10.5.2015 | 10:17
Eilíft álitamál.
Hið eilífa álitamál hvenær umfjöllun um trú, siði, virðingu, verðleika eða ávirðingar einstaklinga og hópa fer yfir mörk velsæmis eða sanngirni og teljist vera árás eða móðgun er sífellt lifandi, þótt það sé misjafnlega áberandi.
Ástæðan er sú hve erfitt er oft að meta hvenær sé farið yfir strikið, eitthvert svonefnd "strik", eða takmörk sem sett eru umfjöllun, orðum eða athæfi.
Það er til dæmis talin gróf árás eða móðgun ef leikmaður hrækir á annan leikmann eða í áttina til annars leikmanns og liggja þung viðurlög við, jafnvel þyngri en fyrir það að meiða hann vísvitandi.
Kona var nýlega dæmd hér á landi fyrir að hrækja ölvuð í átt að lögreglumann.
Rök byggð á sótthræðslu eiga ekki við um hrækingar að fólki, því að væri svo, myndi ástúðarkoss vera talin sams konar gerningur.
Bekkjarbróðir föður míns var rekinn úr tíma og fékk þungar ákúrur fyrir að skrifa eftirfarandi setningu í stíl, sem börnunum í bekknum var gert að skrifa um jarðarför, sem þau hefðu verið viðstödd:
"Því næst sté presturinn í stólinn og tók að hæla líkinu."
Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins er það nýjasta sem vakið hefur umræður um það hvað teljist skynsamlegt og rétt í svona málum.
Beitt er svipuðum rökum gegn gerningnum í Feneyjum og þeir gerðu, sem töldu að það væri óskynsamlegt að reita heittrúaða múslima svo mjög til reiði með skopmyndum af Múhammeð spámanni að hinir öfgafyllstu þeirra gripu til hryðjuverka.
Nú eru rökin þau í Feneyjum, að með því að reisa eftirlíkingu af mosku innan í gamalli og afhelgaðri kirkju sé verið að reita öfgahópa til reiði og slæmra verka.
Þó varla múslimska öfgamenn heldur hlýtur að vera um kristna öfgahópa að ræða.
"Ævinlega er hægt að draga mörk", - "der finns gransor" segja Svíar stundum. ("Afsakið að á tölvunni minni er ekki stafurinn a með tveimur punktum yfir).
"Allt orkar tvímælis, þá gert er" sagði Bjarni heitinn Benediktsson stundum hér um árið.
Já oft er erfitt að leggja mat á samhengi hlutanna og eðli þeirra. Það verður eilíft álitamál.
Byssuhlaup gegn skopmyndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.