17.5.2015 | 22:27
Vestræn ríki verða að bjóða betur.
Valdboð, lögregluvald og hervald er það sem helst er nefnt til þess að berjast við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.
En dugar þetta til þess að koma í veg fyrir ótrúlegan straum vestrænna ungmenna á "beinni leið til Paradísar"?
Ef við lifum með fullkomna upplýsingatækni til umráða og teljum okkur bjóða upp á það besta, sem völ er á í heiminum, ætti þessi straumur ekki að vera fyrir hendi.
Hervald? Auðvitað verður að beita hervaldi gegn hervaldi en það virðist alveg sama hve margir af leiðtogum Ríkis íslams eru drepnir, - það hrín ekki á samtökunum frekar en að stökkva vatni á gæs.
Lögregluvald til að stöðva strauminn? Ekki dugar það heldur.
Forvirkar aðgerðir, kyrrsetning allra sem þykja líklegir til að flýja vestrænt heimaland og fara til Íraks og Sýrlands?
Útilokað þegar litið er á dæmigerð tilfelli um ungar konur og menn sem laumast skyndilega frá heimahúsum og dúkka upp hjá Ríki íslams.
Við lifum í markaðskerfi. Sá sem framleiðir og auglýsir bestu vöruna vinnur.
Ef varan, sem Ríki íslams býður, líf og búseta hjá þeim, er jafn miklu verri en okkar vara, ríkt þjóðfélag, lýðræði, velferð og gott siðferði,- hvernig getur þessi straumur "kúnnanna" þangað staðist?
Það er augljóslega tvennt: Við upplýsum ekki nógu vel og / eða bjóðum ekki nógu góða vöru. Erum í forystu í upplýsingatækni en bregst bogalistin við að halda fram ágæti þess sem við höfumm að bjóða og draga fram ókosti samkeppnisvörunnar.
Unga uppreisnargjarna fólkið sér galla vöru okkar: Allt að 50% atvinnuleysi ungs fólks í vestrænum löndum með tilheyrandi vonleysi, fátækt, niðurlægingu og biturð.
Það sér spillt stjórnmál, einhæfa dýrkun á skammgróða, peningum, eignum og stanslausri eftirsókn efir efnislegum gæðum á kostnað mannlegra samskipta, umhyggju og vináttu.
Ef þessir gallar eru á vörunni er augljóst að það er ekki verra að reynt sé að bæta úr þeim.
Bein leið til Paradísar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.