29.5.2015 | 12:54
Reglustikuhagfræði á líf og þroska.
Þeir sem elska tölfræði eru nauðsynlegir fyrir þjóðfélagið. En hagfræði er meira en tölur og strikaðar línu í lífi, starfi og þroska einstaklinganna eru ekki reglustikulínur.
Með reglustikuhagfræði er hægt að finna út að að spari þjóðfélaginu miklar fjárhæðir að allir útskrifist úr skóla einu eða tveimur árum fyrr en nú er og komi þar af leiðandi fyrr inn í hóp þeirra sem "skaffa" verðmæti.
Með sams konar hagfræði má komast að þeirri niðurstöðu að sumarleyfi í skólum eigi ekki að vera nema tvær vikur og að nemendur myndu komast hraðar í gegnum skólakerfið ef þeir fengju kost á að sitja tíma í yfirvinnu fram á kvöld og um helgar.
Reglustikuhagfræðin gerir ráð fyrir að nemendur séu eins og ílát sem hægt sé að fylla af þekkingu og kunnáttu líkt og að hella eldsneyti á brúsa.
En með slíku er verið að sniðganga atriði eins og ánægju af mannlegum samskiptum, þroska, víðsýni, lífsgleði og lífsreynslu, ást og hamingju af því að það er ekki hægt að mæla þessi atriði í metrum, klukkustundum, kílóum eða kílóvöttum.
Á árum áður gafst námsfólki tækifæri til þess að lifa og starfa við fjölbreytt störf til sjávar og sveita, kynnast mismunandi aðstæðum og ólíku fólki og öðlast við það víðsýni, þroska og lífsreynslu sem gerði það ánægðara með lífið og gerði það að betri manneskjum og þjóðfélagsþegnum.
Slíka nauðsynlega þætti í lífshamingju og lífsfyllingu er ekki hægt að mæla og það er heldur ekki hægt að fá einskonar "hraðhleðslu" af þeim eins og býðst þegar rafbílar eru hlaðnir.
Af því að reglustikuhagfræðin getur ekki mælt þann ávinning sem fæst við það að sem flestir fari út í atvinnulífið sem þroskaðastir, ánægðastir og hamingjusamastir setur hún töluna núll við þann þátt.
Af svipuðum toga er reglustikuhagfræðin búin að alhæfa um það að fólk eigi ekki að eignast börn fyrr en eftir námsferil, vegna þess að barneign trufli námið og kosti samfélagið peninga.
En sömu reiknimeistarar gleyma alveg að giska á, hvað það kosti að barneignir séu að trufla atvinnuframlag síðar á ævinni þegar fólk er á hátindi getu sinnar í framlagi til þjóðfélagsins.
Þeir gleyma því að því fyrr á ævinni sem fólk eignast börn, því fyrr fljúga þessi börn úr hreiðrinu og taka ekkert tillit til þess að það er algerlega einstaklingsbundið á hvaða tíma ævinnar er best fyrir fólk að eignast afkomendur.
Mikilvægt að njóta menntaskólaára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.