Mikilvægi afskekktra staða.

Þrátt fyrir alla nýjustu tækni nútímans og gildi aukinna mælinga og rannsókna er hin gamla staðreynd enn við lýði, að yfirráð yfir föstu landi á þeim 70% jarðarinnar sem höfin þekja, eru mikilvæg bæði á hernaðar- og friðartímum. 

Í hernaði Japana og Bandaríkjamanna í Seinni heimsstyrjöldinni réðu yfirráð yfir einstökum eyjum og eyjaklösum í Kyrrahafi úrslitum. 

Japanir voru fyrri til að taka í notkun orrustu- og árásarflugvél, sem stóðst bestu slíkum landflugvélum óvinnanna snúning en gat samt lent og hafið sig til flugs af flugmóðurskipum. 

Mitsubishi Zero var lykillinn að árásinni á Perluhöfn 7. desember 1941 og það var ekki fyrr en síðla árs 1943 sem Bandaríkjamenn gátu teflt fram betri flugvél til nota á flugmóðurskipum en það var Grumman Hellcat. 

Bretar voru enn seinni til en Bandaríkjamenn til þess að nota almennilegar orrustuvélar um borð í flugmóðurskipum sínum og notuðust fyrstu stríðsárin við gamaldags og hægfleygar tvíþekjur, sem nýttust eingöngu til árása á skip með því að varpa tundurskeytum í sjóinn í aðflugi að þeim. 

Svo fáránlegt sem það kann að hljóma, var það hve hægfleygar Swordfish tvíþekjurnar voru, lykillinn að því að þær gátu laskað flaggskipið Bismarck. 

Skytturnar á Bismarck gerðu ráð fyrir meiri hraða þeirra og skotin að þeim lentu því fyrir framan þær á þeim stöðum sem reiknað var með að þær væru komnar á! 

Ástæða seinagangs Breta við að framleiða samkeppnishæfar orrustuvélar til nota á flugmóðurskipumm var að hluta til sú, að Þjóðverjar áttu engin flugmóðurskip og því þurftu Bandamenn ekki að óttast þau, heldur nutu þeirrar þröngsýni, sem Adolf Hitler hafði fengið sem landhermaður í Fyrri heimsstyrjöldinni. 

Þegar litið er yfir herafla Bandaríkjamanna nú, sést að flugmóðurskipin eru kóngarnir í ríki sjóhernaðar og raunar lofthernaðar líka, og gömlu stóru orrustuskipin eru horfin. 

Þessi bylting í sjóhernaði varð á árunum 1942-43 og í minningum Agnars Koefoed-Hansens sem var flugmálaráðunautur íslensku ríkisstjórnarinnar í aðdraganda styrjaldarinnar, kemur fram að önnur helsta ástæða þess að hann hann ráðlagði ríkisstjórninni eindregið að neita Þjóðverjum um lendingaraðstöðu fyrir Lufthansa á útmánuðum 1939 var sú, að orrustuskip þess tíma voru veik fyrir loftárásum ofan frá eins og koma glögglega í ljós í árás Japana 1942 á bresk herskip í aðdraganda falls Singapore og í orrustunum við Midway og á Kóralhafi sama ár.

Hin ástæðan var sú almenna ástæða, að aðstaða Þjóðverja á Íslandi myndi óhjákvæmilega draga Ísland inn í stríðsátökin.

Ísland var þá þegar og er einn ígildi flota þriggja risastórra flugmóðurskipa á afar mikilvægu svæði í Norður-Atlantshafi.

Eitt skipið og það langstærsta er á suðvesturhorni landsins, annað á Miðnorðurlandi og hið þriðja á Egilssstöðum.

Yfirráð Breta yfir Íslandi skipti sköpum um gang Heimsstyrjaldarinnar þótt Bandamenn hefðu líklega unnið sigur hvort eð var. 

Ef Þjóðverjar hefðu ráðið yfir landinu hefðu þeir getað þjarmað enn meira að Bretum en þeir þó gerðu og seinkað innrásinni í Normandí. 

Stalín hefði heldur ekki getað fengið jafn mikið af sendingum Bandamanna með Norður-Atlantshafinu skellt í lás, en þegar litið er á magn vopna og vista, sem Sovétmenn þurftu til þess að hafa betur í stríðinu, sést að tröllaukin samanlögð framleiðslugeta Rússa og Bandaríkjamanna hefði ráðið úrlitum að lokum og spurningin einungis hvort Rauði herinn hefði komast langleiðina að Rín eða ekki. 

Þótt ekkert erlent varnarlið sé á Íslandi heldur landið áfram að verða afar mikilvægt á friðartímum og einnig á hugsanlegum ófriðartímum í okkar heimshluta.

Nú er hafin viðureign mannkynsins við afleiðingar hlýnunar loftslags og í þeim hernaði verða Ísland og aðrar svipaðar afskekktar slóðir mikils virði.  

 

  


mbl.is NASA notar Ísland sem bækistöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband