25.5.2015 | 22:55
Fyrsta jákvæða fréttin, ljós í myrkrinu.
Það bera að fagna frestun verkfallanna sem áttu að skella á á fimmtudaginn. Eftir mikið moldviðri óvenjulega flókinnar stöðu í kjaramálum er þessi frétt ljós í myrkrinu þótt enn þurfi að greiða úr málum stéttanna á opinbera markaðnum, sem hafa átt í langvinnu verkfalli og stefna í verkfall hjúkrunarfræðinga.
Verkföll í upphafi hábjargræðistímans í gjöfulustu atvinnugreininni, ferðaþjónustunni, væri áfellisdómur yfir skynsemi og yfirvegun okkar.
Ástandið núna minnir um sumt á ástandið fyrir jólin 1952 þegar verkfall skall á skömmu fyrir jól. Jólin voru og eru helsti bjargræðistími verslunarinnar, stór hluti af veltunni í þjóðfélaginu.
Þegar í óefni stefndi á aðventunni 1952 voru menn orðnir svo örvæntingarfullir, að í fúlli alvöru var stungið upp á að fresta jólunum.
Þessi uppástunga Sigurðar Skjaldbergs varð kveikjan að fyrsta söngleik Múlabræðranna, "Deleríum bubonis."
Tæknilega er hægt að fresta jólunum til að milda högg af stóru verkfalli yfir jólahelgina, en upphafi aðal ferðamannastraumsins til Íslands er engan veginn hægt að fresta, og heldur ekki Smáþjóðaleikum, komum stórra skemmtiferðaskipa né ráðstefnum af ýmsu tagi.
Margt af viðfangsefnum erlendra ferðamanna hér á landi hefur verið í undirbúningi mánuðum og jafnvel árum saman og því aðeins um tvennt að velja: Að láta verkföll skella á með öllum þeim afleiðingum sem þau hafa í för með sér vegna tapaðs trausts erlendra þjóða á okkur, eða að leysa deilurnar og læra af þeim.
Fresta ekki verkföllum ástæðulaust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.