Túrbínutrixið hikstar. Í bili, eða hvað?

Túrbínutrixið 1970 fólst í því að fyrst voru keyptar stórar túrbínur í risa Laxárvirkjun og síðan átti að stilla öllum upp við vegg og valta yfir þá á þeim forsendum að þeir bæru ábyrgð á því ef kaupin yrðu gagnslaus nema að allir sveigðu sig og beygðu fyrir ofstopamönnunum, sem ætluðu sér að veita Skjálfandsfljóti í Kráká við suðvesturenda Mývatns og sökkva Laxárdal og Laxá þar með undir miðlunarlón. 

Túrbínutrixið klikkaði þegar landeigendur risu einhuga upp gegn siðleysinu, en dapurlegt er til þess að hugsa að það skyldi þurfa að nota dínamit til að sigrast á hinum ofboðslegu hugmyndum. 

Túrbínutrixið í Helguvík 2007 fólst í því að þrír aðilar af minnst 20 gerðu samning um risaálver þar sem batt hendur allra hinna fyrirfram og byrjuðu strax að reisa kerskála.

Til þess að anna raforkuþörf álversins þarf virkjananet frá Reykjanestá austur eftir Reykjanesskaganum um Suðurland allt austur í Skaftafellssýslu og upp á miðhálendið.

Valta átti yfir tugi landeigenda í alls tólf sveitarfélögum og ef einhver segði múkk, yrði honum kennt um hundraða milljarða króna tjón, sem hann hefði valdið.

Hingað til hefur túrbínutrixið fengið einróma stuðning núverandi ríkisstjórnar frá fyrsta vinnudegi hennar og í viðbót velþóknun héraðsdóms í máli landeigenda gegn Landsneti.

En Hæstiréttur hefur nú snúið þeim dómi við og trixið hikstar. En það verður líklega eins og að stökkva vatni á gæs ef miða má við hamaganginn í leifturstríðinu gegn landinu, því að nú eru virkjanafíklar komnir með frumvarp sem gera má ráð fyrir að þeir reyni að keyra í gegn á Alþingi á svipaðan hátt og núna á að gera með fimm virkjanir Jóns Gunnarssonar og kó.

Þessi nýju lög eiga að gefa Landsneti frítt spil í að halda áfram herferð sinni sem aldrei fyrr.  


mbl.is Landeigendurnir höfðu sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

-----"....En því fylgir að "heilagur" réttur til verkbanna og verkfalla verður að víkja, ef líf og heilsa eru að veði. Rétturinn til lífs og heilsu hlýtur ævinlega að vera heilagastur, - eða er það ekki? 

Því að sé "ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga", eins og það er orðað í fyrirsögn tengdrar fréttar, heldur ullað á kjörorðið "þú tryggir ekki eftir á" mun það hafa sömu áhrif og læknaflótti myndi hafa: Fólk flýr land, sem er að verða vanþróað land í heilbrigðismálum og getur ekki tryggt öryggi sjúklinga."--------

Hvernig væri að bjóða heilbrigðisstarfsmönnum fjallagrös fyrst engir peningar eru til og ekki má sækja þá í fallvötnin?

Hábeinn (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 01:58

2 identicon

Virkja, virkja, virkja......gefa síðan orkuna til stórfyrirtækja í mest mengandi framleiðslu sem þekkist. Bravo, kjánar!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 08:12

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Efast um að opinberir starfsmenn Landsvirkjunar hafi pantað vélasamstæðu númer 2 til að ögra. Mál einfaldlega þróuðust á annan veg. Að vera á móti öllum framkvæmdum sem skapa atvinnu og skattfé er eins og að skjóta sig í fótinn.

Í Vogum vilja Sveitastjórnarmenn nú senda bænaskjal til Landsnets og biðja það um að kosta heitt vatn inn í bæjarfélagið. Hvaðan á Landsnet að taka þá peninga nema afla þeirra fyrst með flutningi rafmagns og þjónustu.

Reykjavíkurborg notar Skipulagið til að koma í veg fyrir eðlileg viðskipti borgaranna. Hvað á lengi að mata opinbera háskólastarfsmenn áður en leyfi fæst fyrir sölu á eign eða landi. Umræðan á Alþingi um Rammaáætlun er einnig á svipuðum nótum. Ekkert má gera til hagsbóta fyrir fólkið eða nýta stærstu auðlindina.

Að tala um "fíkla" sem standa undir framkvæmdum og afla fé fyrir hið opinbera er út úr kú. Íslenskir fiskeldismenn komu til Vestfjarða með tugi milljarða sem þeir höfðu aflað í Noregi. Þeir og fleiri eru að snúa þróuninni við á Vestfjörðum. Skapa störf svo menn þurfi ekki að fara til Noregs í atvinnuleit. 

Sigurður Antonsson, 14.5.2015 kl. 08:37

4 identicon

Hefur aldrei verið í umræðunni að leggja sæstreng frá Straumsvík til Helguvíkur ? Gæti trúað að sæstrengurinn sem liggur til Vestmannaeyja sé svipað langur.

Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 10:03

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er alger einsýni að sjá enga aðra möguleika til atvinnusköpunar og tekna en á grunni gamaldags sovéthugsunar, sem sér ekkert verðmæti nema hægt sé að mæla það í tonnum. 

Nú er tekist á um Hagavatnsvirkjun, sem á að leggja í það púkk orkusölu, sem álverin fá að mestu leyti. Enn er risaálver í Helguvík á dagskrá ríkisstjórnarinnar.  

Þessi virkjun myndi skapa 12 störf í álveri, - ég endurtek, 12 störf, á sama tíma sem verðmæti virkjunarsvæðisins ósnortins er mælt í hundruðum starfa og ferðaþjónustan hefur skapað líkast til 10.000 ný störf hér á landi undanfarin ár. 

Ómar Ragnarsson, 14.5.2015 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband