21. öldin, öld breytinga í samgöngum.

Nýr hugmyndabíll Audi, ætlaður til borgarumferðar, er "skítbrettin" áföst við hjólin, svo að þau fjaðra með hjólunum.Audi borgarbíll

Hann byggist greinilega á svipaðri hugsun og Renault Twisy, "rafbíll litla mannsins", þar sem tveir geta verið um borð og farþeginn situr fyrir aftan ökumann, sjá myndir. 

Mest seldi rafbíllinn í Evrópu árið 2012. Renault Twizy

Twizy er rafbíll og nýi Audi bíllinn verður líka í boði sem rafbíll. 

En þróunin í rafknúnum farartækjum einskorðast ekki aðeins við rafbíla, heldur koma rafhjól líka við sögu.Reiðhjól, Hvolsvelli 

Í vor hef ég verið að byrja á að fikra mig í tilraunaskyni inn í óhjákvæmileg orkuskipti 21. aldarinnar með því að nota rafhjól í vaxandi mæli, sjá nánar facebook-færslu um það mál.

Reynslan af því hefur verið framar vonum og nú koma margir dagar í röðm þar sem hjólið nægir til borgarsnatts, þótt heimili mitt sé 11 kílómetra frá gömlu miðborginni. 

Raunar eru þetta 10 kílómetrar því að göngu- og hjólabrýrnar yfir Elliðavog stytta leiðina um rúman kílómetra. 

Hægt er að koma því fyrir hentugum skutbíl og á efstu myndinni er það á Hvolsvelli. Rafhjól á stigagangi

Ódýrasti rafknúni kosturinn eru hjól, knúin að hámarki 0,4 hestafla hreyfli km, sem gefur hjólinu ekki meira en 25 km/klst hámarkshraða og þarf því ekki að skrá eða tryggja. 

Þau skiptast í tvo megin flokka:

1. Reiðhjól með rafknúnu hjálparátaki, þar sem hægt er að nota fótaafl og rafafl, annað hvort sitt í hvoru lagi eða til skiptis, - eða bæði fætur og rafhmótor saman. 

2. Rafskutla (rafvespa er afleitt orð, Vespa er tegundarheiti). 

Það má sjá talsvert af nýjum rafskutlum á ferð þessa dagana og margir unglingar hafa sennilega keypt þær fyrir fermingarpeningana.

Minna virðist af nýjum rafreiðhjólum, enda er útlitið á rafskutlunum í tísku, það er meira staðal-farangursrými í rafskutlunum og knapinn í meira skjóli fyrir regni og vindi en á reiðhjóli. Og í staðalbúnaði er yfirleitt smávegis farangursrými.Rafhjól í eldhúsi

En rafreiðhjólin eru að mínum dómi betri kostur en rafskutlur. Þau eru rúmlega helmingi léttari en skutlurnar og rafhlaða og rafmótor eru það létt, að rafreiðhjólin eru aðeins um tíu kílóum þyngri en venjuleg reiðhjól.

Þetta gerir þau mun meðfærilegri en skutlur og þau eyða ekki eins mikilli orku upp brekkur og skutlurnar.Rafhjól í eldhúsi.

Drægið á skutlunum er mun minna, ca 20-30 kílómetrar, en lagnir knapar á rafreiðhjólum komast 60 til 70 kílómetra með því að nýta afl fótanna til hjálpar á úthugsaðan hátt til létta rafmótornum róðurinn og hjóla til dæmis á mun meiri hraða en 25/klst niður brekkur með því að drepa á rafhreyflinum og hjóla með gamla laginu, afli fótanna, eins og hægt er að gera á venjulegum reiðhjólum.

Ef rafreiðhjól verður aflvana, er hægt að hjóla á því áfram með fótafli, rétt eins og á venjulegu reiðhjóli. Það er ekki hægt á skutlunum ef þær verða rafmagnslausar og erfiðara um vik að leiða þær afllausar en meira en helmingi léttari rafreiðhjól.

Á rafreiðhjólin er hægt að setja farangurskörfur bæði að framan og aftan og vegna léttleika og lipurðar komast þau að búðardyrum og jafnvel alla leið inn á eldhúsgólf með matvörurnar, þar sem aðstæður eru heppilegar.

Á meðfylgjandi mynd, þar sem hjólið er komið upp að ísskápnum, er allt á hjólinu, sem það flutti, að undanteknum eigandanum sjálfum.

Því miður fór sama myndin, hjólið í stigaganginum, tvisvar inn á síðuna, og beðist velvirðingar á því.  

Síðan er hjólið, sem ég hef gefið nafnið "Guli-Blakkur", (framleitt í Kína), leitt úr eldhúsinu inn í lítið skrifstofuherbergi, þar sem auðvelt er að hlaða það úr venjulegri heimilisinnstungu.Rafhjól á skrifstofu

Það er alveg ný veröld frá bílaumferðinni að fara um hjóla- og göngustíga borgarinnar. Maður sér vel framan í hvern einasta mann, sem mætt er, og stundum jafnvel kastað kveðjum.

Með hæfilegri notkun fótaaflsins fæst holl hreyfing og orkubrennsla ásamt hressilegri útiveru.

Inni í hverfunum og vestan Elliðaáa er maður stundum fljótari á hjóli eða á bíl og þarf ekki að hafa minnstu áhyggjur af því að leita að bílastæði.    


mbl.is Nýr borgarbíll á prjónum Audi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar nú um borg og bí,
brunar á rafhjóli,
á Gula Blakk hann gefur í,
og góðum hjólastóli.

Þorsteinn Briem, 4.6.2015 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband