Miðnætursólin roðar Kverkfjöll.

Það var ekki amalegt að eyða sumarnóttinni á Brúaröræfum og flugi frá Sauðárflugvelli vestur yfir norðausturhálendið í fyrrinótt eftir að hafa horft frá vellinum á miðnæturroða IMG_6573sólarinnar í norðri .

Miðnætursólin sló rauðum bjarma á tignarlegt landslagið, sem er komið undan hvítum snævarfeldi vetrarins á um 30-40 kílómetra breiðu auðu svæði, sem nær frá Kverkfjöllum og norður um Öskju og Mývatnsöræfi.

Kverkfjöll eru næsta stóra megineldstöðin austur af Bárðarbungu og Holuhrauni og gnæfa upp í 1920 metra hæð, en það er þriðja hæsta fjall landsins, næst á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu.IMG_6577

Fjöllin draga nafn af mikilfenglegu skarði í þeim miðjum, sem Kverkjökull rennur niður um.

Fyrir vestan fjöllin er skriðjökullinn Dyngjujökull, sem hefur hörfað um marga kílómetra síðan sporðurinn lá frammi á sandinum, en nú eru miklar sandöldur, sem framburður jökulsins skildi eftir.Kverkfjöll, Kverkin, miðn.sól 

 

Í vestari hluta Kverkfjalla er svonefndur Hveradalur með lóni og sjóðandi hverum, en norðurop hans sést eins og brúnn blettur efst í fjöllunum á meðfylgjandi mynd.IMG_6579IMG_6578

Ef Vatnajökull er kóróna landsins eru Kverkfjöll helsta djásnið í þeirri kórónu:

 

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð,

ögrun við tækniheim mannsins.

Kaga við jökul með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins.

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð

við eldsmiðju darraðardansins.

Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð,

djásnið í kórónu landsins.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál,

fjallanna firrð,

friður og kyrrð. IMG_6581 


mbl.is Nýliðin nótt var sú stysta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært Ómar!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.6.2015 kl. 13:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk. 

Ómar Ragnarsson, 21.6.2015 kl. 20:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég kíkti á athugsemdirnar sá ég að eina mynd vantaði, sú sem tekin var nær Kverkfjöllum. Hef núna sett hana inn. 

Ómar Ragnarsson, 21.6.2015 kl. 21:33

4 Smámynd: Már Elíson

Var einmitt að klára að horfa á Ferðastiklurnar í Sarpinum á Rúv...Þvílíkur þáttur, ómar ! - Hún Lára er verðugur arftaki þinn þarna og þessir þættir, sem og náttúrulega gömlu Stiklurnar, eru alger gersemi. - Mér finnst jafnvel að Ferðastiklurnar séu betri en Stiklurnar þínar, Ómar, og maður lærir alveg rosalega á þessum þáttum. - Þið hittið gjörsamlega í mark. Vonandi verður framhald á þessari yfirferð um magnaðasta land veraldar, landslagslega séð, í náinni framtíð.

Takk fyrir, karl, faðir Láru (eins og hún sagði sjálf) !

Már Elíson, 21.6.2015 kl. 22:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessari yfirferð er lokið. þótt til væri áætlun um viðfangsefni fyrir myndatökur fyrir fleiri þætti í sumar, því að RUV hefur ákveðið að af slíku verði ekki og þar með ekki fleiri þættir gerðir.  

Ómar Ragnarsson, 22.6.2015 kl. 16:55

6 Smámynd: Már Elíson

Sæll, - Það er leiðinlegt að heyra. Mér fannst þessir þættir vera komnir til að vera, allavega klára einhvern "hring".

Ótrúlegt þetta sjónvarp / útvarp allra landsmanna, með skylduáskrift.

Már Elíson, 22.6.2015 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband