Sums staðar mestu snjóalög í áratugi, annars staðar minni.

Í þá rúmlega hálfu öld sem ég hef að staðaldri flogið yfir hálendi Íslands minnist ég ekki annarra eins snjóalaga á þessum tíma árs á stórum svæðum og eru nú. Á efstu myndinni er horft til norðurs yfir sunnanverða Sprengisandsleið með Tungafellsjökul í bakgrunni á myndinni. Sprengisand 19.6.2015

Ágætt tækifæri gafst á föstudag í flugi frá Tungubökkum í Mosfellsbæ til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum til að skoða þetta og kom í ljós að alveg sérstaklega mikill snjór er á afréttum Hreppamanna fyrir suðaustan Kerlingarfjöll. 

Hef ég aldrei séð neitt þvílíkt á þeim slóðum í lok júní. 

Ástandið er lítið skárra á Sprengisandsleið eins og sást á loftmyndum í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi.Skrokköldul. 19.6.2015

Venjulega nægir ekki að snjó taki upp á þessari leið, heldur verður oft að bíða aukalega eftir því að aurbleyta þorni og klaki fari úr jörð.

Kannski er hins vegar minni klaki nú en oft áður vegna þess að mikill snjór einangrar jörðina.

En vel sást, að Landsvirkjun hefur orðið að grafa snjógöng í gegnum stóra skafla á leiðinni upp yfir Skrokköldu.

 

Vonarskarðssvæðið er alhvítt og Hágöngulón ísi lagt þótt nú séu liðnar tvær vikur með góðum sumarhita á hálendinu.

Í baksýn sést Dyngjuháls alhvítur. Vonarskarð 19.6.2015

Í ferðinni í gær var hiti um frostmark í 7000 feta eða 2100 metra hæð, sem er góður hiti að sumarlagi. 

Austar er gríðarlegur snjór á Gæsavatnaleið yfir Dyngjuháls, en fyrir austan hálsinn skiptir alveg um og er að mestu marautt allar götur frá Dyngjujökli norður um til Mývatnsöræfa. 

Enn þetta snjólétta svæði er aðeins um 30-40 kílómetra breitt, því að alveg skiptir um við ána Kreppu og eru óvenjumikil snjóalög á Brúardalaleið og í Brúardölum, þótt Sauðárflugvöllur skeri sig úr að vanda, marauður og valtaður og yfirfarinn í þessari ferð. Holuhraunsl.

Ástæðan fyrir snjólétta svæðinu norðan Dyngjujökuls er sú, að í vetur var eindæma langvarandi suðvestanátt og sunnanátt með snjókomu sem náði alveg austur á Dyngjuháls. 

En hann og Bárðarbunga sköpuðu skjól fyrir norðaustan sig. 

Snjórinn í Snæfelli og á Brúaröræfum er hins vegar til kominn vegna óvenju úrkomusamrar suðaustanáttar síðustu vetur, sem hefur þrýst snjókomu allt vestur að Kreppu. 

Brúaröræfi 19.6. 2015

Á neðstu myndinni er horft í áttina að Fremri-Kárahnjúk og nyrsta hluta Hálslóns, sem er að vísu að mestu í hvarfi vegna þess hve lágt er í lóninu á þessum árstíma. 

Um úrkomuna og veðrið hefur mátt lesa úr úrkomutölum veðurstöðva þarna í vetur. 

 


mbl.is „Snjór enn upp á þakbrún“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband