5.7.2015 | 23:51
Kindin neitar að láta flá sig.
Hyggnir bændur rýja kindur sínar en flá þær ekki. Á svipaðan hátt ganga hyggnir lánardrottnar ekki það hart að skuldurum, að þeim verði um megn að standa í skilum vegna þess að staða þeirra og geta til þess hrynur.
Í Versalasamningunum gengu siguvegararnir í stríðinu svo hart að Þjóðverjum um stríðsskaðabætur að við blasti að engin leið var að borga þær og fyrir bragði hrundi efnahagur þjóðarinnar og jarðvegur myndaðist nasismann.
Eftir Seinni heimsstyrjöldina voru helstu foringjar nasista að vísu dregnir til ábyrgðar og þeim refsað, en í ljósi eftirmála Fyrri heimsstyrjaldarinnar byggðu Vesturveldin upp öflug lýðræðisleg þjóðfélög bæði í Vestur-Þýskalandi og Japan og gáfu þessum þjóðum færi á að taka sig á og koma sterkar inn í samfélag þjóðanna.
Grikkir bera að sjálfsögðu sína miklu ábyrgð á óráðsíunni, sem leiddi þá út í fen óviðráðanlegs skuldavanda, en það þurfti samt tvo til, líka þau fjármála- og stjórnmálaöfl sem áttu sinn þátt í að ausa út lánsfénu.
Nei-ið hjá Grikkjum kann að valda þeim meiri vanda í bráð heldur en ef þeir hefðu sagt já, en það er skárra heldur en að stefna áfram út í æ meiri ófæru gjaldþrotaþjóðar, sem getur ekki borgað skuldir sínar og komist út úr vandanum, nema henni sé gert kleyft að vinna sig út úr honum í stað þess að sökkva æ dýpra.
Talan 2% er sláandi um stærðarhlutföllin í þessum ójafna leik. Grikkir eru um 2% af samanlögðum mannfjölda ESB-ríkjanna og Evran féll um tæp 2% í dag.
Evrópusambandið virðir niðurstöðuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir sem kenna sífellt öðrum um ófarir sínar læra ekkert af reynslunni.
Vestur-Þjóðverjar og Japanir lærðu af Seinni heimsstyrjöldinni, þar sem allt var í rúst hjá þeim eftir styrjöldina, og voru fljótir að byggja aftur upp sín lönd með miklum viðskiptum við önnur ríki en ekki með því að leggja undir sig lönd þeirra, eins og Rússar gera nú við mikla hrifningu Ómars Ragnarssonar.
Þorsteinn Briem, 6.7.2015 kl. 00:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.