Útsýni milljarða virði í Reykjavík.

Þegar tekin var ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var því slegið föstu að landið, sem fór undir Hálslón og Kelduárlón væri ekki krónu virði. Því var hafnað að hægt væri setja verðmiða á það þótt upplýst væri að svonefnt "skilyrt verðmætamat" hefði verið notað með góðum árangri erlendis, svo sem í Noregi. 

Í myndinni "Á meðan land byggist" er farið til Sauda eða Sauðafjarðar í Noregi þar sem matinu var beitt og fjölda fossa og gilja þyrmt og einnig rætt við Staale Navrud prófessor um matið. 

Í handriti myndarinnar "Örkin" er setið í blómabrekku í haustlitum í Hjalladal með dalinn og Fremri-Kárahnjúk í baksýn og síðan aftur í blómabrekku í svonefndri Stuðlagátt, gili Kringilsár, þar sem stuðlabergshvelfingar eru beggja vegna, og á báðum sögum greint frá því að það sem sést á myndinni sé ekki talið krónu virði og þess vegna í góðu lagi að sökkva alls rúmlega 60 ferkílómetrum og fylla dalinn og gilið upp með jökulaur. 

En þetta gildir ekki alls staðar á landinu.

Í þeim íbúðum, sem efstar eru í háhýsunum við Skúlagötu, fer verðið á hverjum fermetra upp í milljón krónur. Í dæmigerðri 200 fermetra íbúð þar er verð íbúðarinnar 200 milljónir króna eða 150 milljónir yfir gangverði í borginni.

Hluti af þessum 150 milljónum felst að vísu í glæsilegum innréttingum og þægindum en útsýnið úr þessum blokkum má líkast til teljast samtals milljarða virði.

Það er mikið borgandi fyrir það að geta notið ótruflaðs útsýnis til Esjunnar!

Það er ekki sama hvað þú sérð þegar þú lítur út um gluggann heima hjá þér!

Og það er ekki aðeins í íbúðum, sem útsýni er í raun verðlagt þótt þrætt sé fyrir það.

Það stefnir í að erlendir ferðamenn borgi 400 milljarða króna í erlendum gjaldeyri inn í þjóðarbúið árlega og 80% þeirra segja íslenska náttúru og útsýni yfir ósnortin náttúruverðmæti landsins vera höfuðástæðu Íslandsfarar sinnar. 


mbl.is Hálendið 80 milljarða virði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Fáránlegt...Ísland er ekki metið til fjár - Hvert sem litið er.

Már Elíson, 18.5.2015 kl. 21:18

2 identicon

Þegar tekin var ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var því slegið föstu að landið, sem fór undir Hálslón og Kelduárlón mundi annars ekki skila neinum teljandi tekjum. Því var hafnað að hægt væri setja verðmiða á það ósnert og fyrir einhverja galdra mundu peningarnir strax fara að streyma inn.... tugir 20 hæða blokka með rándýru útsýni var nokkuð sem engum datt í hug, skiljanlega.

Í Reykjavík seljast íbúðir með útsýni til Esjunnar vel. Útsýni til Esjunnar án íbúðar er frítt og skilar engu. Útsýni til Esjunnar virðist því vera einskis virði nema því fylgi íbúð. Þannig er með þúsundir staða á Íslandi. Þeir væru æðislegt útsýni af svölunum á 10. hæð en annars fara 5 sekúndur í að virða fyrir sér æðislegheitin meðan ekið er framhjá án þess að hægja á bílnum.

Og áfram heimta heilbrigðisstarfsmenn laun þó æðislegheitin og útsýni til Esjunnar standi þeim til boða. En Ísland er metið til fjár, hvert sem litið er. Ísland er metið til launa heilbrigðisstarfsmanna og kennara. Ísland er metið til bóta öryrkja og aldraðra. Ísland er metið til möguleika þess á að veita afkomendum okkar mannsæmandi líf frekar en æðislegt útsýni.

Það er ekki sama hvað land barnabörnin okkar koma til með að sjá þegar þau líta út um gluggana heima hjá sér! 

Hábeinn (IP-tala skráð) 19.5.2015 kl. 01:37

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skemmtileg röksemdafærsla að útsýni á Íslandi skili engu nema það sé í íbúð. Það stefnir í að 400 milljarðar erlends gjaldeyris sópist inn í hagkerfið okkar frá ferðamönnm sem borga þessa peninga fyrir útsýni, fyrir að horfa á fjöllin okkar og náttúrperlurnar. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2015 kl. 07:47

4 identicon

Það stefnir í að ??? milljarðar erlends gjaldeyris sópist inn í hagkerfið okkar frá ferðamönnum sem borga þessa peninga fyrir flug til landsins, akstur í rútum og bílaleigubílum, gistingu á hótelum, aðgang að Bláa Lóninu (manngerður pollur sem hefur vinninginn sem minnisstæðast úr Íslandsferðinni), og lopapeysur úr verslunum við Laugaveginn. Tekjur af erlendum ferðamönnum innanlands námu 158,5 milljörðum árið 2014, eða um 158.000 krónur per ferðamann. Þjónustu fá þeir hjá her af fólki á lágmarkslaunum sem ekki hefur efni á læknisþjónustu og útsýni fá þeir frítt, hvort sem það eru norðurljós eða fjöll, þegar veður leyfir. Magn frekar en gæði og mikla vinnu frekar en miklar tekjur er ferðaþjónustan í hnotskurn.

Hábeinn (IP-tala skráð) 19.5.2015 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband