íslenskir bílar, algerlega óbreyttir í einu og öllu, tóku þátt í þessu ralli. 

Annar var Subaru, nýkominn úr alþjóðlega íslenska rallinu, var eini óbreytti bíllinn í því ralli og skilaði í mark fyrstu íslensku konunum, sem kláruðu alþjóðlegt rall. 

Súbbinn var síðan tekinn og farið á honum beint norður í Bárðardal til að taka þátt í jeppa rallinu".

Hann vann síðan allar sérleiðirnar í "íslenska Dakar-rallinu" nema yfir Sprengisand, þar sem sprakk á afturdekki og bíllinn lenti í öðru sæti á þeirri leið vegna 2ja mínútna tafar við að skipta um dekk. 

Hinn íslenski bíllinn var Lada Sport, sem gerði stóru erlendu jeppunum líka lífið leitt. 

Ég á í dag eins Subaru og þann, sem fór hinar órúlegustu torfærur 1983, og hef notað hann á ótal leiðum bæði í byggð og óbyggð í tíu ár.

Erfiðustu leiðirnar fyrir Súbbann í íslenska Dakarrallinu 1983 voru Fjallabaksleið syðri, eins og hún var þá, hringirnir þrír í kringum Hlöðufell þar sem klöngrast þurfti yfir ótal hraunbríkur og sundreið niður Gilsá í Fljótshlíð, sem var í slíkum vexti í mestu úrkomu sumarsins, að draga þurfti suma erlendu jeppana yfir. 

.  


mbl.is Dakar-rallbíll í Jósepsdalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Grenjulöðurseyri og Grenlöðursá?

Kæri gamli skólabróðir og vinur.

Síðan þín er mér skyldulestur. Þangað sækir maður alltaf eitthvað uppbyggilegt!Um daginn varstu að tala um árdaga Íslands. Þar kom við sögu Eyri í Arnarfirði og hún Grelöð okkar. Blessaður vinur okkar hann Þórhallur var frábær maður og kenning hans góð. En skýst þó skýrir séu! Ef þú nennir ættirðu að líta á Þingeyrarvefinn. Þar fjöllum við smávegis um þetta mál.

Með allra bestu kveðjum og þakklæti fyrir þitt frábæra framlag til íslensku þjóðarinnar. Minningarnar lifa!

Hallgrímur Sveinsson.

Hallgrímur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 06:56

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk sömuleiðis fyrir þitt framlag til íslenskrar menningar og ræktar við sögu þjóðarinnar, elsku gamli og góði skólabróðir. 

Ómar Ragnarsson, 10.5.2015 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband