20.6.2015 | 22:19
Einum of vinsæl helgi ?
Stundum hrúgast áhugaverðir viðburðir upp á sömu dagana þannig að auglýsingahvatningin "ekki missa af..." verður að vandamáli.
Ég er áhugamaður um flug og bíla, en því miður fyrir mig eru aðalhátíðirnar á báðum sviðunum sömu helgina í júlí.
Það var því í fyrsta sinn í fyrra sem ég gat komið austur á Selfoss hluta úr degi með einn af fornbílum mínum til að njóta góðrar stundar í hópi þeirra sem þar eru á miklu árlegu fornbílamóti.
Öll ár fram að því hafði annað haft forgang, og var flugdagurinn á Akureyri árum og áratugum saman orsök þess þegar við Helga fórum norður, ég lýsti atburðum dagsins þar og við nutum samvista
En síðustu ár kom fram á sjónarsviðið þriðji og sterkasti keppinauturinn um þessa helgi, útskriftir barnabarna okkar Helgu.
Þetta sáum við ekki fyrir fyrir 50 árum þegar við hlóðum niður börnum !
Að sjálfsögðu hafa jafn mikilvægir atburðir í lífi afkomendanna og útskriftir úr háskólum forgang og nú útskrifast að minnsta kosti eitt á ári, svo að eina ferðina enn dettur flugdagurinn á Akureyri út.
Aðgerðir við opnun Sauðárflugvallar detta oft inn á þessa helgi, og höfum við Helga farið nokkrum sinnum beint eftir flugdaginn á Akureyri austur á flugvöllinn.
Nú eru snjóalög einstaklega mikil á Brúaröræfum eins og í fyrra, en það hefur samt verið hægt að fylgjast furðu vel með ástandinu á Sauðárflugvelli vegna þess að veðurstöðin "Brúaröræfi" er aðeins 3 kílómetra frá vellinum og hitinn þar yfirleitt einu stigi lægri en á flugvellinum.
Ég flaug því, eftir að hafa fylgst náið með veðri þarna í allan vetur, á TF-ROS til vallarins síðdegis í gær, lenti þar og valtaði allar brautirnar fimm fram eftir nóttu. Flaug síðan til Reykjavíkur í morgun til að geta verið við útskrift Auðar Óskarsdóttur ( og Ninnu ) sem þjóðfræðings frá Háskóla Íslands.
Eins og loftmynd ber með sér, blasti Sauðárflugvöllur við alauður og þurr þegar komið var að honum í gær, þótt kolófært sé á vegarslóðum á þessu svæði vegna skafla, kraps og aurbleytu.
Þarna var 12 stiga hiti, heiðskírt og hnjúkaþeyr í gær. Í fjarska má sjá Kárahnjúk og Snæfell hægra megin fjær.
Snjó er óvenjulega mikið misskipt á hálendinu, mikill austan við Kreppu, enginn þar fyrir vestan en síðan kafsnjór frá Dyngjuhálsi og vestur úr.
En Sauðárflugvöllur, þaðan sem aðeins er fimm mínútna flug að Holuhrauni, er hér með auglýstur opinn og yfirfarinn.
Set inn í lokin næturmynd af sólarlituðum skýjum um miðnæturskeið í öræfablíðunni.
Einn af hápunktum flugsumarsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.