Tölvulíkön alltaf betri en veruleikinn?

Alls konar tölvulíkön eru hluti af þeim miklu tækniframförum sem nú eru á mörgum sviðum.

Þau geta oft náð mögnuðum árangri við að greina afar flókin viðfangsefni. 

En þau geta aldrei orðið betri og nákvæmari en veruleikinn sjálfur. 

Fyrir 50 árum voru engin tölvulíkön og ekki heldur tölvur sem stóðu undir nafni. 

Þess vegna var eina leiðin til að mæla flugskilyrði að og frá Hvassa/Kapelluhrauni að fljúga að og frá vellinum sem oftast í mismunandi vindáttum og veðurskilyrðum. 

Þetta kostaði peninga en annað var ekki talið gerlegt til að kanna þessi skilyrði og bera saman við skilyrðin við Reykjavíkurflugvöll og raunar heldur ekki boðlegt. 

Nú ber svo við að svo virðist sem menn tími ekki að endurtaka þetta úr því að þeir véfengja niðurstöðurnar gömlu, heldur koma fyrir mælitækjum á jörðu niðri sem safna mýgrút talna og upplýsinga sem síðan fer í tölvuvinnslu sem gerir þetta líka fína tölvulíkan byggðan á gríðarlega viðamiklum "flugkvikureikningum".

Útkoman er sú að flugið fyrir hálfri öld hafi skilað kolröngum niðurstöðum og að besta lýsingarorðið yfir veðrið í Hvassahrauni sé "milt".

En eru tölvulíkön því öruggari og betri aðferð sem viðfangsefnið er flóknara?

Ekki var það 2010 og 2011 þegar íslensku eldfjöllin gusu.

Hin rómaða ofurtölva í London hafði rangt fyrir sér um öskumagn í loftinu við Ísland og á íslenskum flugvöllum svo mörgum dögum skipti.

Hún hafði Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll opna þegar mest aska var í lofti, en lokaða þegar miklu minna eða jafnvel ekkert var í loftinu.

Í Grímsvatnagosinu 2011 stefndu tölvukallarnir í London af því að loka Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllum í tvo sólarhringa því að tölvan spáði mikilli ösku í lofti.

Sem betur fór var Jónas Elíasson prófessor búinn að hanna viðurkenndan mælibúnað, sem hægt var að setja um borð einshreyfilsvélina TF-TAL í eigu Sverris Þóroddssonar og fljúga með þessi mælitæki um flugstjórnarsvið flugvallanna tveggja.

Í London var ekki tekið í mál að taka mark á flugumferðarstjórunum í flugturnunum, sem gátu sýnt á Skype að heiðríkja var yfir öllum Faxaflóa svo að Snæfellsjökull blasti við út um gluggana.

Spurning Nóbelskáldsins "hefðurðu pappír upp á það" var það eina sem dugði. Og í tvo daga runnu strimlarnir með mælingatölunum úr fluginu á TF-TAL út og dugðu til þess að halda flugvöllunum opnum.IMG_0125

Mesta mengunin mældist í þrjár sekúndur þegar flugvélin flaug yfir Hellisheiðarvirkjun í 500 feta hæð yfir jörð!

Nú er talað um það að í vændum sé á annað hundrað milljarða króna fjárfesting á flugvöllunum tveimu næstu 25 árin.

Á maður að trúa því að ekki sé, kostnaðar vegna, tekið í mál að gera svipaðar aðflugs- og fráflugsmælingar í raunverulegum flugskilyrðum og gerðar voru á sínum tíma?IMG_0126

Mælingar á jörðu niðri eru ágætar út af fyrir sig en það er ekki verið að mæla skilyrði fyrir bílaumferð heldur flugumferð allt upp í minnst 2000 feta hæð, upp í sjálfa "flugkvikuna"

Að mæla flugkvikuna án þess að fljúga inn í hana sjálfa hljómar undarlega, rétt eins og það gaf oft kolrangar niðurstöður vorið 2011 að mæla öskumagn í lofti í tölvulíkani í London í stað þess að mæla hana í viðkomandi lofthjúpi sjálfum.

Ég átti leið í flugvélinni TF-BON inn til Reykjavíkur eftir hádegi í dag yfir Vífilsstaði og tók meðfylgjandi þrjár rmyndir með nokkurra mínútna millibili.Reykjav. flugv. Aðflug

Efsta myndin sýnir útsýni úr vélinni til suðvesturs í átt til Hvassahrauns, sem varla grillir í fyrir rokmistrinu sem steypist ofan af 700 metra háum fjöllum austan við hraunið, sem hulin eru í rokmistrinu eða "ókyrrðardrullunni" eins og stundum er sagt á flugmannamáli.

Á næstu mynd er horft frá sama stað til Reykjavíkur til norðvesturs og á neðstu myndinni er þremur mínútum síðar horft in til brautarinnar sem er í notkun.

Bláfjöllin eru fjær, hægra megin á myndinni inni í kófinu og þau og Lönguhlíðar eru tvöfalt fjær Reykjavíkurflugvelli en Hvassahrauni. 

 

Þessar myndir sýna mér meira en tölvugerðar mælingar á jörðu niðri hefðu getað sýnt.

