28.5.2015 | 14:41
Afreksmaðurinn Agnar Kofoed-Hansen.
Við Íslendingar tökum því sem gefnum hlut hve langt við höfum náð á ýmsum sviðum flugmála.
En það var ekki gefið og þessi bylting kom ekki af sjálfu sér. Það var ekki sjálfgefið að Ísland breyttist á fimm árum úr flugvallalausu landi án landflugvéla í land með tvo alþjóðaflugvelli og tvö öflug flugfélög.
Og heldur ekki sjálfgefið að eftir stríðið fengum við Íslendingar úthlutað til flugumferðarstjórnar margfalt stærra svæði á Norður-Atlantshafi en eðlilegt var miðað við stærð þjóðarinnar.
Til alls þessa þurfti öfluga frumherja og kjarkmikla baráttu- og hæfileikamenn á borð við Örn Johnson og Agnar Kofoed-Hansen.
Agnar var einstakur hæfileikamaður og glæsimenni. Aðeins 24 ára gamall hafði hann lært flug hjá danska sjóhernum, flogið í Danmörku, Noregi og hjá Lufthansa í Þýskalandi, verið hvatamaður og driffjöður við stofnun Svifflugsfélags Íslands, Flugmálafélags Íslands og Flugfélags Íslands, fengið þýska flugvél og leiðsögumenn til Íslands, fundið 38 lendingarstaði á landinu og orðið flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar og lögreglustjóri í Reykjavík.
Hann varð síðar fyrsti íslenski flugmálastjórinn og í því embætti tókst honum að afla sér gríðarlegra virðingar á alþjóðlegum vettvangi sakir þekkingar, reynslu og persónutöfra.
Ég fór sem fréttamaður með honum í ferðalag um Noreg til að kynnast flugmálareynslu Norðmanna og alls staðar þar sem Agnar kom var framkoma hans svo heillandi, að maður var að springa af stolti fyrir Íslands hönd.
Stærð og geta íslenskrar flugumferðarstjórnar var kórónan á ferli Agnars og enn sjáum við ný dæmi um það traust sem hún nýtur.
Kangerlussuaq-flugvöllur, þar sem Íslendingar hafa nú tekið að sér flugumferðarstjórn, er magnaður staður við botn 185 kílómetra langs samnefnds fjarðar, með jökla á alla vegu en samt með "arabíska" eyðimörk fyrir innan í mynni fagurs og gróðursæls dals, þar sem risastór skriðjökull fyllir dalbotninn með fossandi jöklusá.
Það er ævintýri líkast að koma á þetta svæði þar sem meðalhitinn að degi til í júlí er 16 stig, og ég er að hefja vinnu við að setja saman mynd um það sem tekin í ferðalagi yfir Grænlandsjökul 1999.
Flugvöllurinn hefur hingað til borið danska nafnið Syðri-Straumfjörður eða Söndre Ström í munni Íslendinga og Dana en að sjálfsögðu eigum við að nota grænlenska nafnið.
Agnar lést 1982, 67 ára gamall, og vannst ekki tími til að skrásetja minningar hans nema frá yngri árum hans.
3. ágúst næstkomandi eru 100 ár frá fæðingu hans og vonandi verður gert eitthvað til að minnast þess.
Isavia með flugumferðarstjórn á Grænlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Aristokrat, glæsilegur og dugmikill. Óþarft að sverta minningu hans með því að bendla hann við Þriðja ríkið.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 17:02
Ég setti saman þetta Video úr 8mm filmu sem pabbi tók 1982. En Agnar lést í lok þess árs. http://youtu.be/MuT0eTeCuP0
Snorri Bjarnvin Jónsson (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 19:55
Gaman að þessu Snorri, smá endurlit í þessu.
Aumur ég man eftir mér sitjandi í kennslustofu í M.H. áhugalítill um það sem kennt var en horfði í staðinn út um gluggann á Agnar velta sér um loftin í Klemminum. Táknmynd frelsisins frá þrúgandi lærdómnum.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 21:31
Takk fyrir að minna á þennan sanna brautryðjanda, Ómar.
Ívar Pálsson, 28.5.2015 kl. 23:23
Takk fyrir að minna á afa minn :) en hann dó reyndar á þorláksmessu 1982 og hét Agnar Kofoed-Hansen
Fyrir fleiri áhugasama má lesa meira um þennan stórmerka mann hér:
http://www.flugsafn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=59&Itemid=147&lang=is
Hulda R. (IP-tala skráð) 29.5.2015 kl. 09:46
Biðst afsökunar á þessum villum og mun leiðrétta þær. Nútímafólk ætti að líta sér nær þegar það fellir dóma um liðna tíð.
Enginn vænir Svía um að þjóna harðstjórunum í Peking þótt núna sé verið að frumsýna fyrsta "kínverska Volvoinn" og nefna má að meðal námsmanna í Þýskalandi á millistríðsárunum var Bjarni Benediktsson, sannur unnandi lýðræðis og frelsis.
Ómar Ragnarsson, 29.5.2015 kl. 12:10
Bestu þakkir Ómar fyrir að minnast á hann, hann var pabbi minn og ég var og er mjög stolt af honum.
kveðja
Hólmfríður
Hólmfríður Kofoed-Hansen (IP-tala skráð) 29.5.2015 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.