13.6.2015 | 06:05
Ótrúleg "lítil" frétt um Jóhannesarjurtina og Alzheimerssjúkdóminn.
"Lítil" frétt í fréttum Ríkisútvarpsins um svonefnda Jóhannesarjurt í gærmorgun vakti athygli mína. Greint var frá því að jurt með þessu nafni væri búin að vera þekkt víða um lönd, meðal annars í Noregi og á Íslandi, og hefði verið á henni sú trú að með því að neyta hennar skerpti það huga fólks.
Mátti ráða af þessu að þessi trú hefði verið í flokki "hjátrúar og hindurvitna" í grasalækningum sem hlegið hefði verið af um aldir.
En í þessari yfirlætislausu frétt var það hins vegar rakið, að ný rannsókn á þessari jurt og tilraunir með hana leiddu í ljós, að hægt væri að nota búa til úr henni lyf til að halda aftur af Alzheimers-sjúkdómnum og jafnvel að snúa ástandi Alzheimerssjúklinga til baka aftur um allt að eitt ár.
Mér fannst þessi frétt ekki "lítil" heldur stór, ef rétt væri, því að nógu mörg dæmi eru um þennan slæma sjúkdóm, sem herjar á svo marga og rænir þá smám saman persónuleika sínum og andlegri atgerfi uns endirinn verður að lokum ömurlegur dauði.
Ekki hef ég séð minnst á þetta síðan, hvorki í útvarpi né öðrum fjölmiðlum.
Finnst mér það furðu gegna þegar um er að ræða nýjung í lyflækningum sem getur valdið jafn miklum árangri í viðureign við einhvern hræðilegasta sjúkdóm okkar tíma.
Vonast eftir betri lyfjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú löngu vitað Ómar minn.
Sjá t.d. fróðlega samantekt um jurtina á Wikipedia:
http://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3hannesarjurt
Torfi Kristján Stefánsson, 13.6.2015 kl. 09:51
Rannsókn sem gerð var 2006 á þessari jurt og tilraunir með hana leiddu í ljós, að hægt væri að búa til úr henni lyf til að halda aftur af Alzheimers....í rottum. Tilraunir á mönnum hafa gefið vísbendingar um hið gagnstæða.
Nú hef ég, eins og flestir, lítinn áhuga á persónuleika og andlegu atgervi rotta. Og gerði mér enga grein fyrir því að Alzheimers væri vandamál hjá rottum. Því er ég ekki undrandi á takmörkuðum áhuga fjölmiðla á þessum gömlu tíðindum. En þar sem hver rotta er einstök, eins og hraunmoli í Garðabæ eða þúfubarð á hálendinu, þá skil ég vel áhuga Ómars. Og vona að ekki líði á löngu áður en hann geti farið að hjálpa þessum vinum sínum.
Hábeinn (IP-tala skráð) 13.6.2015 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.