Þessar myndir sýna veruleikann, ekki sýndarveruleika.    


mbl.is Flugvallarumræðu hvergi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er ekkert til sem heitir Hvassa/Kapelluhraun. Það er til Kapelluhraun og það er til annað hraun sem kallast Hvassahraun.

Flugskilyrði að og frá Hvassahrauni þurfa ekki að vera eins og flugskilyrði að og frá Kapelluhrauni. Flugskilyrði að og frá Vatnsmýri þurfa ekki að vera eins og flugskilyrði að og frá Breiðholti.

-"Jóhannes heitinn Snorrason drap hugmynd um flugvallarstæði í Kapelluhrauni í einu flugi með þá, sem gældu við þetta flugvallarstæði.Hann bauð þeim í flugtúr í suðaustanátt."  http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1288298/  ------  "... eina leiðin til að mæla flugskilyrði að og frá Hvassa/Kapelluhrauni að fljúga að og frá vellinum sem oftast í mismunandi vindáttum og veðurskilyrðum. Þetta kostaði peninga e...." og því hefur þetta eina flug verið látið duga.

Og af því að 2010 var ekki vitað með vissu hvernig gosaska hagaði sér, hvar hún væri, kornastærð og magn þá voru þær upplýsingar settar í tölvu (við það fékk hún titilinn "ofurtölva" hjá flugáhugamönnum með tölvuhræðslu). Tölvan reiknaði eins og hún gat með þessar gæða upplýsingar, en sannaði bara að tölvur væru gagnslausar til útreikninga á gosösku og öllu sem viðkemur flugi, betra væri að stinga tungunni út um gluggann. ók. (Ætli Ómar viti af því að þessar gagnslausu tölvur reiknuðu út hlýnunina af mannavöldum í sýndarveruleika með gögnum af svipuðum gæðum?)

Hábeinn (IP-tala skráð) 27.6.2015 kl. 19:41

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ef ætlunin er að gera alvöru úr þessum hugmyndum um flugvöll í Hvassahrauni (sem er eintóm þvæla og peningasóun) er eðlilegast að gera athuganir í flugi. Þar væri að mínu mati eðlilegast að notast við Dash 8 vél Landhelgisgæslunnar, búa hana nauðsynlegum mælitækjum, og haga því svo til að hún gerði "aðflug" að mögulegum brautarstæðum í í Hvassahrauni í hvert sinn sem henni væri flogið og þannig safnað gögnum til að bera saman aðflug að brautum með sömu brautarstefnu í Reykjavík. Helsta vandamálið við þetta er að vélin er stóran hluta ársins í verkefnum erlendis.

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.6.2015 kl. 20:22

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er aðeins helmingur af verkefninu að gera aðflug. Hinn helmingurinn er að líkja eftir flugtaki og klifri í áttina að Reykjanesfjallgarðinum, sem er helmingi nær Hvassahraunsflugvelli en Reykjavíkurflugvelli og verður eftir klifur í 1500 fet þrisvar sinnum nær. 

Ómar Ragnarsson, 27.6.2015 kl. 23:14

4 identicon

Æææ, virkar ekki "ómögulegt að lenda" lengur? Og þú að fatta það fyrst núna eftir 50 ár. Ætli þú hafir önnur 50 til að fatta að "ekki hægt að taka á loft" virkar heldur ekki?

Hábeinn (IP-tala skráð) 27.6.2015 kl. 23:46

5 Smámynd: Alfreð K

Treysti frekar raunveruleikanum, sem Ómar hefur upp á bjóða með ljósmyndum sínum og útskýringum hér að ofan, en spám brigðula tölvulíkana úti í bæ.  Geri aðrir betur.

Alfreð K, 28.6.2015 kl. 00:04

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Aðflugi að mögulegu flugvallarstæði fylgir fráflug líka þó ég hafi ekki nefnt það. Punkturinn var fyrst og fremst að benda á með hvaða hætti hægt væri að safna óyggjandi gögnum um flugvallarstæði í Hvassahrauni með tiltölulega litlum tilkostnaði með því að flétta slíkt saman við venjubundin eftirlitsstörf LHG.

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.6.2015 kl. 00:29

7 identicon

Grunnþekkingarleysi á flugi er orðin plága á Íslandi. Pólitíkusar stjórna niðurstöðum kannana og panta rannsóknir sem henta sínum málstað og búa til forsendur fyrir mælingum sem eiga enga stoð í lögum um flug og flugvelli. 

Þegar flugvellir (eða flugvallarstæði) eru skoðaðir er ekki nóg að skoða hvernig aðflug og flugtak gengur í mismunandi áttum í góðum skilyrðum heldur verður að skoða hvernig gengur þegar mótor deyr á versta tíma sem er á tveggja hreyfla flugvél á svokölluðum ákvörðunarhraða, V1. Það er ekki mjög heillandi að bruna inn í fjallgarð í lágskýjuðu veðri eftir flugtak með tilheyrandi niðurstreymi með annan mótor bilaðann.
Þ.a.l. geta sumar þessar flugbrautir sem hugsaðar eru á þessu svæði verið fæddar andvana þar sem afkastageta flugvéla gæti mögulega ekki ráðið við þetta umhverfi. 

Ingvar (IP-tala skráð) 28.6.2015 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband