27.6.2015 | 12:10
Kosturinn við að ferðast hægt.
Í öld hraðans þykja ferðalög á sem mestum hraða oft eftirsóknarverð. En hraðinn gleypir líka og felur margt áhugavert, sem kann að vera að sjá og upplifa á ferðaleiðunum.
Á þessu byggjast meðal annars töfrar gönguferða og hestaferða. Fuglahreiður og önnur smáatriði verða sýnileg og útivistin kitlar öll skilningarvit, sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu.
Upplifunin verður sterkari og meiri.
Þetta var mín upplifun á árum reiðhjólsins fram eftir unglingsárum og á hestbaki í sveitinn á sumrin.
Eftir að hafa ýmsar þjóðleiðir, svo sem þjóðveg eitt allt austur að Kotströnd í Ölfusi og norður í Norðurárdal í Borgarfirði verða þessir vegarkaflar aldrei þeir sömu í mínum augum.
Ég uppgötvaði aftur gildi lötursins ef svo má að orði komast, þegar ég keypti flugvélina TF-GIN 1968 og fór að fljúga henni.
Hún var mun hægfleygari en vélarnar sem ég hafði flogið fram að því og allt í einu opnaðist ný sýn á flugleiðirnar.
Ég seldi hana en eignaðist hana aftur á árunum 1986-1992 og aftur uppgötvaði ég gildi þess að fljúga hægar, hvað þá þegar ég fór að fljúga "Skaftinu", eins manns opnu flygildi, sem flaug helmingi hægar en TF-GIN.
Frá árinu 2006 hef ég notið þess að aka í opnum bílum og það er líka upplifun þar sem skilningarvitunum öllum er gert hærra undir höfði en í lokuðum og hljóðeinangruðum bílum.
Í vor hef ég á ný verið að uppgötva töfra hjólreiðanna, sem ég hef lýst hér fyrr á síðunni.
Sjáum hreiðrin í vegkantinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Áttu TF-Gin ennþá? Man eftir þegar bróðir þinn var að segja frá því þegar þú flaugst á undan honum í rallý keppni og hann sagðist hafa séð hverja beygju á veginum fyrirfram með því að horfa á eftir flugvélinni.
Síðan eru til þjóðsögur af því þegar þú bakkaðir henni í loftinu í roki fyrir framan flugturnin í Reykjavík.
Einar Steinsson, 27.6.2015 kl. 19:09
Þjóðsagan af því þegar GIN-inu var bakkað var sýnd í Sjónvarpinu og á að vera einhvers staðar til á upprunalegu spólunni er því ekki þjóðsaga.
Henni var bakkað eftir 10 metra langt flugtak á Selfossflugvelli en þegar ég ætlaði að lenda í Reykjavík töldu flugvallarstarfsmenn nauðsynlegt að ég færi hring meðan þeir hálkumældu brautina.
Ég bað þá blessaða ekki að eyða tímanum í það, því að ég myndi ekki þurfa neitt lendingarbrun.
Bað um tvo til fjóra vaska menn til þess að halda við vélina eftir að ég lenti.
Síðan lenti ég án lendingarbruns og lét hreyfilinn vera í gangi þannig að vélin stæði þarna kyrr með stélhjólið uppi.
Með því að nota hliðarstýrið mjúklega gat ég síðan látið hana renna til hliðar á svellinu þangað til hún var komin alveg að flugskýlishurðinni.
Þá drap ég á hreyflinum en einn maður hélt stélinu uppi svo að vélin fengi ekki það mikinn vind undir vængina að hún lyftist.
Aðrir tveir héldu við sitt hvora vængstoð og síðan var vélin lempuð inn í skýlið.
Ég seldi TF-GIN 1992 til Selfoss og hafði þá keypt í hana 50% kraftmeiri hreyfil og flapa til að setja á vængina.
Nú er búið að gera hana glæsilega upp og ég sé alltaf eftir henni.
Hún hefur eiginleika Super-Cub en tekur 100% fleiri farþega!
Ómar Ragnarsson, 28.6.2015 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.