"Sundurlyndisfjandi" byggður á misskilningi.

Sundurlyndisfjandinn var ágætis orð sem notað var um deilurnar innbyrðis meðal Íslendinga á tímum sjálfstæðisbaráttunnnar. Hann lifir því miður góðu lífi enn varðandi togstreitu hópa, sem mynda tvo póla andstæðra skoðana á byggðamálum og sést á ferli í pistlum á netinu þessa daga. 

Hávær hópur hefur haldið því fram með köldum stærðfræðilegum rökum að helst þyrfti að sópa öllu fólki á Íslandi í háreista byggð sem næst gömlu miðborginni í Reykjavík. 

En svona köld og einstrengisleg stærðfræði varðandi það að Ísland verði að vera borgríki, samþjappað við sunnanverðan Faxaflóa, gengur ekki upp. Því að ef henni væri beitt til fulls, myndi vera hægt að reikna það út að það borgaði sig og ætti að vera keppikefli að flytja helst alla Íslendinga til London eða New York og gera Ísland að fámennri veiðistöð með stóriðjuívafi.

Hinn hópurinn heldur því fram að þau 65% þjóðarinnar sem búa á höfuðborgarsvæðinu séu afætur á kostnað 35% hennar. Þessi 35% "skaffi" á þann hátt að á landsbyggðinni sé öll stóriðjan, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn.

Skilgreiningin "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík" hefur verið gert að skammaryrði. En samkvæmt hugsuninni að baki henni voru Jón Sigurðsson og Fjölnismenn öl-lepjandi bjórkráalýður í Kaupmannahöfn. 

Þessi rök halda heldur ekki vatni. Prófessor við Háskólann á Akureyri, á svæði sem flestir skilgreina sem landsbyggðardreifbýli, greindi í fróðlegum fyrirlestri frá alþjóðlegri skilgreiningu á virku borgarsamfélagi, VBS, eða FUA, Functional Urban Area á ensku:

VBS er samfélag með minnst 15 þúsund íbúa þar sem tekur 45 mínútur eða skemmri tíma að fara frá jaðri til miðju.

Þar með nær höfuðborgarsvæðið langleiðina í Borgarnes, austur að Þjórsá og suður á Suðurnes, og á því svæði búa 70% þjóðarinnar. Þetta svæði er í raun eitt atvinnusvæði. Á því svæði eru 60% af stóriðjunni og meira en helmngur af ferðaþjónustunni og sjávarútveginum.

Þess utan er annað VBS, borgarsamfélagið Eyjafjörður sem nær vestur á Öxnadalsheiði, langleiðina til Húsavíkur og norður og suður fjörðinn og dalinn sem bera nafn Eyjafjarðar.

Auk þess má segja að meðan Reykjavíkurflugvöllur er þar sem hann er, sé Akureyri innan VBS Reykjavíkur.

Það eru sem sé tvö virk borgarsamfélög á Íslandi og stærstur hluti VBS á Norðurlandi er innan VBS á Suðvesturlandi og því eru samanlagt um 75% landsmanna innan þessa stóra svæðis.

Sundurlyndisfjandinn, sem blásinn hefur verið upp, og einnig kjördæmaskipunin, byggjast á úreltu mati og misskilningi á báða bóga.    

Tilvera íslenskrar menningar og þeirrar sjálfsvitundar sem nauðsynleg er sjálfstæðri þjóð byggist á því að eyða þessum sundurlyndisfjanda og taka undir með framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, að við séum öll á sama báti og gegnum öll jafn mikilvægu hlutverki í því að skapa samfélag á Íslandi, sem sé samkeppnisfært við það besta hjá öðrum þjóðum, - 

"...sendum út á sextugt djúp

 sundurlyndisfjandann." 

eins og það var orðað á sínum tíma. 


mbl.is Öll í báti sem heitir íslensk þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er enginn sundurlyndisfjandi hérna annar en Samfylkingin.  73% Reykvíkinga og 82% landsmanna vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.  Samfylkingin, sem þykist vilja lýðræðsumbætur, gefur skít í allt þetta fólk.  

http://www.ruv.is/frett/82-vilja-flugvollinn-afram-i-vatnsmyri

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 11:53

2 identicon

Hið mikla ójafnvægi í byggð landins er og verður eitt af stærstu vandamál samfélagsins.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 14:00

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sú þróun heldur áfram að borgin stækkar.  Og stærri bæir stækka.  Fækkar fólki á landsbyggð.  Það virðist ekkert lát á þessari þróun í heildarmyndinni.

Á bakvið þessa þróun eru margar ástæður, harðbýlið, kostir við borgarsamféla eða stærri bæja samfélög.

Ein mikilvæg ástæða er að það hefur aldrei verið neitt plan á Íslandi varðandi byggð í landinu.  Er engin dreifbýlisstrategía eins og í ESB ríkjum.

Stefnir í enn frekari aukningu í Borginni.  Með þeirri þróun eða afleiðingum að landsmál fara óhjákvæmilega að horfa meira til heildarhagsmuna og það munu verða breytingar í áhersluatriðum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.5.2015 kl. 15:26

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samfylkingin sem heild hefur enga sérstaka stefnu varðandi það að flugvöllurinn eigi að fara. 

Innan kjósenda hennar í Reykjavík eins og meðal flestra annarra flokka, er ekki einhugur um málið. 

En ég tek undir gagnrýni á það að ekki sé farið að jafn yfirgnæfandi vilja í flugvallarmálinu og komið hefur fram í skoðanakönnunum og að ekki skuli vera látin fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. 

Ómar Ragnarsson, 31.5.2015 kl. 15:44

5 Smámynd: Snorri Hansson

Þessar vangaveltur mynna á grein (eða erindi í útvarpi) þar sem höfundurinn var að hugsa til Ísfirðinga.  „ Aumingja fólkið hafði verið í myrkri allan veturinn og var að fagna því að í dag sást til sólar !  Væri ekki vit í því að flytja þetta fólk suður í birtuna . Það kæmist auðveldlega fyrir í blokk í Breiðholtinu“

Þessu var nú ekki sérlega vel tekið.

Snorri Hansson, 31.5.2015 kl. 18:34

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er samt þróunin.  Fólk flytur af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið.  Það er ekkert lát á þessu.  Það hefur ekki tekist að treysta landsbyggð þó ýmsir tilburðir hafi verið sýndir á í þá átt, þá eru aðgerðir stjórnvalda ómarkvissar og tilviljanakenndar ef einhverjar.  

Hefur leitt til að fjölmörg svæði útá landi hafa staðnað atvinnu- og menningarlega.

Borgin bíður uppá svo marga kosti.

Það hefur ekki tekist að byggja upp sannfærandi og heildstæðan atvinnu- og félagslegan grunn á landsbyggð.  Þessu hrakar flestu útá landsbyggð í heildarmyndinni meðan sífellt blómstrar á höfuðborgarsvæðinu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.5.2015 kl. 19:54

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps.  það er einna mest fækkun núna í Skgafirði.  Segir eitthvað.  Fólk vill ekki hugarfarslegu stöðnunina og miðja 20.öld.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.5.2015 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband