Róbótar og netheimar raunveruleg ógn?

Eftir því sem tækninni fleygir fram í gerð róbóta vaxa áhyggjur þeirra sem vel þekkja til þeirra mála yfir því hvert þessi bylting muni leiða okkur ef hún heldur áfram til lengdar. 

Sumir telja meira að segja raunverulegan möguleika á að róbótarnir og tölvurnar muni taka völdin af sköpurum sínum og að afleiðingarnar af því geti orðið svakalegar, ekki hvað síst ef þessar tölvur og róbótar verði forritaðir í þeim beina tilgangi að valda tjóni. 

Vonandi rætast ekki hrakspár í þessu efni, en hitt liggur þegar fyrir, að á örfáum árum hafa milljónir manna sogast inn í þá nýju og oft firrtu veröld sem netheimarnir geta verið. 

Sjá má merki um þetta hjá æ fleiri ungmennum, sem virðast í litlum tengslum við raunveruleika mannheima, mikilsverðar fréttir, mannleg samskipti, samfélagsmál og kjör og aðstæður fólks. 

Mestalla þekkingu sína, dægradvöl og samskipti fá þau á netinu og á netinu er auðvelt að detta úr sambandi við raunverulega mannheima og viðfangsefnin í honum. 

Sem dæmi um furðulega vanrækslu í skólakerfinu má nefna, að landafræðikennsla er að mestu horfin úr því, enda hefur það komið fram í "Gettu betur" að fáfræði um sitt eigið land nær jafnvel til afburðanemenda. 

Kostir og möguleikar í netheimum eru ótvíræðir en þó aðeins sem hluti af því sem kalla má mannheima, með beinni upplifun sinni í gegnum öll skilningarvitin, líka lyktarskyn, og í mannlegum samskiptum.

Dæmi um framför, sem netheimar geta veitt inn í mannheima, eru facebook og tvitter sem geta eflt stórlega samskipti fólks, en mega þó ekki draga úr beinum mannlegum samskiptum.  


mbl.is Hverfa inn í tölvuheim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband