11.5.2015 | 08:25
Helgisögnin um hin kórréttu "Júróvisionlög" og "Júróvisioneinkenni."
Nú langar mig til að taka svolítið ákveðið til orða til að hleypa smá fjöri í umræðuna.
Með árunum hefur verið fest í sessi að ekkert lag eigi möguleika á brautargengi í Eurovision nema þau séu með mjög ákveðin "Júróvision" einkenni.
Er talað í jákvæðum tóni um það að lag sé "dæmigert Júróvisionlag" og að án þess einkennis séu viðkomandi lag dauðadæmt.
Þetta virðist vera útbreidd kenning því að fyrir bragðið eru flest lögin, sem borin eru fram, ósköp áþekk með viðamiklum útsetningum og "Júróvision-lúkki", þar sem ytra útlit, yfirbragð og flutningur eru gerð að stóru atriði þótt hér sé um keppni í gerð sönglaga en ekki söngvarakeppni eða keppni í sviðsetningum.
Kenningin lífseiga hefur dregið úr fjölbreytni og magnað síbyljusvip tónlistar sem gengur mest í lýðinn hverju sinni sem hefur þótt svo eftirsóknarverður til að þjóna stundartísku.
Nefna má dæmi um lög sem báru sigur úr býtum fyrr á tíð og falla ekki inn í þessa kenningu um Júróvisionsvipinn eins og "Ein bishen frieden", "Pupee de cire" 1965, "Dansevise", norska lagið 1995 og besta lagið 1964, sem á Íslandi hlaut heitið "Heyr mína bæn".
Það lag var illa sungið 1964 en hefur hlotið sess sem klassískt og áhrifamikið sönglag eins og kröfur keppninnar segja til um.
Nú þykir sumum það jafnvel kostur að þegar lagið sé flutt, sé það svo keimlíkt einhverju öðru lagi, að áheyrandanum finnist hann hafa heyrt það áður. Þetta á að vera svo aðlaðandi og þægilegt fyrir áheyrandann að hann fái sömu góðu tilfinninguna og þegar hann heyrði áður eitthvert annað lag eða jafnvel önnur lög!
Auðvitað er erfitt að finna upp eitthvað alveg nýtt þegar aðeins er um tólf nótur að ræða til að nota í sönglagi, en lag, sem er fáum öðrum líkt og einstaklega gott, er þó æskilegra en lag sem fellur inn í tilbreytingarlítinn straum meðalmennskunnar eða tískustraum dagsins.
Fyrstu löndin stíga á svið í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.