12.6.2015 | 21:02
Bara frágengið! Þjóðinni bjargað!
Ekki er að heyra annað en að það stefni í að enn eitt álverið rísi hér með hraði ef marka má tengda frétt á mbl.is.
Álverið á besta stað, skammt frá þremur þéttbýliskjörnum, búið að slá því föstu að Landsvirkjun muni gefa heimamönnum eftir 150 megavött og virkja í staðinn annars staðar eða loka fyrri verksmiðjum, hinir moldríku íslensku lífeyrissjóðir að komast í spilið, kínverska fyrirtækið þrautreynt í bransanum heimafyrir og í Norður-Kóreu og nokkrum af fátækustu löndum heims.
Að vísu eru 150 megavött hvergi nærri nóg fyrir 120 þúsund tonna álver og heldur ekki 206 megavött, heldur þarf 250 megavött eins og talið var þurfa fyrir 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, sem reyndist síðan ekki bera sig nema að stækka það í 346 þúsund tonn.
Og það verður heldur engin hindrun ef marka má glæsifréttina, þótt þreföld reynsla sé fyrir því að svona lítil álver beri sig ekki á Íslandi, heldur þurfi stærðin að verða 360 þúsund tonn og megavöttin 700, sótt að mestu í aðra landshluta.
Hvað þá bygging stórhafnar við Hafursstaði sem virðist svo gott sem gulltryggð.
Sporin frá Vesturbyggð fyrir sjö árum, þegar 99.9% vissa var talin fyrir byggingu risa olíuhreinsistöðvar gulli sleginna þrautreyndra Rússa þar en ekkert hefur sést þar enn, hræða ekki nokkurn mann.
Nei, stóriðju í hvert byggðarlag! Nú þarf að grafa upp álverið stóra, sem átti að koma í Þorlákshöfn 2007 og keyra það áfram! Og drífa álverið í Helguvík í gegn!
Og sæstreng til útlanda til að flytja að lokum inn orkuna sem þarf handa öllum þeim 7-8 risaálverum sem verða að rísa á Íslandi til að stuðla að atvinnuuppbyggingu!
Þorlákshöfn, Helguvík, Straumsvík, Grundartangi, Hafursstaðir, Bakki, Reyðarfjörður, þetta verður bara byrjunin!
Það verður að bjarga þjóðinni! Annars fer hún aftur inn í torfkofana!
Hvar á þetta nýja álver að vera? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Verður Austurdalnum fórnað í þetta? Og í leiðinni einni af bestu rafting á í Evrópu?
Jóhann (IP-tala skráð) 13.6.2015 kl. 05:57
Já, meðal annars, líka Orravatnsrústum og ósnortinni ásýnd hálendisins suður af Skagafirði og valdið mikilli röskun á lífríki hins einstæða sléttlendis í Skagafirðinu.
Lón Villinganesvirkjunar mun fyllast upp af auri á nokkrum áratugum og virkjunin verða ónýtt þrátt fyrir síendurtekngar fullyrðingar um "endurnýjanlega og hreina orku."
En þeir, sem nýlega hafa fjárfest í landareignum á virkjunarsvæðinu munu frá fljótfenginn gróða.
Ómar Ragnarsson, 13.6.2015 kl. 06:16
Það er gott að sjá að einhver er enn að hugsa um hag landsbyggðarinnar. Er ekki hægt að fá þennan mann inn á Alþingi?
Vésteinn Valgarðsson, 13.6.2015 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.