Hættuleg öfugþróun.

Lýðræðið á í vök að verjast víða um lönd, líka hér á landi. Það sést best á því hvernig einn af valdþáttunum þremur, sem það byggist á, framkvæmdavaldið, sækir til sín æ meiri völd á kostnað hinna tveggja, einmitt þegar öll samskiptatækni með tilkomu netsins ætti að geta aukið lýðræðið og skerpt það. 

Sjá má í bloggpistlum farið háðulegum orðum um Alþingi, sem sé orðið ónýtt og nánast óþarft, af því að allt sem skipti máli, sé afgreitt hjá framkvæmdavaldinu og með umræðum á netinu. 

Þetta er ekki framför heldur afturför nema að menn vilji fagna því að valdið þjappist sem mest saman hjá "sterkum" valdhöfum. 

En þá er hollt að hafa í huga að vald spillir og mikið vald gerspillir. 

Sagan sýnir, að aukin samþjöppun valds og veiking lýðræðis eykur ekki öryggi í heiminum og í einstökum löndum, heldur veldur hún hættu á því að alræði komist á og kveiki skæð átök og stríð.

Nú er jafnvel enn meiri þörf á valddreifingu en nokkru sinni fyrr þegar tekið er tillit til þess að tveir valdþættir, auðræði og vald fjölmiðla, hafa bæst við.

Einkum er auðræðið hættulegt, því að þar er á ferð afl lítils minnihluta mannkyns með mikinn meirihluta fjármagnsins, sem safnast oft saman í svo sterk og öflug alþjóðleg stórfyrirtæki, að ekkert stendur í vegi fyrir þeim.

Á slíkum tímum er aukin þörf á lýðræði, bæði beint lýðræði í gegnum netið eða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hér á landi hefur almenningur misjafnlega mikil áhrif á valdþættina.

Forseti Íslands er eini embættismaðurinn sem er kjörinn beint af þjóðinni. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er honum ætlað ákveðið og afmarkað vald í krafti þess, en þó með svo skýrum valdtakmörkunum, að það verði undantekning að hann þurfi að beita því nema í neyðartilvikum, enda komi reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt í stað þess sem nú er falið í 26. grein stjórnar. 

Alþingi er nú kjörið beint sem heild en því miður ekki þingmennirnir sjálfir hver og einn. Reglur um útstrikanir eru svo veikar, að þær virka yfirleitt ekki að neinu gagni, enda væri betra ef atbeini kjósenda væri jákvæður en ekki neikvæður. Það er hægt með því að lofa þeim að raða sjálfir á listana beint. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að endanlegt vald kjósenda færist úr misvel heppnuðum og bjöguðum prófkjörum inn í kjörklefana sjálfa.

Framkvæmdavaldið er einu þrepi fjær kjósendum en Alþingi. Alþingi ræður að vísu hverjum er falin myndun ríkisstjórnar og hvaða ríkisstjórn það treystir, en ráðherrarnir sækja umboð sitt á afar veikan hátt til kjósenda. Af því leiðir að freisting framkvæmdavaldsins til að hrifsa til sín völd á kostnað annarra valdþátta er svo mikil, að úr hefur orðið það ófremdarástand að þingið er vanmáttug afgreiðslustofnun fyrir ráðherrana og ríkisstjórnina.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er reynt að hamla gegn þessu með því að efla vald þingsins og vald forseta þess og þingnefnda.   

Um dómsvaldið gilda vandmeðfarnar reglur og dómendur eru ekki kjörnir beint.

Því miður virðist sem valdamikil öfl geri allt sem þau geta til að tefja fyrir umbótum í lýðræðisátt.

Þær umbætur verða að felast í skýrari valdmörkum og aukinni valddreifingu svo að lýðræðið verði ekki nafnið tómt og Alþingi rúið trausti, virðingu og þeim völdum sem hæfileg eru fyrir einn af þremur hornsteinum vestræns lýðræðis sem mynda þurfa nauðsynlegt valdajafnvægi.    


mbl.is Samkomulag um þinglok ólíklegt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lýðræðinu er fyrst og fremst ógnað af fólki, sem vill kollvarpa fullveldi Íslands og flytja það til Brussel.
Innan ESB hefði Ísland ekkert með eigin mál að segja, fari hagsmunir okkar gegn hagsmunum sambandsins, eða gegn hagsmunum stærstu ríkjanna innan ESB.
Alþingi yrði valdalaus stofnun og stimpill í höndum ESB, sem gerði fátt annað en að fullgilda lög frá sambandinu.

Það er svolítið hlálegt, þegar fulltrúi í stjórnaskrárnefnd vinstristjórnarinnar tali um að styrkja Alþingi og lýðræði, meðhöfundur að tillögu 111., að þjóðin afsali sér valdi til Alþingis, til framsals fullveldisvaldi, m.a. til erlendra yfirþjóðlegra stofnana á borð við ESB.

Það er líka hlálegt að menn skuli tala um eflingu lýðræðis, þegar þeir eru raunverulega að segja, treystið okkur, það er miklu betra að við afsölum okkur lýðræðinu til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem við höfum bara lýðræðislegan rétt til að kjósa um tillögur sem lagðar eru fram af embættismönnum, en engan til þess að leggja fram okkar eigin. Og þar sem við hefðum 6 atkvæði af 757.

Það er skrýtin umræða, að kvarta yfir skorti á valddreifingu, en boða að valdið sé framselt til tæknikrata í Brussel.

Hilmar (IP-tala skráð) 24.6.2015 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband