18.6.2015 | 08:40
Augljósar ástæður fundnar út með fyrirhöfn og fjárútlátum.
Enn er birt sem stórfrétt atriði sem legið hefur í augum uppi um aldir, sem sé það að rödd hvers manns hljómi öðruvísi í eyrum hans sjálfs en allra annarra og svipað eigi við um spegilmyndir og raunverulegt útlit .
Persónulega upplifði ég þetta fyrst þegar leikritið Dordingull, sem nokkur okkar úr A-bekknum í Lindargötuskólanum, fluttu í barnatíma útvarpsins 1954, hljómaði á ljósvakanum.
Mig minnir að við höfum verið þrjú, sem fluttum þetta leikrit mitt, Ragnhildur Óskarsdóttir (Róska, Jóhanna Þráinsdóttir og ég. Þær eru nú báðar látnar.
Rödd mín hljómaði að sjálfsögðu afkáralega í eyrum mér í þetta fyrsta sinn sem ég heyrði hana utan frá, en á þeim tímum átti fólk ekki upptökutæki og fæstir heyrðu nokkurn tíma upptökur með röddum þeirra sjálfra.
Sífellt er verið að kynna niðurstöður umfangsmikilla rannsókna, sem leiða í ljós augljósa hluti.
Nýjasta dæmið um sjálfsupplifun okkar af röddum okkar og spegilmyndum bætist nú við fleiri lík fyrirbrigði, sem nefnd hafa verið áður á þessari bloggsíðu, svo sem þá merku niðurstöðu viðamikillar neyslukönnunar á níunda áratugnum að Íslendingar neyttu mests matar á milli klukkan tólf og eitt um hádegið og sjö og átta á kvöldin.
Og sú niðurstaða viðamikillar rannsóknar erlends háskóla, að því fríðari sem konur væru, því sjaldnar þyrftu þær að borga fyrir veitingar, sem þær neyttu, þegar herrar byðu þeim út að borða.
![]() |
Hvers vegna hatar þú röddina þína og myndir af þér? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.